Snjódagar í Reykjavík

Svona til að kveðja veturinn endanlega nú á þessum vordögum, þá kemur hér mynd sem sýnir hvenær snjór þakti jörð höfuðborgarinnar síðastliðinn vetur og til samanburðar 23 vetur þar á undan. Fyrir suma er þetta sjálfsagt kunnugleg mynd enda er þetta einn af árlegum dagskrárliðum hjá mér. Upplýsingarnar sem ég nota eru byggðar á eigin athugunum en ég hef skráð snjóhulu ásamt öðrum veðurþáttum frá árinu 1986. Hver lárétt lína táknar einn vetur og hvítur litur sýnir hvenær jörð hefur verið hvít á miðnætti og fjöldi daga er sýndur til hægri. 

snjór 1986-2010
Fjöldi snjódaga var með allra minnsta móti hér í Reykjavík og munaði bara einum degi að snjódagar væru eins fáir og veturinn 2002-03 samkvæmt þessum skráningum. Stundum getur verið vafamál hvort jörð sé hvít á miðnætti eða ekki. Þegar ég skrái þetta miða ég við ca. 50% snjóhulu í garðinum hjá mér. Eitt kvöld var erfiðara en önnur, en það var aðfangadagskvöld þegar jörð rétt gránaði eftir dálitla snjómuggu. Ég skráði þó snjó í það skiptið sem kannski gerir gæfumuninn.

Annars var merkilegur 44ra daga snjólausi kaflinn frá 9. janúar til 23. febrúar, þegar snjóþyngsli ættu annars að vera sem mest. Einnig er líka athyglisvert að síðustu tvo vetur gerði fyrstu snjókomu mjög snemma í október en það segir greinilega lítið um hvernig veturinn kemur til með að verða.

Eins og fólk hefur upplifað hér í Reykjavík og sjálfsagt víðar, hafa síðustu 10 ár yfirleitt verið hlý og snjólétt. Til samanburðar má nefna að ég hef skráð að meðaltali 56 snjódaga á vetri síðustu 10 árin á móti 90 dögum veturna 1986-2000. Það munar um minna.


Athugasemdir

1 Smámynd: Hrólfur Þ Hraundal

Þakka þér fyrir,  þú gerir ýmislegt skemmtilegt þó ekki láti maður ánægjuna alltaf í ljós.  Við Helga ætluðum að flytja í húsið okkar hér við Grundarfjörð undir Kirkjufelli  í desember 94. Var Bara eftir að ganga frá frárennslinu en þá fenti húsið og allt í kaf og frárennslisskurðurinn fannst ekki fyrr en um vorið 95.  Það bras allt saman er nú orðið að skemmtilegum minningum.  Síðan þá hefur ekki ekki fent annað eins við Grundarfjörð.

Hrólfur Þ Hraundal, 2.5.2010 kl. 13:57

2 Smámynd: Emil Hannes Valgeirsson

Ég þakka þér einnig fyrir. Veturinn 1994-95 finnst mér vera síðasti virkilega harði veturinn sem hefur komið á landinu. Þetta var þegar snjóaði heil ósköp á norðvestanverðu landinu og snjóflóð féll á Súðavík. Alla vetrarmánuðina desember-mars var meðalhitinn vel undir frostmarki í Reykjavík en það hefur ekki gerst eftir það.

Emil Hannes Valgeirsson, 2.5.2010 kl. 14:41

3 Smámynd: Heimir Tómasson

Þakka þér kærlega fyrir þetta. Sem gamall snjómoksturmaður verð ég þó að segja að tölurnar þínar úr Reykjavíkinni eiga lítið skylt við veturna á Selfossi á sama tíma, allavegana eru nokkur árin frábrugðin, þó ekki muni meira en fjallinu :-)

Heimir Tómasson, 3.5.2010 kl. 08:00

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband