1.6.2010 | 21:40
Svart og snjólaust á hálendinu
Ég hef öðru hvoru birt línurit með samanburði milli ára á snjódýpt við Setur sunnan Hofsjökuls. Staðurinn er í 693 metra hæð og er þar hvít jörð allan veturinn og snjódýptin oft vel á annan metra. Undanfarin ár hefur snjórinn verið í hámarki í apríl og tekið upp að fullu um miðjan júní. Nú ber hins vegar svo við að eftir mjög snjóléttan vetur er nú snjólaust á Setri, mun fyrr en venjan er (ljósblá lína). Upplýsingarnar gref ég upp af eldri vef veðurstofunnar þar sem hægt er að nálgast snjódýptina hverju sinni og úr þeim upplýsingum vinn ég línuritið og uppfæri reglulega með hálfsmánaðar millibili. Reyndar eru nokkrir dagar síðan snjóinn tók upp þarna en það virðist hafa gerst í kringum 22. maí eftir því sem mátti lesa úr sjálfvirku mælingunni.
Þetta snjólétta vor á Setri er í ágætu samræmi við það hversu þurrt og milt hefur verið í vetur um mestan hluta landsins. Samkvæmt því sem maður hefur heyrt eru snjóalög á jöklum landsins með allra minnsta móti og taldir varhugaverðir yfirferðar vegna snemmopinna sprungna. En þá er komið að þessu svarta í fyrirsögninni. Á gervihnattamynd sem tekin var sólskinsdaginn 24. maí, má sjá að víða er svört jörð á suðurhálendinu og grátt öskulag liggur yfir miðhálendinu og jöklunum þar í kring. Því er hætt við að litadýrðin að fjallabaki verði af skornum skammti í sumar og einhverjar öskuagnir eiga örugglega eftir að þyrlast upp að vitum hálendiskönnuða.
Myndin fengin af MODIS vefnum http://rapidfire.sci.gsfc.nasa.gov/realtime/single.php?T101441320
Flokkur: Vísindi og fræði | Breytt s.d. kl. 21:44 | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.