Heimsókn til Nýja heimsins

Síðustu viku gerði ég mér ferð vestur um haf til að njóta dásemdar hinnar miklu borgar Nýju Jórvíkur þar sem húsin standa upp á rönd í stórum stíl. Borgin sem er betur þekkt sem New York hefur ekki breyst mikið á þeim 22 árum sem liðin eru frá því ég kom þangað síðast, sumt er þó horfið eins og frægt er en annað hefur bæst við. Að sjálfsögðu var myndavélin með í för og til að gefa dálitla innsýn inn í það sem fyrir augum bar kemur hér einskonar myndablogg úr ferðinni.

Hafís í Ameríku

Fyrir það fyrsta þá stenst ég ekki að birta þessa hafísmynd sem tekin er 4. júní við strendur Labrador, eða við Helluland eins og Leifur Eiríks og félagar kölluðu þetta hrjóstruga landsvæði. Þarna er greinilega frekar kuldalegt yfir að líta og vetrarísinn ekki alveg horfinn.

New York, Central Park

Öllu sumarlegra var í Miðgarði laugardaginn 5. júní þar sem borgarbúar hvíldu sig í 30 stiga hitamollu ættaðri beint frá Suðurríkjunum. 

 

New York, Times Square

Á Tímatorgi er alltaf aragrúi af fólki og litríkum ljósaskiltum.

 

New York, mótmæli

Hér kveður við annan tón í skiltagerð. Þetta fólk er statt neðst á Manhattan og er að mótmæla fyrirhugaðri moskubyggingu á þeim heilaga stað þar sem tvíburaturnarnir stóðu áður. Hugmyndin með að reisa þarna mosku er sjálfsagt sú að sýna fram á umburðarlyndi og sáttahug New Yorkbúa gagnvart múslimum og kannski í leiðina að minnka líkurnar á nýjum hryðjuverkum. Það var þó ekki mikinn sáttahug að finna hjá þessu fólki ef marka má það sem á skiltunum stendur. Á meðan svo er má efast um hvort hugmyndir um moskubyggingu þarna sé sniðug. Erfitt getur þó verið að hætta við.

 

New York, Ground Zero

Enduruppbygging eru annars í fullum gangi þarna á Ground Zero. Turnarnir í baksýn voru hluti af World Trade Center en sluppu þegar allt annað hrundi. Þarna er One World Trade Center turninn byrjaður að rísa og verður með spíru og öllu saman hæsta bygging Bandaríkjanna, eða 541 metri sem gera 1776 fet sem kallast á við stofnár Bandaríkjanna. Til að forðast að storka vondum útlendingum munu þeir vera hættir við að kalla bygginguna Freedom Tower en auk hans eru einnig þrjú önnur háhýsi fyrirhuguð á svæðinu.

 

New York, Chrysler byggingin

Ofar á Manhattan, í miðbænum, eru þessar byggingar. Chrysler-byggingin er fyrir miðju en hún var um tíma hæsta bygging heims þar til Empire State sló henni við. Chryslerinn er þó alltaf flottastur.

 

New York, gömul hús

Minna fínni húsin líta gjarnan svona út. Brunastigar utan á húsum eru mikið notaðir í amerískum bófamyndum og njóta sína vel þarna í síðdegisbirtunni.

 

New York, Brooklyn Bridge

Best að enda þetta á borgarljósunum. Hér er horft frá Brooklyn brúnni yfir á háhýsin neðst á Manhattan. Ýmsir eru greinilega að vinna frameftir í þessari miðstöð fjármála. Smíði brúarinnar lauk 1883 og var auðvitað þar um mikið byggingarafrek að ræða. Eftir nokkur ár mun nýi One World Trade turninn gnæfa þarna yfir í baksýn.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Flottar myndir ... hefði alveg viljað skoða fleiri.

Grefillinn Sjálfur - Koma svo! (IP-tala skráð) 13.6.2010 kl. 20:13

2 Smámynd: Emil Hannes Valgeirsson

Myndarleg borg New York, en myndirnar ásamt nokkrum fleirum má líka sjá á myndaalbúmi hér á síðunni.

Emil Hannes Valgeirsson, 13.6.2010 kl. 22:51

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband