Síðustu skaflarnir í Esjunni

Esjuskaflar 6. júlí 2010

Þeir eru orðnir lítilfjörlegir snjóskaflarnir í Esjunni eins og sjálfsagt margir hafa tekið eftir. Eftir þurran, snjóléttan vetur og hlýindi það sem af er sumri er það nú bara dagaspursmál hvenær Esjan verður alveg snjólaus séð frá Reykjavík. Það er svo sem ekkert stórmál hvort þessir skaflar hverfi eða ekki, en hinsvegar er engin ástæða til að gera lítið úr þessu því svona skaflar eru ágætis tíðarfarsmælir og endurspegla snjóalög, úrkomu og hitafar í þónokkuð víðu samhengi. Myndin að ofan er tekin þriðjudaginn 6. júlí 2010.

Mögulega erum við að sjá fram á að skaflarnir hverfi fyrr á þessu ári en gerst hefur í marga áratugi að minnta kosti. Frá árinu 2001 hefur snjó alltaf tekið upp í Esjunni, sem er lengsta tímabil af því tagi sem þekkt er. Yfirleitt hefur snjóinn tekið upp síðsumars í ágúst eða september og jafnvel ekki fyrr en í október. Árið 2003 þótti snjórinn hverfa óvenju snemma en þá hef ég punktað niður hjá mér dagsetninguna 30. júlí eða þar um bil. Við getum verið alveg örugg að snjórinn hverfi fyrir þann tíma.

Í fyrra var það alveg með herkjum að snjórinn næði að hverfa því þann 26. september snjóaði í Esjuna daginn eftir að allur snjórinn hvarf. Sá snjór hélst, og ef til vill á sá septembersnjór hlut í þeim smásköflum sem eftir eru núna í Gunnlaugsskarði í Esjunni.

Til að fá samanburð milli ára þá kemur hér önnur mynd sem ég tók í fyrra svo seint sem þann 9. ágúst og er horft til Esjunnar frá sama stað, eða frá Laugarnesi. Eins og sjá má er nokkuð mikill munur á milli ára, jafnvel þótt myndin í fyrra sé tekin rúmum mánuði seinna að sumrinu.

Esjuskaflar 9. ágúst 2009 
ESJA 9. ágúst 2009.

Í framhaldi af þessu má benda á bloggfærsluna frá apríl þar sem ég bar saman hvernig Esjan hefur komið undan vetri hin síðustu ár:

Hvernig kemur Esjan undan vetri? 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Sveinn Atli Gunnarsson

Eru aðrir skaflar í Esjunni sem bráðna seinna öllu jafna, en þeir sem við sjáum frá Reykjavík? Annars fylgist ég nokkuð vel með þessum sköflum sem þú myndaðir úr vinnunni hjá mér, sé þá úr kaffihorninu og þeir hafa minnkað nokkuð jafnt og þétt undanfarið.

Sveinn Atli Gunnarsson, 7.7.2010 kl. 12:20

2 Smámynd: Emil Hannes Valgeirsson

Kjósarmegin í Esjunni eru skaflar sem eru mun lífseigari en þessir í Gunnlaugsskarði en það eru fáir sem fylgjast með þeim og minna um þá vitað. Þess vegna getur verið vafasamt að segja að Esjan sé snjólaus á einhverjum tímapunkti, nema að taka það fram að talað sé um sjónarhornið frá Reykjavík.

Emil Hannes Valgeirsson, 7.7.2010 kl. 12:33

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband