Steinskriftin kemur til sögunnar

SansSerif

Það má skipta letri í ýmsa flokka eftir útliti, en þó má segja að þrír meginflokkar séu í boði: fótaletur, steinskrift og skriftarletur. Ef við undanskiljum skriftarletur þá datt fáum í hug fram að 20. öld í hug að sleppa þverendum í letri, það þótti bara ekki nógu fallegt. Fótalaus letur voru þó einstaka sinnum notuð í hástöfum, t.d. þegar letur var höggið í stein og því eru þau t.d. hér á landi kölluð steinskrift. Á 19. öld þegar þörfin jókst fyrir sterk og ákveðin letur í auglýsingaplakötum fór æ oftar að sjást fótalaus letur en þau voru þá oftast notuð í bland við aðrar skrautlegri og klassískari leturgerðir.

Fótalaus letur voru á 19. öld gjarnan kölluð Grotesque enda þótt þau vera klossuð og „grótesk“ í útliti, einnig voru þau stundum kölluð Gothic. Í dag eru letrin erlendis almennt kölluð Sans Serifs eða án þverenda og Serifs eru þá þau letur kölluð sem heita fótaletur upp á íslensku. Fyrsta steinskriftin sem teiknuð var fyrir prent og innihélt bæði lágstafi og hástafi kom fram árið 1832 og var einfaldlega kölluð Grotesque.

Akzidenz

Fyrstu steinskriftarletrin sem hinsvegar náðu almennilegri útbreiðslu voru teiknuð nálægt aldamótunum 1900. Af þeim er elst Akzidenz-Grotesk letrið sem kom fram 1898. Það er mjög nútímalegt og venjulegt að sjá og lýkist mjög þeim steinskriftarletrum sem margir þekkja sem Helveticu og Arial en þau hafa einmitt þessi elstu steinskriftarletur sem fyrirmynd. Þessi letur þykja gjarnan vera karakterlaus enda má segja að þau séu eins laus við stæla og hugsast getur, en það þarf þó ekki að vera neikvætt því stundum er einmitt þörf fyrir slíkt.

futura

Steinskriftarletrin fór ekki að njóta almennilegrar virðingar fyrr en hinn móderníski stíll kom til sögunnar á 3. og 4. áratug 19. aldar. Þar hafði kannski mest áhrif hinar framúrstefnulegu hugmyndir sem kenndar hafa verið við Bauhaus skólann í Þýskalandi. Þar dásömuðu menn hin hreinu form svo sem hring og ferning. Allt átti að vera hreint og beint og umfram allt laust við óþarfa skraut og prjál.
Útfrá þessum hugmyndum urðu til letur sem kalla má geómetríska steinskrift. Frægast þeirra er sjálfsagt Futura letrið og ber það líka nafn með rentu en það var hannað í Þýskalandi 1928. Það einkennist af því sem næst hreinum hringformum þar sem því er viðkomið. Futura er mjög algengt letur enn í dag og er til í ýmsum þykktum allt frá örfínu upp í ofurþykkt en auk eru samanþjappar útgáfur nokkuð algengar.

Underground

Annað letur mjög algengt frá þessum tíma er Gill Sans letrið frá árinu 1929. Það á reyndar uppruna sinn í eldra letri sem teiknað var árið 1913 fyrir neðanjarðarlestarkerfi Lundúna. Þar sáu menn einmitt þörfina fyrir einfalt letur sem hægt væri að lesa með hraði eða úr góðri fjarlægð. Líkt og í Futuru einkennist Gill Sans af hreinum hringformum í hástöfum eins og O og G en annars þykir Gill letrið falla undir flokk húmanískrar steinskriftar sem þýðir og formin eru mannlegri og ekki eins afdráttarlaus. Gill Sans er eitt af þessum letrum sem má finna víða í dag en það má þó segja að Skandínavar og Bretar hafi haft sérstakt dálæti á því.

Eiginlega má segja að með steinskriftinni hafi leturþróun náð vissum endapunkti þar sem ekki var hægt að ganga lengra í einföldun leturs án þess að það komi niður á læsileikanum. Það hefur þó aldrei orðið neitt lát á útkomu nýrra leturgerða þar sem tískan og tíðarandinn kallar sífellt á nýjungar. Þetta þarf því ekki að vera síðasti letursögupistillin. Fyrri leturpistla má finna hér á síðunni undir flokknum LETUR.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband