18.2.2011 | 21:53
Ráðgátan um hvarf Clovis fólksins í NorðurAmeríku
Það er ekki vitað með vissu hvenær fyrstu mennirnir komu til Norður-Ameríku. Oftast er þó talað um að fyrstu landnámið sem eitthvað kvað af, hafi verið Clovis fólkið sem þangað kom fyrir um 13-13.5 þúsund árum. Á þessum tímum hafði ísaldarjökullinn hopað nógu mikið til að ferðafært var á milli Alaska og Síberíu og Norður-Ameríka því ekki lengur einangruð frá Asíu.
Þessi þjóðflokkur kom að miklu gósenlandi þar sem allskonar risaspendýr gengu um í flokkum og máttu sín lítils gegn þróuðum örvaroddum veiðimannana. Flest þessara dýra eru útdauð í dag eins og mammútinn, ameríku-úlfaldinn, risaletidýrið og mörg fleiri. Clovis fólkið mun hafa náð talsverðri útbreiðslu í Norður-Ameríku samkvæmt fornleifarannsóknum og lifað góðu lífi, þar til eitthvað verður til þess að fólksfjöldinn fellur um 75% á einhverjum tilteknum tíma. Nýir menningahópar eða þjóðflokkar tóku síðan við í tímans rás en kannski ekki alltaf ljóst hvort um sé að ræða nýja aðkomuhópa frá Asíu eða afkomendur Clovis fólks.
Miklar loftslagssveiflur
Síðasta jökulskeið mun hafa verið í hámarki fyrir um 15-20 þúsund árum og náði ísaldarjökullin þá inn í Bandaríkin samanber ísaldarklappir í Central Park í New York. Fyrstu merkin um lok ísaldarinnar var síðan mjög skyndilegt hlýskeið fyrir um 14 þúsund árum þegar hitinn á norðurhveli jafnaðist allt í einu á við það sem þekkst hefur á nútíma. Hámark þessa hlýskeiðs stóð þó stutt en nógu hlýtt var áfram til að jökulskjöldurinn tók að bráðna hratt. Við þetta myndaðist risastórt stöðuvatn Agassiz-vatn suður af hörfandi jökulskildinum sem síðan mun hafa fundið sér leið að Atlantshafinu með þeim afleiðingum að Golfstraumurinn sem einmitt var kominn á gott skrið varð fyrir svo mikilli árás af ferskvatni að flæðið til norðurs raskaðist og allsherjar ísaldarkuldi skall á að nýju beggja vegna Atlantshafs. Það kuldakast nefnist yngra-Dryas og hófst fyrir tæpum 13 þúsund árum. Augljóst er að svona sviptingar hafa haft mikil áhrif á búsetuskilyrði hinna nýaðkomnu veiðimanna og gætu í sjálfu sér skýrt það sem skýra þarf. En aðrar hugmyndir um hvarf Clovis fólksins eru líka til.
Loftsteinninn ógurlegi
Á síðustu árum hafa verið uppi hugmyndir um að stór loftsteinn á stærð við heilt fjall hafi sprungið yfir Norður-Ameríku fyrir nálega 13 þúsund árum. Afleiðingarnar hafi orðið gífurlegar, ekki bara við höggið sjálft heldur líka vegna mikilla gróður- og skógarbruna í kjölfarið. Myrkur og kuldi lagðist yfir norðurhvel og má ímynda sér að ekki hafi komið sumur í nokkur ár. Lofsteininn má líka tengja við það að stóra Agassis stöðuvatnið fann sér leið til sjávar með þeim afleiðingum sem nefndar voru hér að ofan enda gerðist hvorttveggja nánast á sama tíma. Enginn ummerki í formi gígs hafa reyndar fundist um áreksturinn sjálfan en það hefur verið útskýrt með því að steinninn hafi splundrast áður en hann féll til jarðar. Hinsvegar telja áhangendur þessarar kenningar að ýmsar menjar um mikla bruna og jafnvel loftsteinaleyfar sé að finna í jarðlögum á nokkrum stöðum í Norður-Ameríku frá þessum tíma sem stemmir við lok blómaskeiðs Clovis menningarinnar. Nú síðast í september 2010 var greint frá því að fundist hafi í borkjörnum frá Grænlandsjökli dularfullir ördemantar sem taldir eru renna stoðum undir sendingu frá geimnum á þessum tíma (sjá hér). Þessi loftssteinahugmynd er samt ennþá bara kenning sem vísindamenn taka misalvarlega.
Af mannavöldum
Maðurinn er löngum talinn vera öflugasta rándýr jarðar og fer léttilega með að fella stærstu skepnur með sínum veiðigræjum. Fyrir daga Clovis fólksins var Ameríka gott land fyrir stór spendýr enda var hinn stórhættulegi maður hvergi til staðar. Flestum stórskepnum hafði maðurinn þegar útrýmt í gjörvallri Evrasíu en þar hafði síðan nýtt jafnvægi komist á með smærri og fleiri spendýrum sem ekki var hægt að útrýma með góðu móti. Stóru spendýrin aftur á móti voru ekki bara svifasein, heldur skiptir líka máli að þau voru tiltölulega færri í hóp og lengra á milli kynslóða. Það vilja því margir meina að fjöldaútrýming veiðidýra hafi gert útslagið varðandi skyndilega hnignum Clovis fólksins. Þegar stóru veiðidýrin voru horfin leið talsverður tími uns jafnvægi komst á á ný og löngum hefur sú speki komið frá Indíánum að ekki megi taka meira af náttúrunnar gæðum en náttúran þolir. Kannski hafa þeir lært af biturri reynslu landnemanna.
Mynd: Risaletidýrið átti sér fáa náttúrulega óvini fyrir landnám mannsins í Ameríku.
- - - - -
Hvað raunverulega gerðist þarna undir lok ísaldarinnar í Norður-Ameríku fæst kannski seint endanlegt svar. Ef til vill fæst skýrari mynd ef hægt verður að sanna eða afsanna loftsteinkenninguna, því áhrif af völdum risaloftsteins eru svo afgerandi. Eitt útilokar þó ekki annað í þessu frekar en öðru og allt gæti þetta hafa átt sér stað. Það er hinsvegar vitað að þarna var mikið ójafnvægi á náttúrunni með miklum hitasveiflum og stórfækkun stórra spendýra. Hver þáttur mannsins er í svona dæmum er sígild spurning, ekki bara í sambandi við þessa atburði heldur líka þeim sem eru nær okkur í tíma.
- - - - -
Nokkrar heimildir:
Ice sheet melt triggered ancient Big Freeze
Were Ancient Americans Wiped out by Meteor Strike?
Bókin: Mannlaus Veröld eftir Alan Weisman
Flokkur: Vísindi og fræði | Breytt s.d. kl. 21:56 | Facebook
Athugasemdir
Takk fyrir fróðlegan pistil og vangaveltur Emil.
Sveinn Atli Gunnarsson, 21.2.2011 kl. 15:53
Þetta gæti verið fróðlegt fyrir þig og tengt efni færslunnar: Yfirlitsgrein - The Younger Dryas impact hypothesis: A requiem
Höskuldur Búi Jónsson, 23.2.2011 kl. 11:29
Menn virðast þarna vera að hrekja loftsteinakenninguna. Sjálfum finnst mér frekar hæpið að svona stór loftsteinn geti sprungið upp til agna án þess að skilja eftir sig ummerki á jörðinni.
Fylgist með næstu bloggfærslu!
Emil Hannes Valgeirsson, 23.2.2011 kl. 20:31
Já, þetta eru skemmtilegar pælingar - fylgist spenntur með :)
Annars mundi ég allt í einu eftir að ég hafði skrifað færslu á loftslag.is um málið - þar má allavega finna fjöldan allan af heimildum - sjá Gátan um Yngra Dryas
Höskuldur Búi Jónsson, 23.2.2011 kl. 21:00
Að sjálfsögðu er loftslag.is með á nótunum þótt sumt geti farið fram hjá manni.
Emil Hannes Valgeirsson, 23.2.2011 kl. 22:46
Sú færsla fer hér með í endurbirtingu í fyrramálið
Höskuldur Búi Jónsson, 23.2.2011 kl. 22:53
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.