5.3.2011 | 13:55
Um eldvirkni á Reykjanesskaga
Þar sem hraun hafa runnið getur hraun runnið aftur, það eru einföld sannindi. Reykjanesskaginn er nánast allur eitt eldbrunið svæði með hraunum sem hafa runnið í sjó fram bæði í Faxaflóa og á suðurströnd skagans. Þarna gengur Atlantshafshryggurinn á land og eldstöðvakerfi tengd gliðnun landsins taka svo við hvert af öðru: Reykjaneskerfið, Trölladyngjukerfið, Brennisteins- og Bláfjallakerfið og svo loks Hengilskerfið.
Ef goshrina hefst á Reykjanesskaga væru það mjög athyglisverðir og sögulegir atburðir þótt það sé óvíst hvort þau muni valda meiriháttar tjóni. Það er talið að eðlileg hvíld milli goshrina á Reykjanesskaga sé um 700-1000 ár. Síðasta goshrinan hófst á 10. öld og jafnvel fyrr og stóð yfir með hléum næstu þrjár aldir og nú eru því komin yfir 700 ár síðan gaus þarna síðast svo vitað sé (óstaðfest gos á 14. öld). Þær hreyfingar sem hafa verið í jörðinni undanfarið við Krísuvík vekja eðlilega upp spurningar hvort gos sé þarna í undirbúningi. Sennilega er þetta bara hefðbundin skjálftavirkni tengd gliðnun landsins, en hver veit? Til að átta sig á hvað gæti gerst er forvitnilegt að skoða eldvirknina á Reykjanesskaganum á fyrstu öldum Íslandsbyggðar, sem var í stórum dráttum þannig:
Bláfjallaeldar hófust skömmu fyrir árið 1000 og stóðu yfir í nokkra áratugi. Þá runnu talsverð hraun til suðvesturs og náðu að sjó við Herdísarvík, einnig í norðvestur og jafnvel til sjávar við Straumsvík. Hraun runnu að auki frá Bláfjöllum í átt að Reykjavík þar sem Hólmshraun er ofan Heiðmerkur. Kristnitökuhraunið tengist þessu eldstöðvarkerfi, en talið er að þar sé átt við Svínahraun sem þjóðvegur 1 liggur um nálægt Þrengslagatnamótunum.
Krísuvíkureldar sem tilheyra Trölladyngjukerfinu, stóðu yfir á árunum 1151-1180. Þá rann meðal annars Ögmundarhraun í sjó til suðurs en til norðurs náðu tveir mjóir hraunstraumar í sjó við Straumsvík og sunnan Hafnarfjarðar. Þetta er það eldstöðvakerfi sem liggur næst Höfuðborgarsvæðinu en sprungukerfi þess nær í áttina að Helgafelli og svo áfram að Rauðavatni. Apalhraunin í Hafnarfirði, Garðabæ og Heiðmörk koma frá þessu kerfi en þau eru frá því fyrir landnám og yfirleitt mjög gömul.
Í Reykjaneskerfinu voru talsverð gos árin 1211-1240. Þá runnu hraunin á svæðinu þar sem nú er Bláa Lónið og einnig í sjó fram austur af Reykjanesi. Einnig gaus að hluta til á ströndinni og í hafinu og olli það miklu öskufalli SV-lands og fékk meira að segja sjálfur Snorri Sturluson að kenna á því þegar hann þurfti að fella fjölda nautgripa af þess völdum.
Hengilssvæðið sem sprungukerfi Þingvalla tilheyrir, slapp við eldsumbrot í síðustu goshrinu en þarna gaus síðast fyrir um 2.000 árum. Árin 1994-99 voru þarna tíðir jarðskjálftar sem taldir eru tengjast kvikuinnstreymi á svæðinu sunnan Hengils en þar virðist land hafa jafnað sig aftur.
Ef gos kemur upp á Reykjanesskaganum eru allar líkur á því að um væri að ræða svipuð gos og urðu í Kröflueldum seint á síðustu öld, þ.e. sprungugos með hraunrennsli en litlu öskufalli. Þetta yrðu væntanlega ekki stór gos en gætu komið upp hvað eftir annað í nokkur ár eða áratugi í senn. Hætta á öskufalli getur verið ef gýs í grunnum sjó skammt undan landi en einnig ef gos kæmi upp í Þingvallavatni, minniháttar sprengivirkni eru líka möguleg. Það eru mjög litlar líkur á því að gossprunga opnist í byggð en nokkrir þéttbýlisstaðir og sumir staðir höfuðborgarsvæðisins gætu vissulega verið í veginum ef hraunrennsli leitaði til sjávar. Helstu hættusvæðin á höfuðborgarsvæðinu hljóta að vera þar sem hraun eru í dag. Vallahverfið syðst í Hafnarfirði og álverið gæti verið í mestri hættu ef hraun rennur í norðvestur frá miðjum skaganum. Ef hraun nálgaðist Reykjavík eru allar líkur á það leitaði í farveg Elliðaánna og næði jafnvel í sjó við Elliðavog eins og gerðist með Leitarhraun fyrir 4.700 árum. Sama hraun myndaði gervigígana við Rauðhóla en sjálft hraunið er upprunið ofan af Bláfjallasvæði.
Ýmis meiriháttar óþægindi hljóta að verða ef mikilvægar samgönguæðar, rafmagnslínur eða veituæðar rofna sem þarna liggja þvers og kruss. Ekki má svo gleyma gufuaflsvirkjununum, en kannski verða næstu gos einmitt þegar búið verður að raða þeim eftir endilöngum skaganum. En hvað um það, það eru ekki líkur á að við þurfum að þola hamfaragos sem gæfi tilefni til allsherjar rýmingar fólks af höfuðborgarsvæðinu.
- - - -
Þessi bloggfærsla er að grunni til frá því í desember 2007 en hefur verið uppfærð vegna jarðskjálftahrinunnar við Krísuvík á dögunum.
Flokkur: Vísindi og fræði | Facebook
Athugasemdir
Gos á Reykjanesi, tala nú ekki um ef þau kæmu undir sjávarmáli, myndu a.m.k. trufla umferð um Keflavíkurflugvöll og kannski líka í Reykajvík.
Sigurður Þór Guðjónsson, 5.3.2011 kl. 18:22
Fróðleg færsla.
Ég hef velt því fyrir mér hvort Vallarhverfið í Hafnarfirði væri ekki einmitt byggt í hraunfarvegi. Hélt reyndar að það væri hrauntunga frá Bláfjöllum en sé núna að þetta er úr Krísuvík eftir myndinni að dæma.
Það eru orðin mikil landþrengsli þegar menn byggja í gömlum hraunfarvegum.
Þorsteinn H. Gunnarsson, 5.3.2011 kl. 21:22
Hraun frá Grindaskörðum og Þríhnjúkasvæðinu munu hafa runnið til sjávar sunnan við Hafnarfjörð í næst-síðustu goshrinu á Reykjanesskaganum fyrir 2000 árum þannig að þetta virðist vera vænleg leið fyrir hraunstrauma úr bæði Trölladyngju- og Brennisteinsfjallakerfinu. Það yrði mikið vesen ef hraun flæddi til sjávar á þessum stað: íbúðarhverfið, Reykjanesbrautin og þar með samgöngur um Keflavíkurflugvöll, raflínur og ekki síst álverið (sem mætti mín vegna hverfa undir hraun þegar kreppan er búin).
Emil Hannes Valgeirsson, 5.3.2011 kl. 22:10
Álverið stendur eilítið hærri og mundi verjast.
,,Ef gos kemur upp á Reykjanesskaganum eru allar líkur á því að um væri að ræða svipuð gos og urðu í Kröflueldum seint á síðustu öld, þ.e. sprungugos með hraunrennsli en litlu öskufalli. Þetta yrðu væntanlega ekki stór gos en gætu komið upp hvað eftir annað í nokkur ár eða áratugi í senn" segir þú í færslunni.
Ætli þetta yrðu ekki bara svona hraunslettur.
En að mörgu þarf að hyggja.
Þorsteinn H. Gunnarsson, 5.3.2011 kl. 22:31
Já þetta segi ég. Hef þetta upp úr heimildum t.d. bókinni Íslandseldum eftir Ara Trausta sem oft er vitnað í. Sum gosin verða sjálfsagt bara smáslettur en stundum getur greinilega slettst vel útfyrir.
Emil Hannes Valgeirsson, 5.3.2011 kl. 23:03
Takk kærlega fyrir vandaðan og skemmtilegan pistil. Ljómandi mynd til skýringar.
Arnar Pálsson, 9.3.2011 kl. 13:23
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.