2.4.2011 | 10:10
Vetrarhitasúlur
Í tilefni þess að veturinn ætti nú að vera liðinn hef ég útbúið dálitla mynd sem sýnir hvernig hitinn í Reykjavík var frá degi til dags yfir vetrarmánuðina frá nóvember til mars. Þetta er unnið upp úr mínum eigin veðurskráningum en hver súla á að sýna dæmigerðan hita yfir daginn í Reykjavík. Nánari bollalengingar eru undir myndinni.
Eins og sést þá einkenndist veturinn af miklum óstöðugleika í hitafari sem sjálfsagt er ekkert svo óeðlilegt fyrir þennan árstíma þegar nægt framboð er af ísköldu heimskautalofti og suðlægu mildara lofti. Vetrardagar hjá okkur geta auðveldlega farið í 6-8 stig en ekki mikið hærra en það, hámarkið sjálft er gjarnan rúmlega 10 stig. Í hinn endann er mjög algengt að kaldasti dagurinn í Reykjavík sé í kringum mínus 10 stig en mestu frostin standa hér þó yfirleitt stutt.
Veturinn byrjaði nokkuð bratt með kaldasta nóvember síðan 1996 en desember var ögn hlýrri en mjög sveiflugjarn í hita. Hressilegur kuldakafli kom snemma í janúar en síðan tóku við miðvetrarhlýindi eins og svo algeng eru orðin undanfarin ár. Eftir mjög hlýjan febrúar kom kaldasti mánuður vetrarins en með hlýrri dögum í lokin náði nýliðinn marsmánuður að skríða yfir frostmarkið í meðalhita.
Kaldasti dagur vetrarins var 6. janúar en þá var um 10 stiga frost í Reykjavík og fór niður fyrir 11 stig sama sólahringinn. Þann dag var ansi hvass vindur beint úr norðri eins og ég og myndavélin fengum að finna fyrir uppi á Öskjuhlíðinni. Ég hef nefnilega dálítið verið að mynda bæinn frá þessu sjónarhorni undanfarið og þá ekki síst þegar veðrin eru verst. Kuldinn skilar sér reyndar ekki sérlega vel á myndinni og engan snjó að sjá nema eitthvað lítillega í Esjunni.
- - - -
Eitt í viðbót. Nú er ég búinn að stofna nýtt myndaalbúm hér á síðunni með samansafni af ýmissi veðurgrafík sem ég hef sett saman í gegnum tíðina. Þar má meðal annars sjá til samanburðar vetrarhitasúlurnar frá vetrinum í fyrra sem voru mun rauðari. Það er kominn tími á uppfærslu á sumum þessara mynda og verður það gert smám saman.
Meginflokkur: Veður | Aukaflokkur: Vísindi og fræði | Breytt s.d. kl. 10:15 | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.