Hvernig kemur Esjan undan vetri?

Eins og venjulega í upphafi hvers aprílmánaðar er nú komið að einum af þessum föstu dagskrárliðum hjá mér, sem er hinn ómótstæðilegi árlegi myndasamanburður á snjóalögum Esjunnar. Að þessu sinni var ljósmyndin tekin mánudaginn 4. apríl í góðu skyggni en ekki miklu sólskini. Kollur Esjunnar hefur undanfarið verið allvetrarlegur enda hefur snjóað í éljaveðri síðustu daga.

Þrátt fyrir vetrarhaminn í efri hlíðum þarf þetta ekki endilega að þýða að snjóskaflar Esjunnar séu umfangsmeiri í ár en venjulega. Það snjóaði vissulega talsvert í mars en ekki svo mikið fyrri hluta vetrar. Snemma í janúar var t.d. mjög lítill snjór í Esjunni eins og má sjá á myndinni í síðustu færslu. Mikið af snjónum hefur fallið í þrálátum suðvestan-éljagangi en snjókoma úr þeirri átt fóðrar ekki að ráði lífseigustu skaflana vestur af Kerhólakambi og Gunnlaugsskarði.

Öll þessi samanburðarár hafa Esjuskaflar náð að bráðna fyrir haustið og hafa reyndar gert frá árinu 2001. Ég sé enga ástæðu til spá öðru en að svo muni einnig verða í ár, nema sumarið taki upp á því að verða kaldara og ómögulegra en verið hefur lengi, sem kannski er kominn tími á.

Hér að neðan er umrædd myndasería. Auk dagsetningar myndatöku má sjá hvenær ég tel að snjórinn hafi horfið um sumarið.

Esja april 2011

Esja april 2010

Esja april 2009

Esja april 2008

Esja april 2007

Esja april 2006


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Sveinn Atli Gunnarsson

Svona til gamans, þá ætla ég að leggja út með örlítin spádóm. Er hann sá að snjórinn fari úr Esjunni í ár og að það gerist þann 7. ágúst...eða jafnvel fyrr. En það myndi þá vera í fyrra fallinu miðað við áður.

Sveinn Atli Gunnarsson, 6.4.2011 kl. 23:59

2 Smámynd: Emil Hannes Valgeirsson

Alltaf ert þú spáglaður Svatli.

Emil Hannes Valgeirsson, 7.4.2011 kl. 09:46

3 Smámynd: Höskuldur Búi Jónsson

Emil - ég pant fara í göngutúr með þér til að skoða skaflana í sumar

Höskuldur Búi Jónsson, 7.4.2011 kl. 10:50

4 Smámynd: Ágúst H Bjarnason

Sæll Emil

Sjálfsagt veist þú þetta, en...

Við Rutgers háskóla í Bandaríkjunum er "Global Snow Lab".

http://climate.rutgers.edu/snowcover/

 Þar má sjá ferla sem sýna snjóþekju, t.d. á norðurhveli frá 1966 til 2011.

http://climate.rutgers.edu/snowcover/chart_anom.php?ui_set=0&ui_region=nhland&ui_month=3

Hvernig ber þessum global (eða næstum) ferlum saman við litlu Esjuna okkar?

með góðri kveðju,

Ágúst H Bjarnason, 7.4.2011 kl. 11:52

5 Smámynd: Emil Hannes Valgeirsson

Takk Ágúst. Ég hef ekki skoðað þessa snjóþekjuferla að ráði eða borið saman við Esjuna okkar. Ég ímynda mér reyndar að það sé lítið samræmi í snjóþekju hjá okkur og meginlandanna milli ára, en sennilega sviðuð langtímaleitni.

En Höskuldur. Skabblaferð er alveg inni í myndinni. Ég fer stundum upp í Gunnlaugsskarð síðsumars.

Emil Hannes Valgeirsson, 7.4.2011 kl. 13:52

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband