28.5.2011 | 11:53
Gömlu Bíóin II
Áfram skal haldið upprifjuninni um gömlu góðu bíóin sem maður heimsótti á seinni hluta síðustu aldar. Í fyrri hlutanum tók ég fyrir fjögur kvikmyndahús en í þessum seinni hluta verða þau fimm. Í hléinu fengum við óvænt gos (en ekkert popp) og það er ástæðan fyrir því að þessi bíóblogg koma ekki hvort á eftir öðru. Við byrjum miðsvæðis en förum svo aðeins víðari rúnt um bæinn. Sem fyrr eru myndirnar af húsunum nýjar en miðarnir gamlir.
Stjörnubíó hóf starfsemi árið 1949 en á þeim árum var mikill uppgangur í bíóhúsamenningu borgarinnar. Stundum er sagt að Stjörnubíó hafi staðið á álagabletti en saga þess markast af tveimur brunum. Fyrst árið 1953 og svo öllu verri bruna árið 1973 sem kallaði á algera endurnýjun hússins. Það var kannski þess vegna sem manni fannst Stjörnubíó vera nýrra en það var, allavega voru sætin þægilegri en gerðist annarstaðar. Í Stjörnubíói horfði maður agndofa á geimverumyndina Náin kynni af þriðja tagi eftir Spielberg en Norska brúðumyndin Álfhóll var einnig eftirminnileg, ekki síst vegna rússíbanaatriðisins stórkostlega. Sögu Stjörnubíós lauk árið 2002. Húsið var þá rifið til grunna og nýtt umfangsmikið hús með undirgöngum reis í staðinn. Kannski vildu menn ekki storka örlögunum af fenginni reynslu og þótt vissara að hafa sem allra minnst jarðsamband á nýju byggingunni þar sem Stjörnubíó stóð áður.
Regnboginn við Hverfisgötu tók til starfa árið 1980 og var mikil nýjung í bíóhúsamenningu borgarinnar. Þetta var fyrsta kvikmyndahúsið með mörgum bíósölum. Það hafði augljósa kosti í samkeppninni og nokkuð sem önnur kvikmyndahús þurftu að bregðast við. Salirnir voru hver í sínum lit og því lá beinast við að kalla kvikmyndahúsið Regnbogann. Ein af fyrstu myndunum sem ég sá í Regnboganum var stórmyndin Hjartarbaninn sem var alvöru mynd bönnuð innan 16 og ég bara 15. Regnboginn hélt lengi út sem venjulegt kvikmyndahús en haustið 2010 var ákveðið að gera húsið að metnaðarfullu heimili kvikmyndanna undir heitinu Bíó Paradís sem sýnir ýmist nýjar eða sígildar myndir fyrir djúpþenkjandi fagurkera, en slíkt hefur löngum þótt vanta í kvikmyndahúsaflóruna.
Tónabíó við Skipholt var starfrækt af Tónlistarfélagi Reykjavíkur frá árinu 1962 en félagið hafði áður séð um rekstur Trípólíbíós á Melunum. Þrátt fyrir að vera ekki í miðbænum var Tónabíó nokkkuð vinsælt bíó og kærkomið fyrir okkur sem ólumst upp í Háaleitishverfinu. Þarna var hægt að sjá Peter Sellers fara á kostum í Bleika Pardusnum og ekki síður Roger Moore sem James Bond. Rússarnir koma var þarna líka, alveg bráðskemmtileg. Magnaðasta myndin var þó Dómsdagur nú eftir Coppóla, en reyndar hefur mig aldrei sifjað eins mikið í bíó og í lokaatriðum þeirrar myndar. Það sama gerðist er ég sá myndina aftur í sjónvarpi 15 árum síðar. Það er langt síðan ég hef stigið inn í þetta hús en margir heimsækja það reglulega til Bingóiðkunar.
Laugarársbíó er elsta kvikmyndahúsið sem enn er starfrækt í Reykjavík en sýningar hófust þar árið 1956. Húsið tengist öldnum sjómönnum sterkum böndum því það er sambyggt dvalarheimili DAS og var lengst af rekið af sömu aðilum, eða þar til Myndform tók reksturinn yfir árið 1993. Til að halda velli í samkeppninni þurfti að stækka húsið og bæta við aukasölum því ekki dugði að lengur að bjóða bara upp á eina mynd í einu. Af mörgum góðum myndum í Laugarbíó man ég ekki eftir neinum sem standa upp úr en Vígastjarnan Galaktíka á þann vafasama heiður að vera fyrsta myndin sem mér hálfleiddist á í bíó. Í dag stendur Þorfinnur Karlsefni vígalegur mjög fyrir utan bíóið, spurning hvort kappinn hafi mikinn áhuga á Brúðarmeyjunum sem þarna er auglýst til sýningar.
Háskólabíó var formlega tekið í notkun 1961 á 50 ára afmæli Háskóla Íslands en áður hafði Háskólinn komið að rekstri Tjarnabíós í gömlu íshúsi við Tjörnina. Í þessu mikla harmónikkulagaða húsi hefur margt stórmennið stigið á svið. Stórar hetjur hafa líka birst á sýningatjaldinu. Sjálft Ofurmennið sveif þarna um árið 1979 og bjargaði heiminum sem oftar, King Kong fór hamförum uppá á Tvíburaturnunum og John Travolta grísaðist með greiðsluna í lagi. Háskólabíó stækkaði með nýjum sölum í hliðarbyggingu og nú eru kvikmyndasýningar einungis í þeim húsakynnumi. Sinfóníuhljómsveitin er nýhorfin á braut í ennþá meira hús, þannig að nú er svona frekar tómlegt að horfa til Háskólabíós frá Melatorginu.
- - - -
Það örlar ennþá á bíómenningu í borginni þótt flest gömlu bíóin séu horfin eða hætt. Sú menning finnst þó ekki í miðbænum í sama mæli og áður, en miklu frekar í stórum verslunarkjörnum víðsvegar um borgina. Þangað liggja víðir vegir og margar akreinar.
Fyrri hluti Gömlu bíóanna: http://emilhannes.blog.is/blog/emilhannes/entry/1168221
Meginflokkur: Kvikmyndir | Aukaflokkur: Menning og listir | Facebook
Athugasemdir
Þegar maður var yngri, þá puntaði fólk sig upp til að fara í bíó, rétt eins og það væri að fara til veislu. Ilmvatns og rakspíraeimurinn fyllti salinn.
Þrjúbíóin fyrir okkur krakkana voru á sunnudögum og ekkert umfram það. Það var hátíðarstund. Hárið greitt upp í kjöl, svört jakkaföt, hvít nælonskyrta og lakkrísbindi í teygju að ógleymdum gljápússuðum bítlaskóm. Brilljantín.
Neyslumenningin breytti þessu og með tímanum verður þetta varla meiri tilbreyting en að fara á klóið. Þetta er þó miklu dýrari munaður nú en þá.
Verður þetta ekki svolítið söguleg mynd að Háskólabíói þarna? Mér sýnist askan úr Grímsvötnum brydda húsið og gott ef muggan að baki er ekki aska líka.
Jón Steinar Ragnarsson, 28.5.2011 kl. 12:13
Það er freistandi að segja að þetta sé gosaska þarna á Háskólabíói en myndin er reyndar tekin fyrir gos í kvöldbirtu þann 15. maí. Veðrunin er kannski tímanna tákn. Svo má benda á hrafninn sem situr uppundir vinstra horni hússins.
Emil Hannes Valgeirsson, 28.5.2011 kl. 12:56
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.