Hversu gott var veðrið í júlí?

Þá er komið að veðurdagbókaryfirliti fyrir nýliðinn júlí í Reykjavík ásamt smá samanburði við fyrri ár en meiningin er að birta samskonar yfirlit fyrir alla sumarmánuðina nú í ár. Eins og ég nefni alltaf í inngangi er aukaafurð þessara skráninga einkunnakerfið sem tekur mið af veðurþáttunum fjórum: sól, úrkomu, vindi og hita, þannig að alslæmir dagar fá 0 stig og algóðir dagar einkunnina 8. Það telst gott ef meðaleinkunn mánaðarins er yfir 5 stigum en afleitt ef hún nær ekki 4 stigum. Þessar skráningar hafa staðið yfir frá árinu 1986 og miðast eingöngu við veðrið í Reykjavík yfir daginn.

Skráning júlí 2011Hér er veðurskráningin fyrir nýliðinn júlí. Tölurnar aftast eru einkunnir. Í dálki á eftir vindörvum er hiti dagsins. Táknin þar fyrir aftan segja til um hvort hiti dagsins teljist í meðallagi, hlýr eða kaldur. Í júlí miða ég meðallagið við 11-15 stig.

Júlí 2011 – Einkunn 5,0
Nýliðinn mánuður fékk samkvæmt þessu skráningarkerfi einkunnina 5,0 sem er frekar góð einkunn og stendur fyllilega undir þeim kröfum sem við erum farin að gera til sumarmánaða í dag en veðurgæði hafa greinilega aukist að sumarlagi hér í Reykjavík.

Megnið af mánuðinum var mjög þurrt og til marks um það skráði ég enga úrkomu dagana frá 2. til 25. júlí sem þýðir að úrkoma á því tímabili var svo lítil að ekki tók því að nefna hana en úrkoma gæti þó hafa fallið að næturlagi. Dropadálkurinn aftan við loftvog á miðnætti sýnir hvort jörð sé blaut á miðnætti en sá dálkur er alveg auður í 20 daga samfleytt. Þessu þurrkatímabili (sem í raun hófst mun fyrr) lauk þann 26. með ekta landsynningsrigningu úr suðaustri og eina stig dagsins fékkst fyrir 13 stiga hitann sem ekki er hægt að kvarta yfir.

Einn dagur fær fullt hús stiga (8) en það er föstudagurinn 15. júlí sem jafnframt er heitasti dagurinn. Annars fá dagar ekki 8 stig nema þeir hafi virkilega unnið fyrir því. Einkunnin 0 er hinsvegar mjög sjaldgæf enda fer ekki saman mikil úrkoma og kuldi hér í Reykjavík.

Vindurinn í mánuðinum var ekkert sérlega hægur að meðaltali en aðallega þá vegna nokkra hvassra daga þar sem strekkingsvindur var úr suðaustri og því er gildi suðaustanáttarinnar (27) frekar hátt í vindáttaboxinu sem er þarna niðri til vinstri. Einkenni góðra sumarmánaða í Reykjavík er há tíðni norðvestanáttar sem gjarnan fylgir sólardögum sem hafgola. Norðvestanáttin hefur að þessu sinni næsthæsta gildið (12) á meðan sunnanáttin er t.d. í núlli. Þegar hálfir og heilir sólardagar hafa verið lagðir saman er útkoman 12 sólardagar sem er bara fínt – sama og var í fyrra, en samt nokkuð frá því besta.
Hitinn í mánuðinum er í samræmi við hlýindi síðustu ára. Enginn dagur telst vera kaldur og 5 dagar teljast hlýrri en viðmiðunin segir til um. Ekki fengum við 20 stig að þessu sinni en í Reykjavík má alls ekki ætlast til þess á hverju sumri þrátt fyrir almenn hlýindi. Kannski mun komandi ágústmánuður bæta þar úr.

Bestu júlímánuðir frá 1986.

Júlí 2009 - Einkunn 5,8. Þessi mánuður slær allt annað út í einkunnagjöf og má kallast alger stjörnumánuður. Meðalhitinn var örskammt frá mánaðarmetinu, sólskin það mesta frá 1974 og úrkoma sú minnsta síðan á 19. öld. Þessi háa einkunn ræðst ekki síst af því að góðviðriskaflinn hitti nokkuð vel á mánuðinn. Eini gallinn var stutt kuldakast seint í mánuðinum sem frægast er fyrir að hafa fellt kartöflugrös í Þykkvabænum.
Júlí 2007 - Einkunn 5,5. Sögulega séð er þessi mánuðir síðasti mánuðurinn þar sem góðæri ríkti í fjármálakerfi heimsins en síðan hefur leiðin bara legið niðurávið. Veðurfarslegt góðæri hér í Reykjavík stendur þó fyrir sínu. Þessi næst besti júlímánuður var ákaflega sólríkur fyrri hlutann en köflóttari eftir það. Mánuðirinn tók við af mjög góðum og sólríkum seinni hluta júnímánaðar. Besti mánaðarlangi kaflinn í mínum bókum fæst einmitt með því að taka meðaleinkunn yfir 31 daga tímabil sem nær yfir báða þá mánuði en þannig fæst einkunn upp á 6,1 tímabilið 21. júní til 21. júlí. 2007.
Aðrir mánuðir blanda sér ekki í toppbaráttuna þótt nægt úrval sé af góðum júlímánuðum. Júlí 2010 og 2004 fengu báðir 5,2 í einkunn. Júlí í fyrra deilir einmitt metinu „heitasti mánuðurinn“ í Reykjavík með hitabylgjumánuðinum júlí 1991. Sá mánuður árið 1991 fékk 5,1 í einkunn ásamt júlí árið 2000 og eru þar með taldir upp þeir júlímánuðir sem hafa fengið hærri einkunn en júlí í ár. Júlí 1993 og 2005 dæmast þó jafngóðir með sömu einkunn.

Og þeir verstu:

Júlí 1989 – Einkunn 3,8. Þetta er ekkert nema falleinkunn enda sólarminnsti júlí sem mælst hefur í Reykjavík auk þess sem meðalhitinn var ekki nema 9,6 stig sem er með því slakasta sem gerist. Þrálátar rigningar bættu svo ekki úr skák.
Júlí 1987 – Einkunn 4,1. Þetta var líka sólarleysismánuður og slakur á alla kanta þó ekki væri hann nálægt metum. Að öðru leyti var sumarið '87 mun betra og sólríkara.
Afleitir júlímánuðir hafa í raun ekki verið fleiri en þessir tveir sem báðir eru komnir til ára sinna. Á þessari öld eru tveir mánuðir sem fá bara 4,4 en það eru júlí 2002 og 2006. Þeir voru báðir í svalari kantinum og ekkert sérstakir að öðru leyti og sennilega flestum gleymdir eins og svo margir aðrir mánuðir þegar kemur að veðri. Þess vegna er ekkert verra að eiga þetta allt kyrfilega skráð.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Ágúst H Bjarnason

Sæll Emil

Í pistlinum stendur m.a. "Megnið af mánuðinum var mjög þurrt og til marks um það skráði ég enga úrkomu dagana frá 2. til 25. júlí sem þýðir að úrkoma á því tímabili var svo lítil að ekki tók því að nefna hana...".

Lækkar þetta ekki einkunn mánaðarins?  Svona einstaklega þurr mánuður getur nefnilega verið mjög slæmur fyrir flestan gróður.  Í mínum huga er hæfileg blanda af sólar- og rigningadögum best. Að minnsta kosti næg úrkoma fyrir gróðurinn.

Ágúst H Bjarnason, 2.8.2011 kl. 10:09

2 Smámynd: Emil Hannes Valgeirsson

Sæll Ágúst

Í þessu einkunnakerfi eru sólardagar einfaldlega taldir betri veðurdagar en rigningardagar og þar sem einn dagur er tekinn fyrir í einu, hafa dagarnir á undan engin áhrif á einkunnina. Mánaðareinkunnin er síðan meðaltal af öllum dögum. Dagbókin hugsar ekkert um gróðurinn eða þarfir ræktenda. Eilífur þurrkur gengur þó ekki til lengdar enda var rigningin undin lok mánaðarins, kærkomin fyrir gróðurinn.

Emil Hannes Valgeirsson, 2.8.2011 kl. 10:47

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband