Hitabylgjurnar 2004 og 2008 í Reykjavík.

Það lítur út fyrir að við sleppum við meiriháttar hitabylgjur þetta sumarið. Hæsti hitinn í Reykjavík hingað til í sumar var 5. ágúst 20,0° í skýjuðu veðri og gæti það kannski flokkast sem míkró-hitabylgja. Hér ætla ég hinsvegar að rifja upp tvær alvöru hitabylgjur frá árunum 2004 og 2008 sem báðar voru sögulegar. Þetta er þó ekkert allsherjaryfirlit og læt ég nægja að rekja hitann í Reykjavík. Á vef Veðurstofunnar er hægt að sjá hitaferla frá sjálfvirkum athugunum síðustu 6 sólarhringa hverju sinni og þaðan nálgaðist ég á sínum tíma myndirnar sem báðar sýna hitann í Reykjavík. Til glöggvunar hef ég bætt við gráum svæðum sem eiga að þýða næturhúmið. Bláa línan á myndunum er daggarmark en loftið er rakara eftir því sem línurnar eru nær hvor annarri. Annars er rauði hitaferillinn aðalatriðið.

Hitabylgja 2008

Hitabylgjan í júlí 2008 var óvenjuöflug og þá voru sett met víða um land en hitinn fór hæst í 29,7 stig á Þingvöllum sem mun vera hæsti hiti sem mælst hefur hér á landi þar sem öllum kröfum er fullnægt. Í Reykjavík hófst hitabylgjan þann 25. júlí (sem er utan myndar) en þá fór hitinn yfir 22 stig (hef það ekki nákvæmar). Næstu tvo daga var vel hlýtt þótt nokkuð væri í 20 stigin. Þann 29. júlí var skýjað veður og hitinn undir 15 stigum en til marks um að eitthvað var að gerast þá kólnaði eiginlega ekkert um nóttina. Mánudaginn 29. júlí skein sólin á ný og rauk hitinn þá yfir 22 stig. Lítilsháttar hafgola hefur þó væntanlega skorið toppinn af hita dagsins.
30. júlí er svo aðaldagurinn því eftir að hitinn hafði náð 20 stigum um hádegi, hélt bara áfram að hlýna uns hámarki var náð undir lok dags þegar hitinn komst í 25,7 stig. Það er opinbert hitamet í Reykjavík á hefðbundnum hitamæli við Veðurstofuna og eina skiptið sem hitinn hefur farið yfir 25 stig. Á þeirri sjálfvirku fór hitinn hins vegar í 26,4 stig. Þessi hitatoppur stóð stutt og daginn eftir var skýjað veður með 15 stiga hita.
Lokadagur hitabylgjunnar í Reykjavík var svo föstudagurinn 1. ágúst en þá var meira en 20 stiga hiti yfir daginn náði hæst í 23,6° síðdegis sem þykir nú bara aldeilis gott.

Hitabylgja 2004

Hitabylgjan í ágúst 2004 var ekki síður merkileg enda einstaklega hlýtt loft yfir landinu. Hegðun hitans í Reykjavík var mjög undarleg og venjur um dægursveiflur algerlega hundsaðar. Þetta byrjaði þó með nokkuð hefðbundnum hlýjum sunnudegi þann 8. ágúst þar sem hitinn náði 18 stigum í hlýjum austanvindi. Mánudagurinn fór vel af stað þegar hitinn rauk yfir 20 stig strax um morguninn en hrapaði jafnharðan aftur þegar þykknaði upp með svalari golu af hafi. Öllu máli skipti þarna eins og endranær hvort andar af hafi eða landi. Aðfaranótt þess 10. hefur hlý landgola tekið yfir og þótt náttmyrkur væri skollið á komst hitinn upp í 20 stig sem er vægast sagt mjög sérstakt. Þegar birti af degi tók væg hafgola við og hitinn í sólinn lækkaði niður í 17-18 stig. Aftur náði hitinn 20 stigum undir myrkur þegar vindur stóð af landi á ný og önnur óvenjuhlý nótt tók við.
Miðvikudaginn 11. ágúst hafði hitinn loksins betur yfir daginn en þá komst hitinn í Reykjavík í 24,8 stig sem þá var nýtt hitamet í borginni og stóð það met í 4 ár eða þar til áðurnefnt hitamet var sett í júlí árið 2008. Eldra metið var frá 1976: 24,3°. Þrátt fyrir hægviðri náði hafgolan sér eiginlega ekkert á strik en þegar mjög hlýtt er í háloftunum er loftið mjög stöðugt og því minni grundvöllur fyrir hafgolumyndun. Þó sér maður útfrá á hitaferlinum að 11. ágúst hefði getað gert enn betur ef nálægð sjávarins hefði ekki spilað inní.
Dægursveiflan getur talist hefðbundin þann 12. ágúst en þá náði hitinn 20 stigum fjórða sólarhringinn í röð sem er einsdæmi í Reykjavík. Lokaandvarp hitabylgjunnar kom föstudaginn 13. en þá slagaði hitinn uppí 19 stig snemma morguns en var síðan ofurliði borinn af kaldara Faxaflóalofti. Í framhaldinu tóku við margir sólríkir dagar með venjulegum síðsumarhitum uppá 14-15 stig sem þá þótti ekkert sérstakt eftir það sem undan var gengið.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband