25.9.2011 | 13:36
Þrjú hús
Nú ætla ég að snúa mér að húsum og kíkja létt á þrjár misgamlar byggingar í Reykjavík sem hver um sig er ágætis fulltrúi fyrir stíl og tíðaranda síns tíma. Þetta eru áberandi og vel þekkt hús af stærra staginu en sjálfum finnst mér þessar byggingar vera vel heppnaðar og eiginlega hver annarri fallegri af ýmsum ástæðum. Línurnar sem ég hef bætt við myndirnar eru til áhersluauka.
Aðalbygging Háskóla íslands var metnaðarfull bygging á sínum tíma sem reis á krepputímunum miklu um 1930. Arkitektinn er sjálfur Guðjón Samúelsson húsameistari og er mjög í hans anda. Þetta er hús í klassískum stíl þar sem miðhlutann ber hæst og útfrá þeirri miðju koma álmur til beggja hliða. Þetta hefur samt verið nútímalegt hús á sínum tíma og í stað fíngerðs skrauts er einhverskonar stuðlaverk á miðhlutanum sem vísar til himins. Eins og klassískum byggingum fer inngangurinn ekki framhjá neinum enda er hann rækilega fyrir miðju og um leið brennipunktur byggingarinnar og umhverfisins. Þannig vildu menn hafa mikilvæg hús fyrr á árum þar sem fólk bar virðingu fyrir valdinu og stofnunum. Umhverfið fyrir framan bygginguna undirstrikar einnig þessa miðju og þá hugsun að þetta sé miðstöð lærdóms og þekkingar hér á landi. Svona miðjusettar byggingar voru algengar í klassískri húsagerð í mikilvægum húsum svo sem konungshöllum, ráðhúsum, menntastofunum og fleiru og gjarnan hafðar við enda breiðstræta. Fyrir framan Háskólan eru reyndar bara breiðstígar og tröppuverk sem virðast einungis vera þarna í sjónrænum tilgangi.
Sjávarútvegshúsið að Skúlagötu 4 hefur sett stóran svip á sitt umhverfi frá því það var byggt snemma á 6. áratugnum. Arkitektinn er Halldór Jónsson sem teiknaði meðal annars Hótel Sögu og ýmsar skrifstofubyggingar í svipuðum anda. Hér er módernisminn kominn til sögunnar og allt aðrar áherslur en í klassíkinni. Athyglinni er ekki beint að neinni ákveðinni miðju heldur fær byggingin öll sama vægi. Í heimi fjöldaframleiðslunnar eiga hlutir að vera einsleitir og einfaldir og fegurðin felst í endurtekningunni. Inngangurinn er ekki dreginn fram sérstaklega og er ekki einu sinni fyrir miðju. Ekki er þó gengið alla leið í naumhyggjulegum módernisma því það örlar á skrauti eða munstri við innganginn sem nýtur sín þegar komið er að. Neðsta hæðin er inndregin og þar eru súlur sem virðast lyfta húsinu og gera yfirbragðið léttara. Svo er líka hallandi þak sem virðist svífa fyrir ofan því efsta gluggaröðin er nánst samfellt glerverk. Fyrir nokkrum árum var unnið hálfgert skemmdarverk á þessu húsi að mínu mati með því að hækka hornhúsið við hliðina upp í sömu hæð þannig að húsið fær ekki notið sín eins og áður. Ekki bætir úr skák að sorpdæluhús var byggt þarna skáhalt á móti og skyggir á, en hana er þó hægt klífa upp á topp til að ná almennilegri mynd.
Nýherjahúsið eitt af þeim húsum risið hafa í röð upp úr bílamergðinni meðfram Borgartúninu og eitt það best heppnaða. Arkitekt er guðni Pálsson. Hér er módernisminn kominn á næsta stig og sver sig nú við hinn dularfulla póst-módernisma. Ekki virðist alltaf á hreinu hvernig sá ismi skal skilgreindur en þó má segja hann snúist að nokkru um að hafna viðteknum venjum og stífum reglum. Lengi var það sjálfsögð venja að teikna hús með 90 gráðu hornum á alla kanta en nú er slíkt liðin tíð eins og Nýherjahúsið er gott dæmi um. Annað óvenjulegt við þetta hús er að það er í rauninni tvö hús með sitthvoru útliti sem tengjast saman með glerhýsi. Vestari hlutinn er alveg kassalaga en sá austari er á skakk og skjön og byggingin er síbreytileg eftir þvi hvaðan er horft. Í nútímaarkitektúr er inngangur bygginga oft langt frá því að vera útgangspunktur í heildarútliti og oft getur jafnvel verið örðugt að finna innganga yfirhöfuð. Í Nýherjahúsinu er inngangurinn samt nokkuð rökréttur í glerjaðri tengibyggingunni. Húsið nýtur sín best frá Sæbrautinni því svo óheppilega vildi til að plantað var alveg óvænt stórum þjóðvegabensínstöðvarestauranti rétt framan við húsið Borgartúnsmegin.
Þannig hljóðar byggingarlistasaga 20. aldar. Eða að minnsta kosti hluti hennar.
Athugasemdir
Skemmtilegur pistill Emil.
Sveinn Atli Gunnarsson, 26.9.2011 kl. 21:51
Ágætt hjá þér Emil, en vildi þó aðeins bæta við þeirri byggingu sem lítið er fjallað um svona yfirleitt þegar arkitektúr ber á góma, en það er Sjómannaskólinn. Sú bygging er ein sú reisulegasta og tilkomumesta í höfuðborginni þar sem hún gnæfir á hæstu hæðum með turninn sinn glæsilega sem teigir sig til himins, hátt yfir önnur hús og sést úr mikilli fjarlægð, enda ætlað það hlutverk í upphafi að vísa sjófarendum leið inn til Reykjavíkur sem innsiglingarviti. Þessi bygging Guðjóns Samúelssonar finnst mér komast næst því að líkjast konungshöllum Evrópu. Þrátt fyrir það hefur henni verið merkilega lítill sómi sýndur sem glæsileg bygging. Vanmet þó ekki á neinn hátt þá starfsemi sem hefur farið fram innan veggja hennar frá upphafi.
vje (IP-tala skráð) 28.9.2011 kl. 23:23
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.