12.11.2011 | 21:35
Um harmóníu og Þorláksbúð
Falleg hús gera fallega staði fallegri og að sama skapi gera fallegir staðir, falleg hús fallegri. Eitthvað í þessa veru las ég eitt sinn í bók eftir Trausta Valsson skipulagsfræðing. Tveir staðir voru nefndir sem dæmi: Þingvellir og Viðey, en á báðum stöðum standa hús sem fara vel hvort með öðru en skapa um leið gagnkvæma heild með landslaginu. Svona harmónía er ekki bara bundin við merkisstaði í sögu þjóðarinnar. Sveitabæir ásamt útihúsum geta farið afskaplega vel í blómlegum dölum og ekkert útilokar að annarskonar mannvirki svo sem virkjanir og brýr geti verið hin mesta staðarprýði ef rétt er að málum staðið.
En þá víkur sögunni að Skálholti, sem getur alveg talist einn af þeim stöðum þar sem húsin gera umhverfið fallegra og öfugt. Þar hafa ýmis mannvirki stór og smá staðið í gegnum tíðina enda lengi einn helsti höfuðstaður landsins. Skálholtskirkja nútímans er falleg bygging og öll húsin sem þar standa taka mið af henni og mynda óvenju vel heppnaða heild. Það er því ekki að ástæðulausu að sumir vilja staldra aðeins við og athuga hvað er að gerast þar núna.
Myndin sem hér fylgir er af fyrirhugaðri Þorláksbúð við hlið Skálholtskirkju. Hún hefur ekki birst víða en á henni held ég að komi fram allt sem segja þarf. Þorláksbúð sem ýmist var notuð sem skrúðhús og geymsla hefur sjálfsagt farið vel þarna á 16. öld og þar mátti líka slá upp messu þegar stóru kirkjurnar brunnu eins og þær áttu til. En að reisa Þorláksbúð í dag alveg við hlið Skálholtskirkju nútímans er ekkert nema sjónrænt og menningarlegt slys. Það verður bara að hafa það þótt vinna og fjármunir fari í súginn ef hætt verður við þetta, og það verður bara að hafa það þótt einhverjir hafi verið seinir að átta sig. Þetta gengur ekki. Það hljóta allir að sjá sem hafa minnsta vott af smekklegheitum.
Myndin hér að ofan er fengin af Sunnlenska fréttavefnum
Athugasemdir
Láttu ekki svona Árni Jonsen fer vel með aura frá Ríkinu eins og forðum.
Vilhjálmur Stefánsson, 12.11.2011 kl. 21:43
Vilhjálmur. Ég forðast að blanda persónunni sem þú nefnir í málið, finnst það óþarfi. Smekkleysan stendur alveg fyrir sínu eins og hún kemur fyrir.
Emil Hannes Valgeirsson, 12.11.2011 kl. 22:37
Það ótrúlega er að nokkrum manni skuli hafa dottið hug. Myndin segir það sem segja þarf.
Eiður (IP-tala skráð) 13.11.2011 kl. 14:21
... skuli hafa dottið þetta í hug , átti þetta auðvitað að vera.
Eiður (IP-tala skráð) 13.11.2011 kl. 14:22
Árni Johnsen fékk leyfi til að reisa þennan vanskapnað hjá Fornleifavernd Ríkisins, sem að einhverjum furðulegum ástæðum valtaði yfir þau lög sem stofnunin sjálf á að fylgja og fara eftir. Það þarf fleiri en einn til að valta lélegu siðferði á undan sér. Málið fjallar, eins og Emil segir, ekki um Árna Johnsen, heldur um lélegan smekk og ekki minnst um lélega stjórnsýslu.
Sjá: http://fornleifur.blog.is/blog/fornleifur/entry/1203774/
Vilhjálmur Örn Vilhjálmsson, 13.11.2011 kl. 14:39
Ef þorláksbúð fær að rísa svo að segja við hliðina á Skálholtskikju mun þessi "ósmekkvísi" vekja mikla athygli ferðamanna sem finnst skrýtið að sjá svona ólík hús saman. Smekkleysan mun vekja athygli, jafnvel heimsathygli. Smmekkleysa getur nefnilega verið svo sjarmerandi og útlendingar þekkja ekki Árna Johnsen.
Benedikt Halldórsson, 13.11.2011 kl. 15:45
Ég hlýt af hafa einhvern minnsta vott af smekklegheitum, enda alveg sammála því að þetta gengur ekki.
Ég hef ekki fylgst mikið með þessari umræðu í gegnum tíðina, en fannst mjög merkilegt að sjá einstaklinga sem koma að framkvæmdunum vera mjög æsta í fréttum þegar jafnvel stendur til að stöðva framkvæmdirnar...hvað sem veldur...
Sveinn Atli Gunnarsson, 14.11.2011 kl. 08:14
Ég hef ekki séð þetta sjálfur, utan þessa mynd. Sumir lýsa þessu sem að þetta sé lítið áberandi og á bak við - veit ekki hvort þessi mynd villir sýn, en samkvæmt þessari mynd er þetta mjög áberandi og ósmekklegt ;)
Höskuldur Búi Jónsson, 14.11.2011 kl. 22:19
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.