22.11.2011 | 20:12
Um ógnir og háleynileg samsæri
Ef maður trúir öllu sem hægt er að trúa er tilvera okkar nútímamanna á heljarþröm og margskonar ógnir sem að okkur steðja. Ýmislegt baktjaldamakk er í gangi og tilraunir gerðar til að ná stjórn á náttúruöflunum til góðs eða ills. En þótt mannkynið sé sjálfu sér verst, er líka nægt úrval af utanaðkomandi ógnum sem almenningur gerir sér ekki mikla grein fyrir, enda ekki nema von þeim er haldið leyndum fyrir okkur svo ekki skapist ofsahræðsla á þessum hinstu dögum.
Um þetta mætti heilmikið skrifa og heilmikið hefur reyndar verið skrifað. Ég er bara ekki nógu tortrygginn eða trúgjarn (eftir því hvernig á það er litið) til nenna að hafa fyrir því að kynna mér allt sem það er í gangi. Hér á eftir ætla ég þó að reyna að gera smá grein fyrir því helsta.
Fyrst má nefna alþjóðlegu fjármálakrísuna sem var skipulögð og ákveðin í reykfylltum bakherbergjum ákveðinna afla með það að markmiði að koma fjármagninu í réttar hendur með heimsyfirráð í huga. Hvaða öfl þetta ættu að vera veit ég ekki nákvæmlega, en oft kemur upp eitthvað sem kallast New World Order og á að hafa ítök í valdamestu stofnunum heimsins.
Árásirnar kenndar við 11. september voru eins og oft hefur komið fram, skipulagðar af Bandaríkjamönnum sjálfum og Ísraelsmönnum með það að markmiði að réttlæta allsherjaráras á lönd múslíma. Fall tvíburaturnanna var stýrt fyrirfram með því að spreyja á þá einhverju mýkingarefni og flugræningjarnir voru aldrei til. Mikill rökstuðningur er til um þetta fyrir þá sem vilja trúa.
Þoturákir í háloftum eru eðlilegar afleiðingar þotuflugs. En ekki alltaf, því af einhverjum ástæðum er líka verið að úða vafasömum efnum út í andrúmsloftið. Kannski eru þetta leynilegar tilraunir til að kæla andrúmsloftið, nema hér sé bara verið að eitra fyrir fólkinu í heiminum. Aldrei að vita nema einhver sjái sér hag í því. Á myndum sem birtast af grunsamlegum þoturákum eru að vísu oft blikur á lofti og klósigar sem benda til þess að rakinn í háloftunum er nálægt því að þéttast hvort eð er.
HAARP tilraunastöðin í Alaska þykir mörgum afar grunsamleg, en aðrar svipaðar stöðvar munu vera til í heimum, jafnvel hér á Íslandi í smærri stíl. Með þessum græjum eru sendar öflugar hátíðnibylgjur út í jónahvolfið að því að talið er til að hafa áhrif á háloftavinda og þar með loftslag vítt og breitt um heiminn. Ekki nóg með það, HAARP getur komið af stað eldgosum, jarðskjálftum og þar með flóðbylgjum og er því öflugt vopn í höndum heimsvaldasinna. Atburðirnir í Japan hafa ef til vill eitthvað með HAARP að gera.
En af utanaðkomandi ógnum sem ekki eru á valdi okkar jarðarbúa má auðvitað nefna allar geimverurnar sem fylgjast með jörðinni og heimsækja okkur reglulega svo lítið beri á. Mörg illskýranleg fyrirbæri eru útskýrð sem geimveruheimsóknir en allt slíkt er að sjálfsögðu þaggað niður af yfirvöldum, hver sem þau eru. Geimverur eru kannski ekki bein ógn en aldrei er þó að vita hvað þær hafa í hyggju. Sumir segja ekki tilviljun að píramídar risu bæði í Egyptalandi og Ameríku án nokkurra tengsla þessara menningarheima. Mannkyninu gæti í raun verið stjórnað af geimverum og hámenningin gæti hæglega verið innflutt í einhverjum tilgangi. Geimverur gætu jafnvel verið á vappi hér og þar og búnar að koma sér fyrir á áhrifastöðum.
Kannski mun eitthvað af þessu skýrast á næsta ári en auðvitað voru Inkarnir til forna búnir að reikna út að endalok okkar tímaskeiðs skellur á í desember 2012. Þá munu miklar ógnir ganga yfir jörðina sem gætu tengst hámarki í sólvirkni samhliða óvenju veiku segulsviði. Pólskipti munu þá eiga sér stað með ólýsanlegum hörmungum.
Þessu gæti líka tengst hin dularfulla Pláneta X, sem stundum er kölluð Niburu eða Elenin og á vera á stærð við stóru gasrisana í sólkerfinu okkar. Þessi stjarna hefur verið á sveimi inn og út úr sólkerfinu og verður á óþægilegum stað í árslok 2012. Ýmsar hugmyndir eru til um þetta og sem fyrr vilja flestir vísindamenn gera lítið úr málum. Risastórt geimskip hefur að sjálfsögðu verið nefnt.
- - - -
Fleira mætti nefna og hægt að fara mun dýpra í hvert atriði. Fyrir mig er þetta sem hvert annað skemmtiefni sem litlar áhyggjur þarf að hafa af. Kannski er ég bara svona takmarkaður, nema ég sé á valdi geimvera.
Flokkur: Vísindi og fræði | Breytt s.d. kl. 21:12 | Facebook
Athugasemdir
Það má kannski bæta því við að hnattræn hlýnun er víst eitt risavaxið samsæri sem er gert til þess að kúga skattpening af okkur fátækum lýðnum, í formi kolefnisskatta og til að láta völd í hendur einhverra óprúttina aðila - og Al Gore græðir víst mest og ræður flestu. Meira að segja jöklar og hafís eru með í plottinu og bráðna eftir fyrirfram ákveðnum óskum þeirra sem gerðu plottið...og að sjálf sögðu eru lang flestir vísindamenn í heiminum með í plottinu og búa til gögn til að viðhalda lyginni.
Sveinn Atli Gunnarsson, 23.11.2011 kl. 01:10
Svo varðandi geimverurnar, þær eru á fullu að læra hundamál. Já, vegna þess að við erum dregin af hundum og þurfum að hreinsa upp eftir þá. Hvað eiga geimverurnar að halda? Ekki erum við að stjórna hundinum heldur erum við þrælar hundsins, enda í bandi á eftir honum.
Kaldi
Ólafur Björn Ólafsson, 23.11.2011 kl. 16:09
Svo er það Climategate2 ... sem sumir (nefni engin nöfn) myndu setja í svona flokk samsæriskenninga
Gunnar Th. Gunnarsson, 23.11.2011 kl. 17:14
Ég ákvað bara að sleppa loftslagshlutanum í þessu, en það er auðvitað ekkert annað en atlaga náttúruverndarvinstrisinna að kapítalismanum þar sem vísindamönnum er haldið í gíslingu. Climatgate2 hef ég ekki kynnt mér en það styður þetta sjálfsagt. Það má líka finna margskonar rökstuðning víða á netinu um öll þessi meintu samsæri sem ég nefni.
Emil Hannes Valgeirsson, 23.11.2011 kl. 19:29
5.000 nýir tölvupóstar af svipuðum toga og þeir fyrri, (22.000 bíða frekari skoðunar) hafa nú verið gerðir opinberir. Við hraða yfirferð á krækjunum sem ég vísaði í, virðist innihald tölvusamskipta loftslagsvísindamannanna vera enn meira krassandi en í fyrra climategate hneykslinu.
Það verður gaman að sjá hvernig "þeir" klóra sig út úr þessu.
Gunnar Th. Gunnarsson, 23.11.2011 kl. 20:43
Já það er rétt hjá Gunnari, það er komið nýtt samsæri (climategate 2.0) upp meðal afneitunarsinna. Ætli það sé ekki jafn úldið og hið fyrra og jafn innihalds laust. En þetta climategate dæmi er líka gott dæmi um ógnir og háleynileg samsæri vísindamanna - gott að fá fersk dæmi um það sem færslan fjallar um :)
Sveinn Atli Gunnarsson, 23.11.2011 kl. 21:35
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.