Surtseyjargos í vændum við Kanaríeyjar?

El Hierro skyringarmynd

Neðansjávargosið sem nú kraumar skammt undan á landi á Kanaríeyjum hefur ekki mikið verið í fréttum undanfarið. Gosið hófst þann 10. október á um 250 metra dýpi um tvo kílómetra suður af El Hierro sem er sú eyja sem liggur lengst í suðvestur af eyjaklasanum. Eftir því sem á gosið líður styttist leiðin að yfirborði sjávar en það gengur þó hægt fyrir sig og enn munu vera eitthvað um 100 metrar að yfirborði. Upplýsingar um það eru þó frekar óljósar. Ummerki gossins eru ekki mikil ofansjávar en hafa verið að aukast síðustu daga þannig að styttast gæti verið í stærri atburði.

El Hierro ljósmyndUmbrotin hafa verið sýnilegust úr lofti þar sem sjórinn tekur á sig hina ýmsu liti vegna uppstreymis gosefna. Rjúkandi flotsteinar hafa líka skotist upp að yfirborði af og til ásamt smástrókum og bólstrum. Lítið sjávarþorp La Restiga er á syðsta hluta eyjarinnar og íbúar fylgjast að vonum grannt með framgagni mála, ef þeir eru þar yfirleitt ennþá.

Surtseyjan-eruption
Eins og í öðrum neðansjávargosum myndast þarna bólstraberg á meðan vatnsþrýstingur er nægur fyrir ofan. Ef gosið heldur áfram í nokkrar vikur til viðbótar kemst það á stig sem margir bíða spenntir eftir og nefnist á alþjóðamáli Surtseyjan-eruption. Á því stigi þeytast háir gufu- og öskubólstrar hundruði metra í loft upp þótt einhverjir tugir metra séu niður að gosopinu sjálfu. Við hér á landi þekkjum svona lagað frá fyrstu stigum Surtseyjargossins og líka af Grímsvatnagosum hin síðari ár. Samkvæmt því sem bæjarstjóri staðarins sagði þann 9. des (gefum okkar að hann hafi vit á málum) þarf um 6-7 vikur til viðbótar, til að mynda nýja eyju. Það yrði þá syðsta eyja Kanaríeyja - rétt eins og Surtsey er hjá okkur. Framhaldið er þó allsendis óvíst því ómögulegt er að spá fyrir um goslengd og hegðun gossins.

Hamfaraflóðbylgja
Fyrir nokkrum árum vakti sá möguleiki athygli að heilu hlíðar sumra eldfjalla á Kanaríeyjum eigi það til að hrynja í sjó fram og valda hamfaraflóðbylgjum vídd og breytt um Norður-Atlantshaf. Fyrir um 50.000 árum gæti ein slík hafa riðið yfir þegar eldfjallið á El Hierro-eyju hrundi í sjó fram en ekki eru þó margir til frásagnar um afleiðingar þess. Mestu áhyggjurnar hafa á okkar dögum beinst að eyjunni La Palma og líst mörgum ekkert sérstaklega vel á ef gos kæmi upp á þeirri eyju. Kannski og vonandi eru þær áhyggjur þó að mestu ástæðulausar og hættan orðum aukin. En þótt hundruð eða þúsundir ára gætu liðið að næsta slíka atburði er ágætt að fylgjast með hvað er að gerast á Kanaríeyjum.

Nánar má fylgjast með gangi mála á Kanarý á síðunni hér: http://earthquake-report.com/2011/09/25/el-hierro-canary-islands-spain-volcanic-risk-alert-increased-to-yellow/

Skýringarmyndin efst er fengin héðan:
http://thewatchers.adorraeli.com/2011/10/11/el-hierro-on-alert-eruption-vent-5-km-from-restinga-at-600-meter-depth/

Ljósmyndin er héðan: http://www.volcanodiscovery.com/view_news/2435/El-Hierro-volcano-Canary-Islands-Spain-eruption-moves-towards-ocean-surface.html


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband