Meðvitaðar skekkjur í letri

Það getur stundum verið dálítill munur á því sem sýnist vera rétt og því sem er alveg rétt. Hlutir geta virst ójafnir í lögun af því að þeir eru jafnir og til að leiðrétta þá meintu ójöfnu eru þeir viljandi hafðir ójafnir. Best er bara að taka dæmi um bókstafinn minn: E. Sá bókstafur er ágætt dæmi um það sem ég er að reyna að koma orðum að.

E E

Þessi tvö E virðast kannski vera eins við fyrstu sýn en þau eru það þó ekki. Stafurinn til vinstri er eins jafn og hugsast getur en sá til hægri er það ekki. Í E-inu til hægri eru láréttu strikin mislöng. Neðsta strikið er örlítið lengra en það efsta, miðjustrikið er greinilega styst auk þess sem það situr aðeins ofan við miðju. Þykktirnar eru líka misjafnar, láréttu strikin er þynnri en það lóðrétta. Þetta er samt mjög venjulegt og dæmigert E og er úr hinu útbreidda Helvetica letri og svona er bókstafurinn teiknaður í nánast öllum leturgerðum. Jafni stafurinn til vinstri er hinsvegar ekki úr neinni leturgerð. Ég teiknaði hann bara upp í fljótheitum enda mjög einfalt að útbúa svona jafnan bókstaf í tölvu.

Af ýmsum ástæðum virkar Helvetica bókstafurinn til hægri stöðugri og þægilegri að horfa á enda búið að taka tillit til nokkurra atriða sem hafa áhrif á hvernig við skynjum form og hlutföll. Sjónrænt séð er betra hafa lóðrétta strikið sverara, eins og trjástofn sem heldur uppi léttari greinum. Neðri hlutinn skal vera meiri en sá efri en þar kemur líka við sögu sjónrænt burðarþol rétt eins og í snjókarli þar sem sjálfsagt þykir að léttari kúla hvíli á þyngri kúlu. Bókstafirnir B og S er eru ágæt dæmi um slíkt.
Það má skoða þetta með aðstoð hjálparlína. Að vísu sést ekki greinilega að neðsta strikið í E-inu sé lengst en það er það samt – munar nokkrum hársbreiddum.

B E S

Það má alveg fara langt aftur í tímann til að finna dæmi um svona sjónleiðréttingar. Meyjarhofið á Akrópólíshæð er klassískt dæmi um ýmsar skipulagðar bjaganir. Súlurnar sjálfar eru látnar bunga örlítið að neðanverðu svo þær virki traustari, án þess þó að það sjáist í fljótu bragði. Þeir kunnu þetta til forna og svona eiga allar súlur í fornklassískum stíl að vera.

Meyjarhofið

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Ekki vissi ég þetta með letrið. Sérdeilis fróðlegt.

Sigurdur Sigurdarson (IP-tala skráð) 15.1.2012 kl. 11:15

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband