Ört vaxandi trjágróður í Öskjuhlíð

Verkefnið 365 Reykjavík sem ég kynnti hér á blogginu um síðustu helgi virðist hafa vakið einhverja athygli, allavega nógu mikla til þess að ég hef þurft að svara fyrir mig í fjölmiðlum. Þar mun ég hafa talað um ört vaxandi gróður í Öskjuhlíðinni en mikill munur er nefnilega á umfangi hans nú og fyrir nokkrum árum. Ég man ekki alveg hvenær mér datt upphaflega í hug að taka ljósmyndir af Reykjavík á hverjum degi frá sama stað í heilt ár en allavega var ég farinn að spá í þetta árið 1994. Upphaflega var ég með annan stað í huga en síðar beindist athyglin að Öskjuhlíðinni þar sem gott útsýni er til Esjunnar með borgina í forgrunni. Lítið varð þó úr framkvæmdum utan þess að ég fór nokkrum sinnum þarna upp eftir til að máta sjónahornið. Tilvalið er því að bera saman hvernig útsýnið hefur þróast.

Reykjavik janúar 2002

Elsta myndin frá þessum stað sem tengist þessum pælingum er frá janúar 2002. Eins og sjá má er þarna vetrarástand á gróðri, snjór hefur fyrr um veturinn pressað sinuna niður í svörð en annars var þessi janúarmánuður nánast alveg snjólaus í Reykjavík. Trjágróðurinn er ekki mikill þarna og vel sést til hringtorgsins við Eskihlíð og húsanna sem þar standa.

Reykjavík 8. október 2003

Þann 8. október árið 2003 var ég þarna á ferð í sömu pælingum. Sjónarhornið er ekki alveg það sama og því erum við ekki að sjá alveg sömu trén. Haustlaufin á trjánum gerir gróðurinn meira áberandi en á fyrstu myndinni. Væntanlega hafa trén sprottið vel á þessu ári sem var það hlýjasta sem sögur fara af í Reykjavík. Við sjáum þó enn vel til húsanna sem standa næst hlíðinni.

Reykjavík 3. október 2011

Hér erum við komin til vorra daga og eins og sjá má er nú talsvert öðruvísi um að litast. Myndin er hluti af verkefninu 365 Reykjavík sem loks var ráðist í og dagurinn er 3. október 2011. Hér eru hríslurnar orðnar að samfelldum skógi og greinilegt að ekki munu líða mörg ár þar til trén taka að mestu fyrir sýn til borgarinnar frá þessu sjónarhorni. Þetta fer ágætlega saman við það hversu mikið vind hefur lægt í borginni eins og talað hefur verið um, en síðustu 11 ár hafa líka verið sérlega hlý og hagstæð trjávexti. 

EIns og gefur að skilja hefði ekki verið hægt að framkvæma verkefni undir nafninu 365 Reykjavík núna í ár þar sem árið 2012 er hlaupár og varla eftir það frá þessum stað vegna trjágróðurs. En nú er þetta búið og gert og afraksturinn með öllum 365 myndunum er sem fyrr á slóðinni: www.365reykjavik.is

 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Sigurður Þór Guðjónsson

Það er algjört plága þegar menn eru að gróðursetja tré á góðum útsýnisstöðum. Gróður er sums staðar í Öskjuhlíð þannig að ekki er hægt að ganga um hana, ekki vegna trjáa reyndar heldur einhvers þétts lággróðurs. 

Sigurður Þór Guðjónsson, 28.1.2012 kl. 11:15

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband