18.2.2012 | 20:48
Um örnefni á skögum og jöklum
Örnefni eiga sér mislanga sögu. Sum þeirra eru jafn gömul byggðinni í landinu á meðan önnur eru nýtilkomin. Eins og orðið örnefni vísar til þá snúast örnefni oft um heiti á hinum smærri einingum í landslagi enda var og er nauðsynlegt að kalla hlutina einhverju lýsandi nafni svo menn fari ekki villu vegar og ekki síður til að ljóst væri hver ætti hvað. Firðir og fjöll fengu að sjálfsögðu líka sína nöfn en þegar kom að hinum stærri þáttum í landslagi svo sem stórum skögum, kjálkum og jöklum virðast örnefni ekki alltaf eiga sér langa sögu og eru jafnvel ekki til. Lítið var um landakort í gamla daga, hvað þá loftljósmyndir eða gervitunglamyndir og því eðlilegt að menn hafi ekki mikið pælt í hinum stærri einingum þegar kom að nafngiftum.
Stóru skagarnir fyrir norðan
Á hinu eina sanna norðurlandi eru þrír meginskagar. Sá vestasti er sá eini sem hefur heitið eitthvað í gegnum tíðina og ber einfaldlega nafnið Skagi sem fjörðurinn þar fyrir austan er nefndur eftir. Heitið Tröllaskagi er hins vegar nýtilkomið því lengst af var hann nafnlaus. Þar hefur mönnum kannski fundist alveg nóg að vera annað hvort staddir í Eyjafirði eða Skagafirði, en þar á milli var bara eitthvert ógurlegt fjalllendi með mörgum djúpum nafnkenndum dölum og fjallsrönum. Austasti skaginn á milli Eyjafjarðar og Skjálfanda hefur hinsvegar varla fengið nafn en það mun þó verið að vinna í því og tillögur komnar fram en gallinn er bara sá að Eyfirðingar vilja ekki kenna hann við örnefni Skjálfandamegin, og Skjálfandamenn vilja ekki kenna hann við Eyfirskt örnefni. Það segir sína sögu eins og ég kem að hér síðar. Mestar líkur eru á því skaginn verði nefndur Flateyjarskagi sem Eyfirðingar eru lítt hrifnir af og hafa haldið á lofti heitinu Gjögurskagi.
Vatnajökull
Nafnasaga þessa mikla jökuls virðist vera talsvert snúin og ýmsar skýringar til. Fyrsta Íslandskortið sem sýndi Vatnajökul sem alvöru jökul var teiknað árið 1794 af Sveini Pálssyni lækni og náttúrufræðingi þeim er kleif Öræfajökul fyrstur manna. Á korti hans voru tvö nöfn látin gilda fyrir jökulinn og hann merktur sem Klofa- eða Vatnajökull. Ekki veit ég hvort heitið er eldra en allavega virðast fleiri en ein skýring á þeim báðum. Klofajökulsnafnið hefur stundum verið túlkað sem svo að jökullinn hafi áður fyrr verið klofin í tvennt að sumu eða öllu leyti enda vitað að Norðlendingar og Austfirðingar stunduðu ferðir suður yfir jökulinn. En þótt vitað sé að jökullinn hafi verið umtalsvert minni en í dag þá er samt varasamt að líta svo á að Klofajökulsnafnið sé lýsandi fyrir heildina og að jökullinn hafi beinlínis verið klofinn. En hvað sögðu menn á 18. öld:
Í Ferðabók Eggerts og Bjarna 1772 má lesa þetta um Klofajökul: Klofajökull er nafn á tveimur geysimiklum jökulálmum, sem skapa skarð eða bug á milli sín, en úr jökulkrók þessum koma þrjár stórár, Skjálfandafljót, Jökulsá í Axarfirði og Jökulsá í Múlasýslu. Þarna virðist átt við skarð í jökulinn að norðanverðu sem virðist hafa verið nógu vítt til að geta af sér þessar þrjár stóru jökulár sem í dag eiga upptök sín á þremur aðskildum stöðum við jökulbrúnina. Klofajökull gæti því hafa verið notað um Vatnajökul að norðanverðu en ekki endilega jökulinn í heild. Kannski vísar nafnið í kverkina sem Kverkfjöll eru kennd við nema skýringin sé sú að Kverkfjöllin beinlínis kljúfa jökulinn að norðanverðu séð.
Sveinn Pálsson ritaði hinsvegar árið 1794:
heitir hann Klofajökull vegna hinna fjölmörgu rana sem út frá honum kvíslast í ýmsar áttir, og allmarga fjallgarða, er skerast upp í hann. Hann er einnig nefndur Vatnajökull vegna hinna hart nær óteljandi elfa, sem eiga upptök sín í honum Ég get ekki séð að Sveinn sé endilega á sama máli og Eggert og Bjarni varðandi Klofajökul því hinir allmörgu fjallgarðar sem skerast inn í hann er nefnilega ágætis lýsing á sunnanverðum jöklinum. Hinar óteljandi elfur sem eiga upptök sín í honum er einnig nothæf skýring á nafninu Vatnajökull að sunnanverðu þar sem jökulárnar hafa lengi flæmst um hina sístækkandi sanda.
Hvað er rétt í þessu er ómögulegt að segja til um en sjálfum finnst mér ekki ólíklegt að Klofajökull hafi verið lýsandi heiti á jöklinum að norðanverðu en Vatnajökull að sunnanverðu og hafi þessi tvö heiti því getað verið notuð samtímis eftir því hvaðan var horft. Önnur skýring á Vatnajökulsnafninu vísar til Grímsvatna enda virðist hann stundum hafa verið nefndur Grímsvatnajökull. En hvort menn hafi þekkt nógu vel til Grímsvatna til að nefna jökulinn eftir þeim veit ég ekki en hitt er víst að menn hafa þekkt hlaupin miklu sem þaðan komu. Heitið Grímsvatnajökull þarf þó ekki að hafa verið notað um jökulinn í heild frekar en önnur nöfn á þessu jökulflæmi. Það giltir því kannski það sama með jökulinn og Tröllaskaga á sínum tíma að menn gáfu landinu nöfn í samræmi við það sem menn bjuggu við á hverjum stað án þess að hafa yfirsýn á heildina.
- - - - -
Tilvitnanir eru fengnar úr bókinn Íslenskir jöklar, eftir Helga Björnsson.
Flokkur: Vísindi og fræði | Breytt 23.2.2012 kl. 09:35 | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.