Um hæstu hæðir Danmerkur

Þótt Danmörk sé fræg fyrir sitt fjallaleysi er ekki hægt að segja að landið sé marflatt enda einkennist það víða af ávölum hæðum. Eins og í öðrum löndum þá vilja menn vita fyrir víst hver sé hæsti punktur landsins, jafnvel þótt hæð þess hæsta punkts þætti ekki frásögum færandi víðsvegar annarstaðar. Það hefur verið dálítið á reiki hvaða hæð sé sú hæsta í Danmörku og heimildum ber ekki alveg saman. En eftir að hafa lagst í dálitla rannóknarbloggmennsku þá hef ég komist að hinu sanna í málinu.

HimmelbjergetÞekktasta hæðin hefur löngum verið Himmelbjerget (147 m.) á Jótlandi og standa sumir í þeirri meiningu að það sé hæsta „fjall“ Danmerkur. Nafnið Himmelbjerget þykir okkur Íslendingum frekar spaugilegt enda virkar það sem öfugnefni og hlýtur að skýra frægð hæðarinnar að hluta. Þetta er þó alls ekki hæsta hæð Danmerkur en vissulega í hópi þeirra hæstu. Himmelbjerget er reyndar hin reisulegasta hæð á Danskan mælikvarða og var talin hæsti punktur landsins fram til ársins 1847 þegar nánari mælingar sýndu annað. Sjálfsagt hefur sú landmæling valdið einhverjum vonbrigðum en breytti því þó ekki að þarna reis 25 metra hár útsýnisturn til heiðurs Friðriki VII fyrir að færa landsmönnum stjórnarskrá árið 1849.

Hinar raunverulegu hæstu hæðir Danmerkur eru hinsvegar ekki langt undan því um um 10-15 kílómetrum suðaustur af Himmelbjerget liggur landið heldur hærra þótt ekki sé um að ræða tilkomumikil björg sem takmarka útsýn til himins. Frekar mætti tala um einskonar hálendi sem bungast mishátt upp á við. Tvær hæðir þarna eru þekktastar og hafa báðar gert tilkall til titilsins hæsti punktur Danmerkur: Yding Skovhøj og Ejer Baunehøj. Til að komast endanlega að því hvor þeirra er hærri var árið 2005 ráðist í nákvæmar mælingar á svæðinu í heild þar sem sentimetrar skáru úr um niðurstöðu.

Yding Skovhøj er eins og nafnið bendir til skógi vaxin hæð og mældist hæsti náttúrulegi punkturinn þar vera 170,77 metrar. Sé hinsvegar forn víkingahaugur ofan á hæðinni tekinn með í reikninginn er hæðin 172,54 metrar. Sá haugur er í rauninni það samgróinn náttúrunni að vel mætti telja hann hluta af hæðinni og sé svo, er þetta hæsta hæð Danmerkur eins og sumstaðar kemur fram. Eðlilega vilja menn þó vera strangir á skilgreiningunni, hæsti náttúrulegi punktur landsins.

Ejer Baunehøj
(eða Bavnehøj) er um tvo kílómetra frá Yding Skovhoj og var lengi talinn hæsti náttúrulegi punktur Danmerkur 171m. Nýju mælingarnar segja hæðina hinsvegar vera 170,35 m og er hún því óumdeilanlega lægri en Yding Skovhoj. Árið 1920 var 13 metra hár turn reistur á þarna og með honum er hæðin samtals 183 metrar sem telst auðvitað ekki gilt.
Møllehøj
Møllehøj. Með hinum nýju nákvæmu mælingum árið 2005 kom hið sanna í ljós sem er að hæsti náttúrulegi punktur í Danmörku er rétt um 200 metrum frá Ejer Baunehøj. Sú hæð er kölluð Møllehøj og mælist 170,86 metrar eða 9 sentí­metrum hærri en Yding Skovhøj er frá náttúrunnar hendi. Hvort þetta er sjálfstæð hæð eða ekki er matsatriði, en samkvæmt nýjustu yfirlitum þá er þetta heitið á hæstu hæð Danmerkur. Møllehøj lætur ekki mikið yfir sér frekar en aðrar mishæðir á þessum slóðum. Þarna var mylla áður og til minjar um hana stendur gamli myllusteinninn stoltur og getur verið það eftir þá stöðuhækkun að marka hæsta punkt landsins.

Danska hálendið
Á kortinu má sjá aðalhluta þess svæðis sem kalla mætti Danska hálendið og er það greinilega heldur grænna en það Íslenska. Hæstu punkta landsins er þarna að finna eins og ég hef merkt inn.

Til samanburðar má nefna að samkvæmt lauslegri athugun minni ná hæstu byggðir á höfuðborgarsvæðinu okkar upp í rúmlega 100 metra hæð. Í næsta nágrenni við byggðina er Vífilstaðahlíð 152 m. og Vatnsendahæð 153 m. Skammt þaðan er hæð á landamörkum Garðabæjar og Kópavogs er nefnist Arnarbæli og er hún 174 metrar.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Það er mjög fróðlegt og skemmtilegt að fara inná bloggsíðu þína hér á mbl.is.

Hafðu þakkir fyrir fræðandi og skemmtilega pistla.

Númi (IP-tala skráð) 25.2.2012 kl. 12:35

2 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Þegar ég var krakki var spaugað með það að hæsta fjall Danmerkur væri álíka hátt og  Öskjuhlíðin.  Hið rétta er að Yding Skovhoj er næstu þvisvar sínnum hærra.

Og í allri viðleitni Íslendinga til að fletja Danmörku út gleymist Möns Klint eða Manarbjarg, sem er þverhnípt bjarg syðst á eynni, 143 metra hátt ef ég man rétt, eða tvöfalt hærra en Krísuvíkurbjarg og hamrar Dyrhólaeyjar og Reynisfjalls.

Ég hef haft áhuga á þessum "fjöllum"  Dana eins og Emil Hannes og skoðað þessi þrjú á Jótlandi, sem hann nefnir og einnig farið upp á Möns klint.

Ef við hefðum Möns Klint yst á Seltjarnarnesi myndi okkur líka finnast talsver til koma.

Ómar Ragnarsson, 26.2.2012 kl. 01:36

3 Smámynd: Emil Hannes Valgeirsson

Ég tek undir að Möns Klint með sínum skjannahvítum krítarklettum er mjög tilkomumikið bjarg. Ég hef komið þangað og einnig „klifið" Himmelbjerget. Allra hæstu hæðirnar í Danmörku hef ég hinsvegar ekki stigið á. Svo má líka nefna að hæsti punktur landsins utan hálenda svæðisins á Jótlandi er Ridderknægten á Borgundarhólmi: 162 metrar eða 15 metrum hærra en Himmelbjerget.

Emil Hannes Valgeirsson, 26.2.2012 kl. 09:52

4 Smámynd: Sveinn Atli Gunnarsson

Skemmtilegur og fróðlegur pistill að venju Emil. Þegar ég bjó í Danmörku heyrði ég að Eyrarsundsbrúin væri hærri en hæstu punktar í Danmörku. Eftir smá gúgl fann ég út að brúarstólparnir 4, sem eru hæstu hlutar brúarinnar, eru 204 m, s.s. hærri en hæstu fjöll í Danmörku, sjá hér. Fróðleg staðreynd það, þó ekki viti ég nákvæmlega hvort þessir stólpar tilheyra Danmörku eða Svíþjóð...

Sveinn Atli Gunnarsson, 26.2.2012 kl. 11:54

5 Smámynd: Emil Hannes Valgeirsson

Ef við förum út í mannvirki þá geta þau verið ansi há. Ég fann á Wikipedíunni lista yfir þau hæstu í Danmörku og þar eru nefnd nokkur endurvarpsmöstur upp á 320 metra, á eftir þeim er Stórabeltisbrúin 269 metrar og svo 250 metra strompur í Esbjerg. Eyrarsundsbrúin er ekki þarna á lista þannig að væntanlega lenda brúarstólparnir Svíþjóðarmegin.

Sjá hér: List of tallest structures in Denmark

Emil Hannes Valgeirsson, 26.2.2012 kl. 16:44

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband