STÓRSTJÖRNUR Á SUÐURHIMNI

Það hafa ekki gefist mörg tækifæri að undanförnu til að dást almennilega að stjörnuhimninum hér í Reykjavík. Föstudagskvöldið 4. mars brá hinsvegar svo við að stjörnur himins skinu sínu skærasta í bland við norðurljósin eins og þær stefna í að gera kvöldið þegar þetta er ritað.

Uppröðun fastastjarnanna utan sólkerfisins má segja að sé algerlega kaótískt nema hvað þéttleikinn eykst dálítið eftir því sem við horfum meira í plani við vetrarbrautina en ekki þversum út úr henni. Af hreinni tilviljun getur kaótísk uppröðun þó stöku sinnum myndað eitthvað sem er nokkuð reglulegt og beint. Það getur til dæmis átt við nokkrar stjörnur sem tilheyra Óríon-merkinu sem er á suðurhimni frá Íslandi séð og sést á ljósmyndinni sem ég tók áðurefnt föstudagskvöld. En það er ekki bara uppröðunin sem er athyglisverð því stjörnurnar þarna eru aldeilis ekki bara einhver smástirni. Nánar um það hér að neðan þar sem ég hef soðið saman upplýsingum úr ýmsum áttum.

Orion 4.mars 2012
Stjörnurnar sem raða sér svo smekklega þrjár saman í röð hafa verið nefndar Fjósakonurnar á Íslensku. Þær eru miðhluti stjörnumerkisins Óríón eða Veiðimannsins og marka beltið um hann miðjan. Þetta stjörnumerki hefur frá fornu fari verið eitt aðalmerkið á himni enda staðsett nálægt miðbaug og sést því á báðum jarðarhvelum. Þessar þrjár stjörnur eru allar feiknastórar og fjarlægar. Sú í miðjunni er þeirra svakalegust og nefnist Alnilam. Hún er í 1340 ljósára fjarlægð og birtumagnið er 375 þúsund meira en okkar sólar takk fyrir. Hinar tvær eru Alnitak í 800 ljósára fjarlægð og fjölstirnið Mintaka í um 915 ljósára fjarlægð.

VeiðimaðurinnTvær stjörnur Betelgás og Rígel gera stjörnumerkið mjög auðþekkjanlegt enda liggja þær þvert á Fjósakonurnar (eða Óríonbeltið) og nokkurn vegin jafn langt frá því frá okkur séð. Báðar eru þær miklar að vöxtum og flokkast sem reginrisar eins og beltisstjörnurnar en eru heldur nálægari og meðal skærustu stjarna himinsins.

Betelgás er sú efri og markar hægri öxl veiðimannsins (eða þá vinstri frá okkur séð). Stjarnan er risastór og orðin rauð af elli enda má búast við að hún endi sína lífdaga þá og þegar með mikilli súpernóvu-sprengingu. Hún gæti raunar þegar verið sprungin án þess að vitum af en þó er kannski líklegra að milljónir ára sé í þann atburð. Ljósmagnið af þeirri sprengingu gæti verið álíka fyrir okkur og birta tunglsins og stæði atburðurinn yfir í nokkur ár. Stærð og fjarlægð stjörnunar virðist eitthvað á reiki en 400-650 ljósár eru gjarnan nefnd. Stærðin ræðst af fjarlægðinni sem er óviss en ef Betelgás væri í miðju sólkerfisins næði hún samt örugglega út fyrir sporbaug Jarðar og jafnvel Mars. Meira að segja hefur verið nefnt að hún gæti náð allt að sporbaug Júpiters. Já já, þannig er nú það.

Rígel er bjartasta stjarna stjörnumerkisins og það 5. bjartasta á stjörnuhimninum öllum. Hér er enn einn risastjarnan á ferð þótt hún jafnist ekki á við Betelgás í stærð. Rígel markar vinstra hné veiðimannsins og er blár risi en það þýðir að hún enn á unglingsaldri og á framtíðina fyrir sér. Fjarlægðin er um 860 ljósár og skín hún 50-60 þúsund sinnum skærar en sólin á sýnilega ljóssviðinu og næði út fyrir braut Merkúrs.

Sverð Óríons er hópur stjarna og stjörnuþoka sem liggur neðan við „beltið“. Þarna má finna Sverðþokuna frægu M42 sem er sýnileg með berum augum og einnig Riddaraþokuna með sitt hestshöfuð.
Fleiri stórstjörnur mætti nefna eins og Bellatrix - vinstri öxlin og Saiph - hægri fótur veiðimannsins.

Síríus er ekki hluti af Óríón-merkinu en það er sjálfsagt að nefna hana líka því hún er auðfundinn með því að framlengja línu niður til vinstri frá Fjósakonunum, þ.e. þegar hún sést á annað borð. Síríus er bjartasta fastastjarnan á gjörvöllum stjörnuhimninum en hún tilheyrir í raun suðurhveli og sést því hér aldrei nema lágt á lofti í suðri. Síríus er stundum kölluð hundastjarnan en sú nafngift er ævaforn og hefur ekkert með hann Jörund að gera, annað en að hann ríkti á hundadögum þeim sem hefjast ár hver þegar Grikkir sjá Síríus koma upp seint í júlí. Hér á landi sést Síríus hinsvegar ekki nema um vetrartímann. Síríus er heldur stærri en sólin en alls enginn stórstjarna eins og aðrar sem ég hef nefnt. Hin mikla birta stjörnunar skýrist af nálægðinni, en fjarlægðin er „ekki nema“ um 8,6 ljósár frá jörðu eða bara helmingi fjær nálægustu fastastjörnunum Proxima Century og Alfa Century A og B.

- - - -
Það má auðvitað endalaust skrifa um stjörnur enda eru þær endalaust margar. Stjörnufræðivefurinn sinnir því ágætlega og þekkja til mála mun betur en ég, enda fæ ég sumar upplýsingar þaðan ásamt af Vísindavefnum. Stundum er eitthvað misræmi þegar kemur að tölum en hvað sem er rétt þá fæ ég flestar tölur sem ég nefni héðan: http://www.bitacoradegalileo.com/en/2011/07/19/orion-the-cathedral-of-the-sky/


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband