Græn Sahara

Það er sæmilega vel þekkt staðreynd að Sahara eyðimörkin hefur ekki alltaf verið eyðimörk heldur hefur hún líka átt sínar stundir sem gróðri vaxið landssvæði með ám og stöðuvötnum. Miklar vatnbirgðir er enn að finna djúpt undir yfirborðinu en þar er um að ræða vatn frá því tímabili þegar enn rigndi í Sahara, en síðustu 5.000 ár hefur ekkert bæst við þann forða. Þetta mál á sér sínar merkilegustu hliðar sem ég hef aðeins verið að grúska í undanfarið og sett saman í smá texta.

Umrætt græna tímabil í Norður-Afríku hófst skömmu eftir að síðasta jökulskeiði lauk fyrir 10-11 þúsund árum og stóð í nokkur þúsund ár en smám saman tók landið að þorna og breytast aftur í þá sandeyðimörk sem við þekkjum í dag. Það merkilega við þetta er síðan að eyðimerkurmyndunin hélst í hendur við smám saman kólnandi veðurfar á núverandi hlýskeiði og því ekki óeðlilegt að spyrja hvort núverandi hlýnun og framtíðarhlýnun geti leitt til aukinnar úrkomu í Sahara og þar með aukins gróðurfars.
Græn Sahara kort

Fyrri grænu tímabil
Eyðimerkursaga Norður-Afríku hefur verið rannsökuð með því að skoða setlög í Atlantshafinu vestur af Marokkó. Samkvæmt því hefur eyðimerkurástandið verið rofið þrisvar á síðustu 150 þúsund ár. Fyrst fyrir um 110-120 þúsund árum, svo fyrir 45-50 þúsund árum og núna síðast fyrir 10-5 þúsund árum. Athyglisvert er að á miðtímabilinu fyrir 45-50 árum var ekki hlýskeið á jörðinni eins og á hinum tímabilunum enda hófst síðasta jökulskeið smám saman fyrir um 110 þúsund árum og lauk fyrir um 10 þúsund árum. Þó þetta jökulskeið hafi reyndar einkennst af miklum óstöðugleika þar sem jöklarnir ýmist komu og fóru, hefur loftslag varla verið svo hlýtt fyrir 45-50 árum að það jafnist á við það sem gerðist eftir lok síðasta jökulskeiðs – sem þýðir að eitthvað annað hlýtur að koma rigningunni af stað í Sahara en bara hlýtt loftslag.

Ástæður
Það sem helst liggur undir grun til að koma rigningu af stað í Sahara eru eiginlega hin sömu öfl og talin eru valda jökul- og hlýskeiðum á norðurhveli, nefnilega Milankovitch-sveiflurnar svokölluðu: pólvelta, breytilegur möndulhalli og sveiflur í sporbaugslögun jarðar. Þessar sveiflur vinna ýmist með eða á móti hverri annarri en í tilfelli Sahara er það 41 þúsund ára sveiflan á möndulhalla sem sennilega skiptir mestu. ÖxulveltaFyrir um 10 þúsund árum, þegar síðasta jökulskeiði lauk og Sahara tók að grænka, var möndulhalli jarðar í hámarki 24,5° en síðan hefur jörðin verið að rétta úr sér og er nú komin hálfa leið í minnsta halla sem er 22,1°. Við hámarks-möndulhalla eykst sólgeislun að sumri til á hærri breiddargráðum sem hefur áhrif á það ógnarjafnvægi sem ríkir í Norður-Atlantshafi hvað varðar sjávarstrauma og seltujafnvægi. Þannig þykir líklegt að hámarks sólgeislun auki kraft Norður-Atlantshafshringrásarinnar sem leiðir til þess að monsúnrigningarnar í Afríku ná lengra í norður og eyðimerkursandar gróa upp. Hugsanlega þá með þeim aukaverkunum að þurrara verður við Miðjarðarhaf.
Til að koma á alvöru hlýskeiði sambærilegu því sem ríkt hefur síðustu 10 þúsund ár og fyrir 110-120 árum þarf þó meira til en hámarks möndulhalla ef dæmið á að ganga upp. Þar er hentugt að bæta við 100 þúsund ára sveiflunni í sporbaugslögun jarðar um sólu sem einmitt hefur verið okkur hagstæð frá ísaldarlokun.

Út úr Afríku
Nú er það svo að Afríka sunnan Sahara, nánar tiltekið sigdalurinn mikli, hefur í gegnum tíðina verið þróunarmiðstöð mannkynsins og þaðan hafa komið helstu nýjungar og uppfærslur í þróunarsögu mannsins, t.d. Homo Erectus og Neantherdalsmaðurinn. Gróðri vaxin Sahara hefur að öllum líkindum haft þar mikil áhrif enda eyðimörkin löngum verið mikill farartálmi. Lokaútgáfa mannsins Homo Sapiens leitaði einmitt fyrst út úr Afríku á hlýskeiðinu fyrir 110-120 þúsund árum. Sú útrás fór þó reyndar fyrir lítið þegar kólnaði á ný. Hugsanlega leituðu menn aftur til baka og kannski náðu einhverjir lengra í austur til Asíu. Það var svo á græna skeiðinu fyrir 45-50 þúsund árum sem lokaútrás nútímamanna átti sér loksins stað frá Afríku til Evrópu og víðar og leysti af hólmi hina eldri týpu, Neanderdalsmanninn. Síðasta græna skeiðið hafði síðan úrslitaáhrif í sögu okkar. Græn Sahara hefur verið gósenland fyrir safnara og veiðimenn fyrir 10-8 þúsund árum og eru þá fiskveiðar alls ekki útilokaðar. Þegar svo rakinn minnkaði má gera ráð fyrir að menn hafi safnast saman þar sem enn var vatn að finna sem að lokum leiddi til fyrstu menningarsamfélaganna á bökkum og árósum Nílarfljóts en sama þróun gæti einnig hafa átt sér á öðrum vaxandi eyðimerkursvæðum utan álfunnar svo sem í núverandi Írak.

Hlýnandi heimur
Þótt loftslag á núverandi hlýskeiði (Holocene) hafi verið nokkuð stöðugt, hefur smám saman farið kólnandi frá því fyrir um 8 þúsund árum. Það er að reyndar erfitt að bera saman hitafar nákvæmlega milli árþúsunda en með þeirri miklu hlýnun sem hefur verið í gangi undanfarið er sennilegt að hitafar sé komið upp undir það sem hæst gerðist á meðan Sahara var gróðri vaxin eða stefnir að minnsta kosti í það. En hvað gerist varðandi úrkomu í Sahara í hlýnandi heimi er stóra spurningin og þar eru menn ekki sammála. Hinir bjartsýnu benda á þá staðreynd að hlýtt loft getur innihaldið meiri raka sem þýðir meiri úrkomu og minnkandi eyðimerkur. Hinir svartsýnu telja hinsvegar að meira þurfi til í tilfelli Sahara-eyðimerkurinnar því ef hún á að gróa upp þurfi veðurkerfin og monsúnregnið að færast í norður. Slíkt er ekki að gerast enda möndulhalli jarðar minni nú en fyrir 8-10 þúsund árum og sólgeislun að sumarlagi að sama skapi minni. Ekki bólar heldur mikið á regni í Sahara og enn berast fréttir af þurrkum og hungursneiðum í löndum eins og Súdan. Framtíðin er óskrifað blað og ekki víst að allir skilji náttúruöflin eins vel og þeir telja.

Græn Sahara mynd

Nokkrar heimildir:
ScienceDaily: The green Sahara, A Desert In Bloom
ScienceDaily: Greening of Sahara Desert Triggered Early Human Migrations out of Africa
The Daily Galaxy:
Shift in Earth's Orbit Transformed 'Green Sahara' into Planet's Largest Desert 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Sveinn Atli Gunnarsson

Góður pistill Emil, takk fyrir fróðleikinn og vangavelturnar.

Sveinn Atli Gunnarsson, 24.7.2012 kl. 20:57

2 Smámynd: Einar Sveinbjörnsson

Fín umfjöllun Emil Hannes og einkar fróðleg vangavelturnar við vöggu nútímamannsins.

Velti aðeins fyrir mér þegar þú segir að 100 þús ára sveiflan (Milankovitch 1) hafi verið að vinna með okkur frá lokum síðasta jökulskeiðs.  Þessa áratugina er jörð næst sólu 3. janúar  (sum árin þ. 4.).  Hámark sólgeislunarinnar vegna sporöskulögunarinnar er því þegar sumar er á suðurhveli öðru nafni hafhveli jarðar þar sem endurkastið skiðtir sköpum.  Þessi dagsetning hreyfist hægt í takt við 100 þús ára sveifluna ekki satt ?

ESv 

Einar Sveinbjörnsson, 24.7.2012 kl. 22:03

3 Smámynd: Emil Hannes Valgeirsson

Þetta sem ég segi um 100 þúsund ára sveifluna mætti kannski skoða betur en mér skilst að við séum staddir þannig í sveiflunni að sporbaugurinn er nálægt því að vera hringlaga en ekki sporöskjulaga þannig að þessi árþúsundin skiptir ekki eins miklu máli hvaða hvel snýr að sólu þegar jörðin er næst henni. 100 þúsund ára sveiflan fellur best að megin-hlýskeiðunum og því nefndi ég þetta með að hún hafi unnið með okkur undanfarin árþúsundin.

Emil Hannes Valgeirsson, 25.7.2012 kl. 00:19

4 Smámynd: Einar Sveinbjörnsson

Já og á meðan hún er hringlaga skiptir vissulega minna máli að orkuflæðið sé mest þegar er vetur á norðurhveli. Hálfu ári síðar um 3. júlí er jörðin líka nær sólu en þarna á milli (og 3 mán. síðar), þó svo að hún sé ekki fullt eins nálægt og um áramótin.

ESv

Einar Sveinbjörnsson, 25.7.2012 kl. 08:51

5 Smámynd: Höskuldur Búi Jónsson

Fróðlegt og skemmtilegt..

Höskuldur Búi Jónsson, 25.7.2012 kl. 12:48

6 Smámynd: Vilhjálmur Eyþórsson

Það segir sig sjáflt, að úrkoma hlýtur að vaxa þegar hlýnar í veðri. Ekki þarf mikið vit til að sjá það. Ekki aðeins tekur hlýtt loft til sín miklu meiri raka, heldur eykst líka uppgufunin úr höfunum. Á tertíertíma og fyrr, þegar hiti var oft um og yfir 10 stigum hærri en nú var jörðin iðjagræn, þar á meðal Ísland. Raunar ræði ég allt þetta mál náið í Þjóðmálagreininni „Að flýta ísöldinni“ http://vey.blog.is/blog/vey/entry/988129/.

Þetta tal þitt um uppruna mannkyns fylgir að vísu núverandi ríkjandi pólitískri rétthugsun, en er hæpið, þótt hér sé ekki rúm til að ræða það. Þó má benda á, að Neandertalsmenn finnast aðeins í Evrópu og Vestur- Asíu og flest bendir til að þeir hafi þróast þar fram, en frumstæðir menn voru komnir til Evrasíu fyrir meira en milljón árum eins og beinafundir sanna.

Vilhjálmur Eyþórsson, 25.7.2012 kl. 13:04

7 Smámynd: Emil Hannes Valgeirsson

Spurning varðandi úrkomu þegar horft er tugmilljónir ára aftur í tíman er líka lega meginlandana, t.d. flæddi hlýr sjór milli Norður- og Suður-Ameríku á tertíer þannig að erfitt er að bera saman aðstæður nú og þá og fullyrða að allt muni grænka við aukinn hita nú. Heildarúrkoma á jörðinni mun væntanlega aukast við hlýnun, en ég veit ekki hvort hlýni nógu mikið eða hvort sú aukning dugi til að breyta aðstæðum í Sahara.

Ég veit heldur ekki mikið um pólitíska rétthugsun í þróunarsögu mannsins. Mér er þó kunnugt að Homo Erectus var kominn til Asíu fyrir 1-2 milljónum ára og Neandertalsmaðurinn til Evrópu og Vestur-Asíu löngu síðar en ég minnist einmitt á báða þessa kappa í bloggfærslunni þó ég hafi ekki tiltekið hvert þeir fóru og hvenær.

Emil Hannes Valgeirsson, 25.7.2012 kl. 13:51

8 Smámynd: Emil Hannes Valgeirsson

p.s. Vilhjálmur. Ég hef lesið Þjóðmálagrein þína „Að flýta ísöldinni“ að minnsta kosti tvisvar frá því hún birtist á sínum tíma. Kíki kannski á hana einu sinni enn enda er hún áhugavert innlegg.

Emil Hannes Valgeirsson, 25.7.2012 kl. 14:18

9 Smámynd: Ívar Pálsson

Takk, þetta eru fróðlegar pælingar, Emil Hannes ofl.

Ívar Pálsson, 25.7.2012 kl. 16:49

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband