Skaflaleiðangur á Esjuna

Sunnudaginn 19. ágúst var Esjan klifin upp í hæstu skaflahæðir í Gunnlaugsskarð í þeim aðaltilgangi að meta og mæla stærsta skaflinn sem þar er enn að finna. Leiðangursmenn ásamt mér voru bloggfélagarnir og loftslagsbræðurnir góðkunnu, Höskuldur Búi og Sveinn Atli. Ferðin þangað uppeftir er frekar löng og brött á kafla þegar brölta þarf upp meðfram gilinu neðan við skálina sem hefur verið kennt við Gunnlaugsskarð. Eins og kunnugt er, er afkoma Esjuskafla ágætis loftslagsmælikvarði enda eiga þeir til að hverfa alveg, frá Reykjavík séð þegar hlýindi eru ríkjandi, en á kuldaskeiðum geta allnokkrir skaflar lifað af yfir sumarið. Hér í síðustu færslu birti ég einmitt mynd úr ferð sem ég fór á sömu slóðir 27. ágúst árið 1995, en þar mátti sjá talsvert mikla skafla í áðurnefndum giljum neðan við Gunnlaugsskarð. Segja má reyndar að árið 1995 hafi verið síðasta kalda árið sem komið hefur í Reykjavík og að það marki lok kuldaskeiðsins á seinni hluta síðust aldar.

Skafleiðangur 1

Mynd: Höskuldur Búi ásamt undirrituðum komnir upp í Gunnlaugsskarð.

EIns og í góðum könnunarleiðangrum var málband með för og mældist skaflinn um 32 metrar á lengd. Breiddin var ekki mæld en gæti hafa verið allt að 10 metrar - meiri óvissa er um þykktina. Fleiri skaflar voru sjáanlegir en við fórum ekki að þeim. Sá næststærti var heldur minni en sá sem við mældum og svo var einn örsmár sem ekki átti mikið eftir. Okkur félögunum þótti nokkuð ljóst að allir skaflarnir myndu hverfa fyrir haustið og vel það. Þeir loftslagsfélagar voru síðan auðvitað á því að þarna væri komin enn ein skotheld sönnun fyrir hlýnun jarðar af mannavöldum. Eða svona „more or less“.

Skafleiðangur 2

 Mynd: Höskuldur Búi og Sveinn Atli með málbandið.

Skaflasaga Esjunnar er annars í stuttu máli sú að ekki er vitað til þess að þeir hafi horfið alveg séð frá Reykjavík fyrir árið 1930. Á hlýja tímabilinu 1930-1964 hvarf snjórinn alloft en lengsta snjólausa tímabilið var á árunum 1932-1936. Þega kólna tók á ný hvarf snjórinn ekki frá árinu 1965 til ársins 1997. Það gerðist hinsvegar á ný árið 1998. Lengsta snjólausa tímabilið sem vitað er um eru svo árin 2001 til 2010, en í fyrra vantaði herslumuninn eins og áður sagði og að öllum líkindum verður Esjan snjólaus í ár. Þetta passar ágætlega við það að öll ár þessar aldar hafa verið hlý og síðustu 10 ár hlýrri að meðaltali en nokkurt annað 10 ára skeið í Reykjavík og ekkert lát á því miðað við það sem af er þessu ári. Svo ég nefni tölur þá hefur meðalhitinn síðustu 10 ár verið 5,52 stig hér í Reykjavík en á hlýjasta tímabil síðustu aldar (1932-1941) var meðalhitinn 5,14 stig. Á köldu árunum á seinni hluta 20. aldar fór 10 ára meðalhitinn niður í 4,0 stig, árin 1979-1988.

Á Esjumyndinni sem ég tók fyrir nokkrum dögum sést glitta í skafla. Gunnlaugsskarðið er þarna austast en einnig má vekja athygli á Kerhólakambs-skaflinum sem enn er til staðar. Venjulega hverfur hann á undan hinum en að þessu sinni er hann nokkuð seigur og gæti allt eins orðið sá síðast til að hverfa í ár.

Esja 14. ágúst 2012

- - - -

Miklu nánar er hægt að lesa um Esjuskafla í fróðleikspistli eftir Pál Bergþórsson á vef Veðurstofunnar: http://www.vedur.is/vedur/frodleikur/greinar/nr/2068

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: S i g u r ð u r   S i g u r ð a r s o n

Ég var nú að velta því fyrir mér, enn einu sinni, að fara upp í Gunnlaugsskarð og moka sköflunum til. Búið að standa til lengi. Hins vegar hefur enginn nennt með mér í þannig fölsunarferð ... ;-)

Ótrúlegt hvað skaflarnir eru tilkomulitlir þegar að er komið miðað við þá sögu sem þeir segja. Verst að þú skulir ekki hafa mælt þykktina.

S i g u r ð u r S i g u r ð a r s o n, 20.8.2012 kl. 23:49

2 Smámynd: Emil Hannes Valgeirsson

Það er nú ansi hart í þessum sköflum þannig að maður stingur ekki svo auðveldlega einhverju í þá til að mæla þykkt og ef þú ætlar að dreifa úr þeim gætirðu þurft bæði haka og skóflu.

Emil Hannes Valgeirsson, 21.8.2012 kl. 00:10

3 Smámynd: Sveinn Atli Gunnarsson

Á slóðinni hér undir má sjá mynd tekna ofan frá og niður þar sem hægt er að sjá hvernig skaflinn væntanlega er að innan verðunni. Þ.e. hann virðist holóttur eins og ostur þaðan frá og hugsanlega er hann að einhverju leiti þannig að innan, ef svo má að orði komast. Þykktin þarna efst er kannski um 15-30 sm. og svo þykknar hann þegar nær dregur miðju.

https://fbcdn-sphotos-a-a.akamaihd.net/hphotos-ak-ash4/484135_4251445051638_1604263951_n.jpg

Sveinn Atli Gunnarsson, 21.8.2012 kl. 08:42

4 Smámynd: Emil Hannes Valgeirsson

Skaflarnir virðast bráðna að ofan og neðan og fara ört minnkandi í hlýindunum. Nú er bara spurning hvort þeir hverfi fyrir eða eftir mánaðarmót.

Emil Hannes Valgeirsson, 21.8.2012 kl. 21:48

5 Smámynd: Emil Hannes Valgeirsson

Nýjasta nýtt: Núna þann 4. september er skaflinn í Gunnlaugsskarði horfinn en smáskaflinn vestan við Kerhólakamb tórir enn. Þetta er óvenjulegt en kemur mér ekki á óvart miðað við það sem ég nefni í lok pistilsins.

Emil Hannes Valgeirsson, 4.9.2012 kl. 17:45

6 Smámynd: Sveinn Atli Gunnarsson

Ég var einmitt að spá í þetta fyrir stuttu síðan þegar mér varð litið upp í Gunnlaugsskarð. Takk fyrir fréttirnar...

Sveinn Atli Gunnarsson, 4.9.2012 kl. 21:42

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband