28.8.2012 | 23:15
Gengið yfir Fimmvörðuháls
Það má segja að Fimmvörðuhálsinn hafi slegið rækilega í gegn með eldgosinu sem þar kom upp í mars 2010. Það var líka sannkallað túristagos og í góðu samræmi við það voru nokkrar göngustikur einu mannvikin sem lentu undir hrauni. Sjálfur fylgdist ég með vel gosinu eftir bestu getu, spáði í hraunstraumana, lá yfir vefmyndavélum og fannst þetta allt nokkuð stórkostlegt því þótt gosið hafi verið smærra móti var staðsetningin afar athyglisverð og aldrei var að vita hvert framhaldið yrði. Mesta upplifunin var svo auðvitað þegar ég gekk, eins og sumir aðrir, alla leiðina frá Skógum að gosstöðvunum og sömu leið til baka í björtu veðri og töluverðu vetrarfrosti. Það var þó ekki fyrsta ferð mín upp á Fimmvörðuháls því árið 1994 gekk ég hina klassísku leið frá Skógum yfir í Þórsmörk.
Sunnudaginn 26. ágúst s.l. var svo komið að þriðju ferð minni á hálsinn sem ég fór ásamt góðum hópi vinnufélaga þannig að nú hef ég farið þetta fyrir og eftir gos og líka í gosinu sjálfu. Þessi síðasta ferð var ákveðin fyrir nokkrum mánuðum en þegar nær dró fóru veðurspár að gerast tvísýnar og full ástæða að taka mið af þeim vegna þess veðravítis sem Fimmvörðuhálsinn getur verið. En þrátt fyrir óuppörvandi veðurspár var mætt að Skógum kvöldið áður og vonað það besta. Það borgaði sig því þennan sunnudag var veðrið með besta móti, úrvals skyggni alla leiðina og passlegur vindur, svona rétt til að koma í veg fyrir ofhitnun göngumanna.
Svo ég segi fyrir mig þá er þessi staður þar sem gosið kom upp einn af stórbrotnustu stöðum landsins og ekki versnaði það með viðbótinni sem kom upp með eldsumbrotunum. Gosið í Eyjafjallajökli hafði líka sitt að segja því aska liggur víða í sköflum og eykst eftir því sem ofar dregur frá láglendi. Merkilegt var að sjá hvernig snjóskaflar bregðast við öskunni ofan á sér því þegar snjórinn undir bráðnar, myndast heilmiklar þúfur og eins gott að passa upp á að falla ekki niður í göt sem bræðsluvatn hefur myndað að neðanverðu.
Best að skella inn nokkrum myndum. En fyrst má geta þess að gengið var meðfram fossunum alla leið upp en þeirri leið er einmitt lýst í bókinni GÖNGULEIÐIN YFIR FIMMVÖRÐUHÁLS sem hann Sigurður stórbloggari Sigurðarson var að gefa út og segir betur frá á sinni síðu. Þegar sú leið er farin er komið upp heldur vestar en oftast hefur verið farið.
Einn af fjölmörgum fossum á leiðinni upp.
Hér er hópurinn kominn á Fimmvörðuháls og allt er öskugrátt. Þarna var dálítill farartálmi vegna vatnsins sem streymdi undan stórum snjóskafli. Nýju fellin er þarna lengst til vinstri.
Sandhjúpaður snjóskafl með þúfum og ginnungargöpum.
Eldfellið Magni í öllu sínu veldi.
Hér er horft niður Bröttufönn (sem er engin fönn lengur) í átt að Mýrdalsjökli. Lengst niðrí Hrunagili má sjá glitta í nýja hraunið. Ofan á því rennur vatn sem kemur af fossinum þarna hægra megin.
Hér sést Hrunagilið og storknað hraunið sem féll þar niður í háum fossi uns það hafði hlaðist nógu vel upp í botninum til að mynda rennibraut. Þegar sú braut var almennilega tilbúin tók hraunið hinsvegar að streyma niður Hvannárgilið sem er vestar, byrjaði svo að renna þarna niður aftur, svo fór að gjósa á hinni sprungunni sem aftur dró úr hraunrennsli þarna.
Svo er það bara leiðin niður Þórsmerkurmegin.
- - - - -
Í bloggfærslunni MYNDIR AF VETTVANGI er greint frá gosferð minni að eldstöðvunum þann 27. mars 2010.
Athugasemdir
Flottar myndir. Hvað er reiknað með að gönguferð á milli Skóga og Þórsmerkur taki?
Gunnar Th. Gunnarsson, 29.8.2012 kl. 09:59
Takk fyrir. Þetta eru svona 8-9 tímar þarna yfir, við vorum einhverstaðar á því bili.
Emil Hannes Valgeirsson, 29.8.2012 kl. 10:23
Takk
Gunnar Th. Gunnarsson, 29.8.2012 kl. 10:52
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.