Stóra sumarveðurmyndin

Nú þegar hinir eiginlegu sumarmánuðir eru liðnir er kominn tími á smá yfirlit unnið upp úr mínum eigin veðurskráningum sem ná aftur til 7. júní 1986. Í þessari margbrotnu mósaíkmynd sem ég hef dundað mér við að koma saman upp úr skráningarbókunum, má sjá hvaða daga sólin hefur skinið og úrkoma fallið í Reykjavík yfir sumarmánuðina. Litakvarðinn er sýndur undir myndinni en annars ætti þetta að skýra sig sjálft. Sjá má hvernig þróunin hefur verið í stórum dráttum, en eins og íbúar Reykjavíkur og nágrennis ættu að vera sammála um þá hafa mörg undanfarin sumur verið með besta móti  hin síðari ár og af sem áður var. Tölurnar hægra megin sýna skráða sólardaga í Reykjavík þegar lagðir hafa verið saman heilir og hálfir sólardagar. Samkvæmt þem sést að á sólríkum sumrum eru sólardagar nálega tvöfalt fleiri en á sólarsnauðum sumrum. Nánari bollaleggingar eru undir myndinni.

Sumarveður Rvik 1986-2012

Nánari bollaleggingar: Allt fram til hinna síðustu ára má segja sumur með 25-35 sólardögum hafi verið normið. Sumarið 1991 þótti á sínum tíma einstaklega gott og þá skráði ég 38,5 sólardaga en þá var júní sérstaklega sólríkur. Júlí það sumar er þar að auki sá heitasti sem komið hefur í Reykjavík ásamt júlí 2010. Árið 2004 kom svo fyrsta 40 sólardaga sumarið sem ég skrái en eftir það hafa fjögur bæst við, þar á meðal sumarið í ár. Sólarminnsta sumarið skrái ég 1995 en einnig eru sumrin 1988, 1989 og 1992 ansi döpur. Sólskinið segir þó ekki allt þegar kemur að veðurgæðum því samkvæmt mínu veðureinkunnakerfi er árið 1989 lakasta sumarið á meðan sumarið 2009 trónir á toppnum.

Svo má líka skoða einstaka mánuði frá 1986. Samanburðinn er hér unninn upp úr Veðurstofutölum en eins og sjá má ber allt að sama brunni. Jákvæðu metin eru öll frá árinu 2004 og síðar en hin neikvæðu eru öll fyrir þá tíð. Hlýindi síðustu ára er svo annar kapítuli en þar svipaða sögu að segja.

Best og verst frá 1986


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Sigurður Þór Guðjónsson

September er eiginlegur sumarmámuður í eiginlegri merkingu að mínum dómi og er talinn með sumrinu í veðurfarslegum skilningi.  Og síðustu ár hafa septembermánuðir oft verið góðir og alveg ótvíræðir sumarmánuðir. En september getur brugðist eins og aðrir sumarmánuðir. Ég er andvígur því, sem verður samt æ algengara , að menn séu að gera upp sumarið eftir lok ágúst og láta sem það sé sumarið. En það er allt í lagi að gera upp júní til ágúst út af fyrir sig. En það er ekki hægt að kalla það sumaruppgjör. Að öðru leyti er þetta frábærlega skemmtilegt eins og allar þínar skráningar.

Sigurður Þór Guðjónsson, 2.9.2012 kl. 13:58

2 Smámynd: Emil Hannes Valgeirsson

Þú verður að athuga að ég er alinn upp í kuldakastinu á seinni hluta síðustu aldar og þá var september sko enginn sumarmánuður. Hið eiginlega sumar var líka júní-ágúst þegar sumarfrí var í skólum en strax í september tók alvaran við með kaldari dögum en oft góðum samt sem áður. Ég hef því alltaf litið á að sumarið hér á landi sé júní-ágúst.

Emil Hannes Valgeirsson, 2.9.2012 kl. 17:02

3 identicon

Tja, við Sigurður Þór erum á svipuðum aldri og munum því tímana tvenna, eða kannski frekar þrenna, ef það er skoðað! En teoretiskt er víst venjan í veðurfarsfræðum að líta á september sem sumarmánuð - að mestu leyti allavega. Hinsvegar held ég að það sé svo mikill munur á veðurfari hér norðanlands og á sunnan- og suðvestanverðu landinu, að segja megi að sumarið sé a.m.k. þremur ef ekki fimm vikum lengra sunnanlands en hér nyrðra. Að vísu er innanverður Eyjafjörður og Akureyri undantekning í þessu samhengi, en þar er talsvert meiri veðursæld en annarsstaðar norðan miðhálendisins.

Þorkell Guðbrandsson (IP-tala skráð) 2.9.2012 kl. 21:32

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband