20 stiga hitar í Reykjavík og á Akureyri

Sem óbeint framhald af síðustu færslu þar sem 20 millimetra úrkomumarkið kom við sögu er alveg tilvalið að taka fyrir 20 stiga hitamarkið. Reykjavík er þannig í sveit sett að öfgar í hitafari eru ekki miklar í hvora áttina sem er og því er það alltaf dálítill viðburður þegar hitinn nær 20 stigum. Á Akureyri eru hitasveiflur meiri og hámarkshiti sumarsins hærri enda nánast regla að hámarskhitinn nái 20 stigum á Akureyri einhverntíma á sumrin og stundum vel það og nokkrum sinnum. Samt sem áður er meðalhitinn í Reykjavík hærri á sumrin sem og aðra mánuði. 20 stiga hitasögu þessara staða frá 1930 má sjá á nýuppfærðum línuritunum sem ég útbjó á sínum tíma útfrá Veðurstofugögnum. Fyrst er það Reykjavík:
20 stig Reykjavik 1930-2011

Á Reykjavíkurmyndinni má sjá að 20 stiga hámarkshiti náðist reglulega á hlýju árunum 1934-1960. Greinilega þó oft með nokkrum herkjum en hæst komst hitinn í 23,1°C árið 1950. Eftir 1960 liðu heil 15 ár án 20 stiga en svo þegar það loksins gerðist árið 1976 varð það með slíkum glæsibrag að nýtt hitamet var sett í borginni, 24,3°C. Mjög hlýtt var einnig í lok júlí 1980 þegar hitinn náði 23,7°C en þessir tveir hitatoppar eru annars mjög ódæmigerðir fyrir hina köldu tíð þessi árin. Eftir aldamótin hefur hlýnað svo um munar og 20 stiga hámarkshiti frekar orðin venja en undantekning. Nýtt hitamet var sett í ágúst-hitabylgjunni árið 2004: 24,8°C og svo aftur þann 31. júlí árið 2008: 25,7°C. Nú í sumar náði hitinn hæst upp í 21,3° þann 16. ágúst í einskonar mini-hitabylgju.

Hærri hitar hafa sjálfsagt mælst á sjálfvirkum stöðvum í borgarlandinu en það tel ég ekki með hér. Það verður líka að hafa í huga að Veðurstofan var á nokkru flakki þar til flutt var á Bústaðaveginn árið 1973.

20 stig Akureyri 1930-2011

Á Akureyramyndinni eru gulu 20 stiga súlurnar allsráðandi allt tímabilið, nokkrar brúnleitar 25 stiga súlur skjóta líka upp kollinum á meðan aðeins fjórar súlur eru gráar. Hæsta súlan sýnir hvorki meira né minna en 29,4°C sem mældist í júní árið 1974 og er það meðal hæstu hitagilda sem mælst hafa á landinu. Að vísu þykir grunsamlegt hversu hátt hitinn komst á þeim árum en Trausti Jónsson hefur þetta um málið að segja í greinargerðinni: Hitabylgjur og hlýir dagar: „Hitametið frá Akureyri 1974 (29,4°C) hefur þann kross að bera að skýlið stendur á bílastæði sem varla er hægt að telja staðalaðstæður.“ Aðstæður á Akureyri þekki ég reyndar ekki mjög vel en mér skilst þó að athuganir hafi síðar verið færðar yfir á grasflöt þarna skammt frá sem gæti skýrt að hluta að eftir hitabylgjuna í júlí 1991 hefur hitinn ekki náð 25 stigum á Akureyri. Hann var þó ekki fjarri því í sumar þann 9. ágúst þegar hitinn mældist 24,4°C.

Hvað sem allri óvissu líður þá fer ekkert á milli mála að hámarkshiti sumarsins er að öllu jöfnu hærri á Akureyri en í Reykjavík og gæti munað eitthvað um 4 stigum. Menn geta auðvitað unað vel við það fyrir norðan en ég er ekkert að gera neinum þann óleik að bera saman lágmarkshitann.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband