Stóra snjódagamyndin

Það er varla hægt að tala um að snjóað hafi í Reykjavík það sem af er vetri ólíkt því sem verið hefur á norðurhluta landsins. Ekki virðast miklar líkur á að þetta muni breytast í bráð því spáð er sæmilegum hlýindum næstu daga og má jafnvel gæla við þann möguleika að ekkert snjói fram að jólum. Þetta er allt annað ástand en var í fyrra þegar við fengum snjóþyngsta desember í manna minnum eftir hlýjan nóvembermánuð.

Stóru snjódagamyndina hér að neðan birti ég síðast fyrir um ári en þar má sjá hvenær snjór hefur verið á jörðu í Reykjavík mánuðina frá október til apríl allt aftur til ársins 1986. Síðastliðinn vetur er nú kominn inn en annars er myndin óbreytt. Hver lárétt lína stendur fyrir einn vetur samkvæmt ártölum vinstra megin og tölurnar hægra megin sýna fjölda hvítra- eða hvítflekkóttra daga. Þetta er allt unnið út frá mínum eigin veðurdagbókarskráningum en miðað er við hvort jörð sé hvít eða auð á miðnætti eða því sem næst. Einhver munur gæti verið á þessum athugunum og hinum opinberu snjóhuluathugunum sem fara fram á Veðurstofutúni að morgni til. Svo má taka fram að oft er mikið matsatriði hvort jörð sé hvít eða ekki því stundum er aðeins um að ræða lítilsháttar nýfallna snjóföl eða misflekkótta snjóhulu í mismikilli afturför.

Snjódagar 1986-2012
Samkvæmt þessu, þá er veturinn 1994-1995 sá hvítasti með 129 daga en sá snjóléttasti er hinn hlýi vetur 2002-2003 með aðeins 32 daga. Aðeins einum snjódegi meira var svo veturinn 2009-2010. Snjódýptin sést ekki á myndinni en í minningunni er veturinn 1988-1989 eftirminnilegastur vegna mikils fannfergis eftir áramót og fram í apríl. Veturinn þar á eftir var snjórinn einnig mjög þrálátur en ekki alveg eins mikill að magni.

Svo má líka skoða endana. Árin 2008 og 2009 snjóaði óvenjusnemma en það entist þó ekki lengi. Þrjú tilfelli eru um hvíta jörð í bláendann í apríl. Myndin nær ekki fram í maí en sumir muna kannski eftir mikla snjónum að morgni 1. maí 2011, svipað og gerðist árið 1987.

Nú veit ég auðvitað ekkert hvernig snjóalögum verður háttað það sem eftir er vetrar en aðalsnjóavertíðin ætti annars að vera framundan. Eins og sést á myndinni þá segir upphaf vetrar lítið til um framhaldið. Hlýindatímabil ríkir reyndar enn á Íslandi og ekkert sem bendir til að það sé yfirstaðið. Þrátt fyrir það má alltaf eiga von á köldum snjóþyngslamánuðum inn á milli til tilbreytingar.

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband