Reykjavíkurhiti í kubbamynd

Árið 2012 hefur nú fengið sinn sess í kubbamyndinni sem ég gerði á sínum tíma og hef uppfært síðan. Nú liggur fyrir að meðalhiti liðins árs í Reykjavík var 5,5 stig. Það er alveg í samræmi meðalhita síðustu 10 ára og 1,2 gráðum yfir 30 ára meðaltalinu frá 1961-1990 og hálfri gráðu yfir hlýja 30 ára meðaltalinu 1931-1960. Þetta var líka 12 árið í röð með meðalhita yfir 5 stigum og eru nokkur ár síðan svo mörg hlý ár í röð töldust vera einsdæmi enda hafa hlýindin frá síðustu aldamótum verið með eindæmum.

Kubbamynd 1901-2012
Nýliðið ár er grænblátt að lit sem er litur áratugarins. Það er í félagsskap með tveimur öðrum jafnhlýjum árum 1928 og 2007 sem líka geta talist vera góðærin áður en allt hrundi. Annars sést þarna ágætlega hvernig áratugirnir dreifast á hitaskalanum. Sá síðasti hélt sér alfarið ofan við 5 stigin öfugt við fyrsta áratug 20. aldar sem komst ekki upp fyrir 4,5 stigin. Efst trónir þarna árið 2003 með 6,1 stig í meðalhita en árið 1979 situr sem fastast á botninum með árshita upp á aðeins 2,9 stig. Árið 1995 er síðasta kalda árið sem komið hefur og mætti segja að það marki lok kalda tímabilsins sem hófst um eða upp úr 1965.

Nokkur ár frá hlýindaskeiði síðustu aldar veita hlýjustu árum seinni tíma harða keppni en óvissa vegna tilfærslu veðurathuganna er þó alltaf einhver eins og stundum er tekið fram í tilkynningum Veðurstofunnar. Það sem hinsvegar dregur meðalhita fyrra hlýindatímabilsins niður er meiri óstöðugleiki í hitafari en verið hefur á núverandi hlýskeiði.

Það er klassískt að velta fyrir sér hvort árshitinn sé kominn til að vera yfir 5 stigunum. Það finnst mér sjálfum frekar ólíklegt og treysti auk þess ekki alveg á að nýhafinn áratugur verði endilega hlýrri en sá síðasti. Áratugurinn fer þó vel af stað og ekki síst nýhafið ár 2013.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Sigurður Þór Guðjónsson

Bráðum kemur hitafallið og fall þess mun verða mikið!

Sigurður Þór Guðjónsson, 6.1.2013 kl. 20:08

2 Smámynd: Höskuldur Búi Jónsson

Væri ekki skýrara að hafa þennan áratug í aðeins ólíkari lit en áttundi áratugurinn?

Höskuldur Búi Jónsson, 6.1.2013 kl. 22:56

3 Smámynd: Emil Hannes Valgeirsson

Er þetta ekki bara einhver litblinda í þér Höskuldur? Annars er ólíklegt að litirnir eigi eftir að lenda saman nema kannski ef hitafallið hans Sigga gengur eftir.

Emil Hannes Valgeirsson, 7.1.2013 kl. 13:21

4 Smámynd: Höskuldur Búi Jónsson

Jú, kannski - konan mín segir reyndar alltaf að ég sé með lélega litgreind

Höskuldur Búi Jónsson, 7.1.2013 kl. 14:22

5 Smámynd: Sveinn Atli Gunnarsson

Þetta litaval gæti valdið miklum ruglingi þegar hin staðbundna hnattkólnun i Reykjavík fer á fullt - það er ljóst ;)

En, eins og alltaf, fróðlegt að sjá þetta, hvað sem öðru líður...

Sveinn Atli Gunnarsson, 7.1.2013 kl. 15:46

6 Smámynd: Kristinn Pétursson

Hafið þið skoðað þetta - var að rekast á þetta:

http://jonmagnusson.blog.is/blog/jonmagnusson/entry/1276272/ 

Kristinn Pétursson, 10.1.2013 kl. 12:54

7 Smámynd: Emil Hannes Valgeirsson

Já ég var búinn að lesa þetta.

Hér er mál sem er áhugavert og tengist því að höfin geta haft áhrif til kælingar og hlýnunnar á áratugaskala með þeim áhrifum að sú langtímahlýnun sem annars væri í gangi getur ýmist orðið að engu á tímabili, en á öðrum tímabilum orðið hraðari en annars. Samkvæmt þessu virðast höfin (sérstaklega þó Kyrrahafið) hafa vera að vinna gegn hnattrænni hlýnun frá aldamótum. Hér á okkar slóðum er þó hlýr fasi í gangi sem stuðlar meðal annars að þeim hlýindum sem hér hafa verið.

Um þetta má líka lesa á vef NewScientist: Has global warming ground to a halt?

Reyndar er þetta eitthvað sem ég hef sjálfur hugleitt og skrifað um. Upphaflega gerði ég það árið 2008 í bloggfærslu með svipaðri fyrirsögn og NewScientist: Er hlýnun jarðar komin í pásu?

Emil Hannes Valgeirsson, 10.1.2013 kl. 15:32

8 Smámynd: Sveinn Atli Gunnarsson

Held að færsla Jóns Magnússonar breyti fræðunum ekki hið minnsta, jafnvel þó að hann velji að orða það sem svo:

Þetta þýðir að öll tölvumódel og spár vísindamannanna sem hafa spáð óafturkallanlegri hlýnun af mannavöldum og óbætanlegar skemmdir á jörðinni og vistkerfinu vegna útblásturs koltvíoxýðs hafa sem betur fer reynst rangar.

Hljómar sem einhver órökstudd óskhyggja...því miður.

Það sem mér sýnist Met-Office hafa gert, er að uppfæra hitaspár næstu (hvað sem veldur því í sjálfu sér) og svo sem ekkert athugavert við það... En af því að þeir lækkuðu hitastig miðað við fyrri spá, þá hafa einhverjir valið að túlka það sem svo að hnattræn hlýnun af mannavöldum sé ekki á rökum reist - það er ekkert sem styður þá hugmynd í sjálfu sér - enda staðfesta mælingar kenninguna.

Sveinn Atli Gunnarsson, 10.1.2013 kl. 16:03

9 Smámynd: Höskuldur Búi Jónsson

Um mistúlkanir á spá Met Office
http://www.loftslag.is/?p=13876

Höskuldur Búi Jónsson, 13.1.2013 kl. 17:00

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband