Gamla Nýlistin (Art Nouveau)

SaraBernhÞað er oftast mikil skammsýni að kenni eitthvað við nýjungar. Art Nouveau upp á frönsku er þó heitið á miklu tískufyrirbæri sem tröllreið lista- og hönnunarheiminum nálægt aldamótunum 1900. Annað heiti á fyrirbærinu, Jugendstil upp á þýsku er líka mikið notað og útfrá því íslenska þýðingin: Ungstíll. Þessi stíll náði yfir öll svið hönnunar allt frá stærstu byggingum niður í fíngerðustu skartgripi en var líka mjög áberandi í öllu myndmáli sem og í bókahönnun og leturgerðum. Sem listastefna vó Art Nouveau kannski ekki þungt en hafði þó greinileg áhrif á listamenn síns tíma. Áhrifamesti fulltrúi stílsins og eiginlegur upphafsmaður er tékkneski listamaðurinn Alphonse Mucha sem sló í gegn í París með glæsilegu leikhússplakati með Söru Bernhards árið 1895. Spænski arkitektinn Antóni Gaudi sem teiknaði skrítnu húsin og hálfbyggðu kirkjuna í Barcelóna er einnig verðugur fulltrúi.

Art Nouveau er fjarri því að vera unglegur eða nútímalegur stíll í dag, enda ber hann glögglega með sér horfinn tíðaranda gömlu daganna. Líta má á stílinn sem mótvægi við hinn stífa og upphafna Nýklassíska stíl sem sótti fyrirmyndir sínar alla leið aftur til Grikkja og Rómverja. Með Art Nouveau voru það hin frjálsu form náttúrunnar sem gengið var útfrá, fegurðin var sótt blómaskrúð og vafningsjurtir allskonar og helst mátti ekkert vera beint eða hornrétt - hvað þá í ströngum hlutföllum. Að ýmsu leyti má því líkja þessu við blómaskeið '68 kynslóðarinnar sem einnig var uppreisn gegn hinu stranga og siðaða.

Art Nouveau er í raun rómantískur stíll og má segja að hann sé nokkuð kvenlegur enda kvenfígúrur og þokkagyðjur vinsælt myndefni. Þær eru þá gjarnan sýndar svífandi um í blómaskrúði dreymnar á svip þar sem einhver forneskja svífur yfir vötnum. Þetta voru líka tímar þegar hið dularfulla var mikils metið með tilheyrandi spíritisma og handanheimum. Í dag tengist svoleiðis því að vera nýaldarsinnaður sem er líka viss tenging við nýja tíma.

En hvar sem líður forneskjulegum tilvísunum þá var Art Nouveau stíllinn á sínum tíma nútímalegur að yfirbragði og léttleikandi. Evrópumenn voru á þessum tímum að uppgötva framandi menningarheima þar sem hægt var að sækja í nýstárlegt myndmál og skraut. Japönsk grafíklist hafði þarna sitt að segja en Japönsk list einkenndist að fagurlega dregnum línuteikningum sem er svo einkennandi í Art Nouveau stílnum.

ArtNouveau sýnishorn
Art Nouveau tímabilið stóð ekki lengi. Kannski má segja að það hafi sokkið með Titanic ásamt svo mörgu öðru sem telst til lystisemda gömlu dagana. Í Bandaríkjunum þróaðist þó Art Deco stíllinn sem bauð upp á nýstárlegan tignarleika sem naut sín vel í nýju skýjakljúfunum en í Evrópu fóru í hönd viðsjárverðari tímar þar sem blásið var til byltinga og stríðsátaka. Í þeim tíðaranda var lítið pláss fyrir fínlegheit og annað dúllerí. Sumir vildu þá fara alla leið og gerilsneyða umhverfið af öllu skrauti. Kannski mætti reyna að rekja eitthvað að því síðar.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband