Flugvöllur á Bessastaðanesi

Öðru hvoru kemur upp umræða um framtíðarstaðsetningu Reykjavíkurflugvallar. Í þeirri umræðu er algerlega horft fram hjá því að í höfuðborgarsvæðinu miðju er til staðar marflatt, ónotað landsvæði á stærð við það sem fer undir Reykjavíkurflugvöll í dag. Hér er ég að tala um Bessastaðanes á Álftanesi en þangað hafa fáir komið og margir vita jafnvel ekki að yfirleitt sé til. 

Á meðfylgjandi mynd hef ég teiknað inn flugvöll með þremur flugbrautum sem eru jafnlangar þeim sem eru í dag og stefnan er svipuð. Vegtengingar hef ég einnig sett inn en með þeim fæst ný leið í miðbæinn frá suðurbyggðum sem tengist hinni breiðu Suðurgötu í Reykjavík. Til að trufla ekki skipa- og skútuumferð geri ég ráð fyrir göngum undir Skerjafjörð, þannig að flott skal það vera. Með þessum akbrautum þyrftu menn ekki að keyra í gegnum hlaðið hjá Forsetanum sem áfram ætti að geta sinnt sínum störfum án ónæðis. Aðflugsleiðir sýnast mér vera nokkuð hagstæðar þarna því lítið er um byggð allra næst flugvellinum og ekki er lengur flogið yfir miðbæ Reykjavíkur.

Álftanesflugvöllur

Sjálfsagt hefur þessi kostur verið skoðaður í þeim úttektum sem gerðar hafa verið og af einhverjum ástæðum hefur hann ekki átt upp á pallborðið. Kannski hafa Álftnesingar ekki viljað flugvöll þarna en það sveitarfélag er að vísu ekki til lengur. Kannski þykir þetta vera of nálægt forsetanum eða fuglum, en kannski er málið að svæðið er ekki í eigu borgarinnar – ólíkt Hólmsheiðinni, en sá staður held ég að henti betur föngum en flugvélum. Þetta mun þó auðvitað kosta sitt og auðvitað hefur enginn efni á þessu. Það má samt alveg ræða þetta enda held ég að vitlausari hugmyndir varðandi flugvöllinn hafi komið upp.

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

þó svo að flugvöllurinn sé á besta stað sem völ er á nú þegar, þá er þessi hugmynd miklu betri en Hólmsheiðin.

Kristján B Kristinsson (IP-tala skráð) 20.3.2013 kl. 22:16

2 identicon

S-Vestan við gymslusvæðið í Straumsvík er líka frábært land. Fyndið að heyra þau rök gegn því að það sé í átt til Keflavíkur.
Ef við byggjum nýjan flugvöll á byrjum við á einni braut en það gleymist oft.

Guðmundur Bjarnason (IP-tala skráð) 21.3.2013 kl. 08:39

3 Smámynd: Valdimar Samúelsson

Ég legg til að það verði bara byggður nýr flugvöllur yfir þann gamla í vatnsmýrinni en þetta virðist vera meir um að framkvæma einhvað frekar en að það þurfi nýjan flugvöll. Hér er ekkert að við höfum fullt af flugvöllum, spítölum, leikhúsum og óperuhöllum en aldrei er þessi stjórnmála elíta róleg. Það vantar fjárfestingar og fjárfesta helst Soros gamla til að dreifa pening um landið. Sjáið í fréttablaðinu hvað lífeyrissjóðir okkar eru búnir að gera mikið en´ekkert fyrir þá sem eiga sjóðina.  

Valdimar Samúelsson, 21.3.2013 kl. 11:56

4 Smámynd: Hrólfur Þ Hraundal

Ég er sammál þér Emil, að ef það er svo að flug völlurinn þurfi endilega að fara úr Vatnsmýrinni þá er ekki annar staður fyrir hann en þarna á Bessastaðanesinu.  Hef reynt að koma þessu inn í um ræðuna en það hefur ekki virkað.  

Hrólfur Þ Hraundal, 21.3.2013 kl. 21:24

5 Smámynd: Emil Hannes Valgeirsson

Líklegast þykir mér satt að segja að flugvöllurinn verði á sínum stað í Vatnsmýrinni næstu áratugi að minnsta kosti. Einnig er ég líka efins um að ávinningurinn að íbúðabyggð í Vatnsmýri sé eins mikill og sumir vilja meina. En ef það á að færa flugvöllinn þá sýnist mér þetta vera besti kosturinn - sérstaklega ef vegtengingarnar fylgja með.

Emil Hannes Valgeirsson, 21.3.2013 kl. 21:55

6 Smámynd: Ingimar Eydal

Flott hugmynd...nema væntanlega er ódýrara að leggja þennan veg yfir á Bessastaðalandið og byggja þar, þetta eru ekki nema nokkrar mínútur í akstri.  Sparar okkur öllum ca. 16.000.000.000 kr.  Getum þá notað þær í eitthvað gáfulegt!

Ingimar Eydal, 22.3.2013 kl. 10:37

7 identicon

Góð hugmynd og raunhæf. En af hverju er Keflavíkurflugvöllur ekki meira í umræðunni? Það er eflaust lang hagkvæmasti kosturinn. Vegalengdin í bæinn er stutt og verður enn styttri ef innanlandsflugstöð verður sett niður á suð-austur horni vallarins. Þaðan eru bara 47 km í miðbæ Reykjavíkur.

Gardemoen í Noregi þjónar bæði innanlands og utanlandsflugi, hann er 52 km frá miðbæ Oslo.

Arlanda þjónar Svíþjóð á sama hátt 42 km frá Stokhólmi.

Er ekki flottur spítali á vallarsvæðinu í Keflavík? Við getum byggt hann upp í stað þess að byggja rándýrt risa hátæknisjúkrahús í Reykjavík.

Við þurfum við að læra að nýta það sem við höfum.

Sverrir Björnsson (IP-tala skráð) 22.3.2013 kl. 23:44

8 Smámynd: Emil Hannes Valgeirsson

Það er kannski þörf á að ræða alla þessa kosti eitthvað áfram. Kannski í svona 20-30 ár til viðbótar.

Emil Hannes Valgeirsson, 23.3.2013 kl. 11:41

9 identicon

Um að gera að fara með hann við Bessastaði og eyðileggja allt mikla fulgalíf sem þar er!

Ef að það á að færa þennan helvítis flugvöll sem menn eru alltaf að rífast um, þá geta menn bara keyrt til Keflavíkur. það er búið að 2falda nánst alla leiðina og enga stund að skutlast þangað. þar er flugvöllur og það myndi smámunni miðað við það sem það kostar að byggjan annan flugvöll. Eiga íslendingar milljarða til að byggja flugvöll, þegar við getum ekki rekið heilbrigðisþjónustu?? Afsakið orðbragðið, en íslendingar eru snar klikkaðir í fjármálum þegar kemur obinberum framkvæmdum.

albert (IP-tala skráð) 24.3.2013 kl. 12:44

10 Smámynd: Emil Hannes Valgeirsson

Ég tek fram að það er engin "um að gera" boðskapur í þessari ábendingu minni um Bessastaðanes en þessi staðsetning hefur bara ekki verið mikið í umræðunni. Það hafa ýmsir kostir oftar verið nefndir og ræddir fram og aftur samanber Keflavík, Hólmsheiði, Löngusker, núverandi staðsetning í Vatnsmýri og svo er Kapelluhraun er líka stundum nefnt.

Allir staðirnir hafa sína kosti og galla. Bessastaðanes hefur þann kost að hægt er að byggja upp í Vatnsmýri en hafa áfram flugvöll í miðju höfuðborgarsvæðinu og það án þess að fara út í miklar landfyllingar. Þetta er auðvitað dýr lausn og eins og ég nefni höfum við varla efni á þessu en ýmis önnur hagræðing gæti þó komið á móti. Þarna er líka ósnortin náttúra og fuglalíf svo sem sílamáfur, grágæs ofl. og auðvitað mun það raskast.

Líklega er Hólmsheiðin að detta út úr myndinni vegna slæmrar nýtingar og Löngusker eru sennilega einnig óraunhæf. Kapelluhraun er líka kostur en þá er spurning hvort ekki sé eins gott að spara pening og bæta smá akstri við og hafa bara innanlandsflugið í Keflavík. En þá erum við líka farin að tala um flugvallarlausa höfuðborg þar sem tekur álíka mikinn tíma að keyra út á flugvöll og að fljúga þvert yfir landið.

Einu má bæta við sem sjaldan er nefnt. Í næstu umbrotahrinu á Reykjanesskaga sem gæti hafist hvenær sem er, er líklegt að hraun muni flæða yfir Reykjanesbrautina á einhverjum kafla en mesta hættan á því er sennilega við Straumsvík sunnan Hafnarfjarðar. Það myndi klippa af allar flugsamgöngur frá höfuðborgarsvæðinu á meðan á því stæði.

Emil Hannes Valgeirsson, 24.3.2013 kl. 14:39

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband