31.5.2013 | 21:34
Sumarsól í Reykjavík og á Akureyri 1973-2012
Hvernig verður sumarið? Fáum við enn eitt sólarsumarið hér í Reykjavík eða er komið að rigningarsumri? Er kannski komið að Norðlensku gæðasumri eins og þau gerast best - eða ætlar Austurlandið að taka þetta í ár? Ekki veit ég mikið um það, en hitt veit ég að nú hef ég tekið saman sólskinsstundir síðustu 40 sumra hér í Reykjavík og á Akureyri og sett upp í sitthvort súluritið. Miðað er við sumarmánuðina júní-ágúst og eru upplýsingar fengnar af vef Veðurstofunnar. Fyrst kemur hér Reykjavíkursólin en undir myndinni eru bollaleggingar:
Eins og sjá má hafa undanfarin sumur verið aldeilis sólrík hér í Reykjavík. Sólarsumar mætti kannski miða við 600 klst. markið en samkvæmt því hafa þau verið 6 á síðustu 9 árum. Sumarið 2012 gerði það best á tímabilinu og er eini mánuðurinn sem nær 700 klst. línunni. Júní lagði þar mest af mörkum með 320 klst., sem er það næst mesta sem mælst hefur í Reykjavík. Á fyrri árum leið lengra á milli sólarsumra og samkvæmt skilgreiningunni náðust þau með herkjum árin 1974, 1985 og 1991. Svo eru þarna líka hin annáluðu sólarsnauðu rigningarsumur 1983 og 1984, sitt hvoru megin við 300 klst. línuna. Þessi tvö leiðindasumur í röð voru ekki góð auglýsing fyrir sumarveður í Reykjavík en úr því var bætt árið eftir og eiginlega hefur ekki komið almennilegt rigningarsumar í Reykjavík eftir 1984. En þá er það Akureyrarsólin:
Súluritið fyrir sólskinsstundir á Akureyri sýnir heldur meiri stöðugleika en í Reykjavík. Áberandi er þó að þar er sumarið í fyrra einnig á toppnum og það nokkuð afgerandi. Það er enda ekkert lögmál að sólarsumar fyrir sunnan sé ávísun á sólarleysissumar fyrir norðan - og öfugt. Sambandið þarna á milli er nefnilega nokkuð órætt eins og kemur í ljós þegar einstök sumur eru borin saman. Sumrin 1983 og 1984 eru til dæmis ekki í neinum sérflokki á Akureyri hvað sólskin varðar þótt lítið hafi sést til sólar í Reykjavík. Annars hef ég ekki mikið um Akureyrarsól að segja, nema að auk sumarsins 2012 þá kemur sumarið 2000 vel út ásamt sumrinu 2004. Þau sólarnauðustu eru hinsvegar sumrin 1979 og 1993.
Þá er bara að sjá til hvernig sumarið 2013 kemur út. Miðað við veðurspár virðist norður- og austurhluti landsins ætla að taka sólarforystuna til að byrja með, enda suðvestanáttum spáð. Ef sú vindátt verður ríkjandi í sumar þá yrði þetta sumar með öðru sniði en undanfarin ár. En þetta er nú bara rétt byrjunin og veðurfar er illreiknanlegt vikur og mánuði fram í tímann.
Meginflokkur: Vísindi og fræði | Aukaflokkur: Veður | Breytt s.d. kl. 23:54 | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.