Veðureinkunn júlímánaðar fyrir Reykjavík - og Akureyri

Nú er hinn skrautlegi júlímánuður liðinn og ég búinn að reikna út veðureinkunn mánaðarins sem fengin er út úr mínum prívat veðurskráningum. Eins og áður er rétt að taka fram að ég hef haldið úti veðurdagbók frá árinu 1986 og gef hverjum degi veðureinkunn sem byggð er á veðurþáttunum fjórum: sólskini, úrkomu, hita og vindi. Ef allir þættirnir eru jákvæðir fær sá dagur 8 stig en 0 stig ef allir þættirnir eru neikvæðir. Einkunn mánaðarins er síðan meðaleinkunn alla daga mánaðarins. Meðaleinkunn júlímánaða frá upphafi er 4,8 stig. Skráningarnar miðast við veðrið eins og það er yfir daginn í Reykjavík en að þessu sinni prófaði ég einnig að skrá veðrið á Akureyri með sama hætti, en þar varð ég eingöngu að reiða mig á athuganir sem birtast á vef Veðurstofunnar. Ég geri grein fyrir Akureyrareinkunninni í lok pistilsins, en fyrst er það Reykjavík.

Nýliðinn júlímánuður í Reykjavík fékk samkvæmt þessu kerfi einkunnina 4,6 sem telst vera í lakara lagi en þó ekki fjarri meðallagi.
Fyrri hluti mánaðarins var reyndar afleitur eins og frægt er enda var einkunnin ekki nema 3,9 stig fyrstu 15 daga mánaðarins og minnti ástandið á hina verstu rigningarmánuði fyrri aldar auk þess sem hlýindin létu mjög á sér standa. Þetta voru mikil viðbrigði eftir þau góðu sumur sem hafa verið ríkjandi hér síðan 2007 en einnig áminning um að tímar kaldra rigningarsumra hér í bæ þarf alls ekki að vera liðinn.
Seinni hluti mánaðarins gerði mun betur og náði 5,4 stigum í einkunn sem er mjög gott. Sólin lét þá sjá sig og hitinn náði sér vel á strik með hlýrra, Evrópuættuðu lofti (jafnvel konunglegu). Að vísu fengum við aðeins smjörþefinn af hitabylgjunni sem náði sér vel á strik inn til landsins eins og oft vill verða en þó náði hitinn 20,2 stigum þann 27. júlí og sumarið þar með komið í flokk 20 stiga sumra í Reykjavík en þau hafa verið óvenjumörg það sem af er öldinni.

Júlí einkunnir 1986-2013

Samanburður við fyrri ár sést á súluritinu hér að ofan. Þar trónir júlí 2009 hæst með einkunnina 5,8 sem er alveg frábær einkunn sem erfitt verður að toppa í framtíðinni (sérstakur pistill er til um þann mánuð). Júlí 2007 er í öðru sæti með 5,5 en það sumar var það fyrsta í röð góðviðrissumra sem þetta sumar virðist ekki ætla að verða hluti af. Júlí 2013 er þarna með sín 4,6 stig sem er heldur betra en júlí 2006 sem fékk 4,4 stig.
Margir júlímánuðir tímabilsins hafa orðið meðalmennskunni að bráð og eru lítt eftirminnilegir. Júlí 1989 var hinsvegar eftirminnilega slæmur enda sólarlausasti júlí í Reykjavík og kaldur og blautur að auki. Hann fékk einkunnina 3,9 sem er reyndar það sama og fyrri hluti nýliðins júlímánaðar fékk. En það er að vísu ekki keppt í því. Júlí 1991 með einkunnina 5,1 verður lengi í minnum hafður vegna hitabylgjunnar miklu snemma í mánuðinum og endaði meðalhitinn í 13,0 stigum sem þá var nýtt mánaðarmet  í Reykjavík. Í dag deilir mánuðurinn metinu með júlí 2010 sem einnig náði 13,0°C í meðalhita.

Akureyri 4,9
Eins og ég nefndi í upphafi þá gerði ég tilraun með að skrá einnig veðrið á Akureyri þennan mánuð sem var nokkuð lærdómsríkt. Einkunnin sem út úr því kom er 4,9 sem er í góðu meðallagi miðað við Reykjavík en spurning er hvernig samanburðurinn er við fyrri ár á Akureyri - heimamenn hafa kannski einhverja tilfinningu fyrir því. Eins og maður vissi fyrir þá eru meiri hitasveiflur fyrir norðan en hér fyrir sunnan. Kalt var framan af á Akureyri og allmargir dagar sem varla eða alls ekki náðu 10 stigum yfir daginn. Tvo daga skráði ég þar sem hitinn var yfir 20 stigum meira og minna yfir daginn en hlýjast var í sunnanáttinni þann 10. júlí og aftur varð mjög hlýtt þann 21. júlí. Hafgolan á Akureyri virðist vera meira afgerandi en í Reykjavík, bæði hvað varðar vind og hita. Í heildina voru veðurþættirnir fjórir heldur hagstæðari á Akureyri en í Reykjavík þótt ekki hafi munað miklu. Aðrir fylgjast betur með því, en ég læt þetta nægja.

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Emil Hannes Valgeirsson

Sennilega hef ég eitthvað ofmetið sólskinið á Akureyri því í nýju mánaðaryfirliti Veðurstofunnar kemur fram að mjög sólarlítið hafi verið á Akureyri eða aðeins 57 stundum færri en að meðaltali og hafa ekki verið jafnfáar síðan 1998. Þar með gæti einnig veðureinkunnin einnig verið of há fyrir Akureyri. Á Veðurstofuvefnum er reyndar ekki hægt að fylgjast eins vel með sólskini á Akureyri og í Reykjavík og ég virðist hafa dæmt sólskininu í hag fyrir norðan í vafatriðum, enda ekki öðru þorandi.

Annars voru sólarstundir 164 í Reykjavík en 102 á Akureyri.

Meðalhitinn í Reykjavík var 10,9 stig en 11,2 á Akureyri.

Úrkoman 72,2 mm í Reykjavík en 31 mm á Akureyri.

Emil Hannes Valgeirsson, 1.8.2013 kl. 23:12

2 Smámynd: Gunnar Th. Gunnarsson

Merkilega svipað að sjá á súluritinu. Má eiginlega segja að 3 ár skeri sig örlítið úr, ´87 og ´89 fyrir laka einkunn og ´09 fyrir góð.

Gunnar Th. Gunnarsson, 2.8.2013 kl. 11:19

3 Smámynd: Emil Hannes Valgeirsson

Já það má segja að þetta skráningarkerfi skili ekki af sér miklum öfgum enda samsett úr fjórum veðurþáttum sem vilja stundum vega hvern annan upp - allavega hér fyrir sunnan. Öfgarnar eru kannski meiri fyrir norðan og austan þar sem norðanáttin skilar af sér kuldum, sólarleysi og úrkomu á meðan sunnanáttin ber með sér góð hlýindi og sólskin.

Svo er líka misjafnt hvernig góðviðriskaflar hitta á almanaksmánuði en besti 30 daga kaflinn í Rvík varð sumarið 2007 og skiptist á milli seinni hluta júní og fyrri hluta júlí, með einkunn upp á 6,1.

Emil Hannes Valgeirsson, 2.8.2013 kl. 12:32

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband