2.9.2013 | 00:08
Samanburður á sumarveðurgæðum í Reykjavík
Nú eru aðal-sumarmánuðirnir að baki og landsmenn sjálfsagt missáttir við sitt sumarveður eftir því hvar á landinu þeir eru. Sumarið 1986 fór ég að skrá niður veðrið í Reykjavík get því borið saman einstök ár veðurfarslega séð. Þar að auki hef ég komið mér upp sérstöku einkunnakerfi til að meta veðurgæði með því að gefa hverjum degi veðurfarslega einkunn sem byggist á veðurþáttunum fjórum: sólskini, úrkomu, vindi og hita. Hver hinna fjögurra veðurþátta leggja af mörkum 0-2 stig til einkunnar dagsins sem getur verið á bilinu 0-8 stig. Mánaðareinkunn reiknast svo útfrá meðaltali allra daga. Þetta hef ég útskýrt áður.
Með sömu aðferð hef ég reiknað út meðaleinkunn heilu sumranna og borið saman veðurgæðin eins og þau koma út úr mínum skráningum. Niðurstöðuna má sjá á eftirfarandi súluriti þar sem sjá má að sumarveðrið í Reykjavík 2013 fær einkunnina 4,37 sem er aldeilis ekki góð einkunn og sú lakasta síðan 1985. Síðustu sumur hafa verið mun betri. Hæstu einkunn fær sumarið 2009: 5,37 en sumarið 1989 er það lakasta með 4,10 stig. Niðurstöðum má taka með vissum fyrirvara enda miðast einkunnir við mitt skráningarkerfi. Með öðrum aðferðum fást sjálfsagt aðrar niðurstöður varðandi einstök sumur. En hér er myndin:
Hér kemur mjög stuttaraleg lýsing á öllum sumrum frá árinu 1986. Tek fram að aðallega er miðað við mitt heimapláss, Reykjavík, nema annað sé tekið fram:
1986 4,46 Júní var dimmur, kaldur og blautur suðvestanlands en júlí og ágúst öllu betri.
1987 4,73 Sólríkt og þurrt í júní og ágúst, en júlí var sólarlítill og blautur.
1988 4,30 Afar slæmur júnímánuður og einn sá sólarminnsti í Reykjavík. Júlí var ágætur en ágúst ekkert sérstakur. Óvenjumikið þrumuveður suðvestanlands þann 10. júlí.
1989 4,10 Að þessu sinni var það júlí sem brást algerlega og var sá sólarminnsti sem mælst hefur í Reykjavík auk þess að vera kaldur. Júní og ágúst voru einnig frekar svalir er skárri að öðru leyti.
1990 4,50 Lítið eftirminnilegt sumar sem var í slöku meðallagi. Reykjavíkurhitinn júlí var þó sá hæsti í 22 ár.
1991 4,93 Júní var sérstaklega sólríkur og á eftir fylgdi heitasti júlímánuður sem komið hefur í Reykjavík og voru slegin hitamet víða um land. Í mikilli hitabylgju náði hitinn 23,2 stigum í borginni þann 9. júlí en sá mánuður varð hlýjastur allra mánaða í Reykjavík 13,0 gráður.
1992 4,37 Sumarið var ekkert sérstakt og aldrei mjög hlýtt. Eftirminnilegast er kuldakastið um Jónsmessuna í annars mjög köldum júnímánuði, þar snjóaði fyrir norðan og einnig til fjalla sv-lands.
1993 4,70 Ágætt tíðarfar en besta veðrið var í júlí. Þá var mjög bjart og þurrt í Reykjavík en kalt fyrir norðan.
1994 4,80 Sumarið var sæmilegt með köldum júnímánuði en júlí var frekar hlýr.
1995 4,33 Sumarið ekki gott nema hvað júlí var ágætur. Ágúst var mjög þungbúinn.
1996 4,63 Fátt eftirminnilegt þetta sumar. Ágúst var mjög dapur í Reykjavík en góður kafli kom um miðjan júlí.
1997 4,80 Sumarið var þurrt og bjart framan af en júlí og ágúst ollu vonbrigðum SV-lands.
1998 4,93 Sumarið var gott í heildina. Júnímánuður var bjartur og þurr og var ásamt ágúst sá hlýjasti í mörg ár.
1999 4,60 Sumarið var frekar blautt þar til í ágúst, en þá var bjart og hlýtt.
2000 4,77 Ágætt sumar með köflum en mjög sólríkt og þurrt var fyrir norðan og austan.
2001 4,70 Sumarið var ágætt í heildina þó lítið væri um hlýja daga.
2002 4,57 Af sumarmánuðunum var júní að þessu sinni sá hlýjasti, hæst komst þá hitinn í 22 stig sem er hitamet fyrir júní. Sumarið þótti ekkert sérstakt en var nokkuð milt.
2003 4,80 Júní og ágúst urðu hlýrri en nokkru sinni í Reykjavík enda var sumarið það hlýjasta sem mælst hafði í borginni sem og víða um land. Nokkuð rigndi þó með köflum.
2004 5,13 Sumarið var bæði hlýtt og sólríkt. Í ágúst gerði mikla hitabylgju SV-lands þar sem hitinn fór yfir 20 stig í borginni fjóra daga í röð, nýtt hitamet í Reykjavík var þá slegið í Reykjavík 24,8°.
2005 4,73 Sumarið var sæmilegt fyrir utan þungbúinn og svalan kafla í júlí.
2006 4,47 Sumarið var þungbúið og blautt suðvestanlands framan af en rættist heldur úr því er á leið.
2007 5,13 Sumarið var yfirleitt hlýtt og þurrt og mjög gott um mest allt land. Í Reykjavík var júlímánuður sá næst hlýjasti frá upphafi.
2008 4,90 Afar sólríkur og þurr júnímanaður en síðan köflóttara, mjög rigningarsamt í lok ágúst. Aftur var slegið hitamet í Reykjavík í hitabylgju undir lok júlí þegar hitinn komst í 25,7°.
2009 5,37 Mjög gott sumar sunnan og vestanlands, sérstaklega júlímánuður sem var sá þurrasti í Reykjavík síðan 1889 og sjálfsagt einn af bestu veðurmánuðum sem komið hafa í Reykjavík.
2010 5,13 Eitt hlýjasta sumar í Reykjavík. Júní var sá hlýjasti frá upphafi, júlí jafnaði metið frá 1991 og ágúst með þeim hlýjustu. Aldrei var þó um að ræða verulega hitabylgju.
2011 5,03 Sumarið byrjaði heldur kuldalega, sérstaklega norðaustanlands. Annars yfirleitt bjart og þurrt suðvestanlands.
2012 5,33 Mjög gott sumar víðast hvar. Sólríkt, þurrt og hlýtt. Óvenjudjúp sumarlægð kom suður að landi 22. júlí.
2013 4,37 Mikið bakslag í veðurgæðum sunnan- og vestanlands. Ágætis kafli seinni hlutann í júlí bjargaði þó miklu.
- - - -
Útfrá veðrinu í sumar er greinilegt að þau sumarveðurgæði sem verið hafa í Reykjavík undanfarin ár voru ekki alveg komin til að vera enda varla við því að búast. Kannski mun líða langur tími uns við upplifum aðra eins 6-ára syrpu gæðasumra. En hver veit?
Meginflokkur: Vísindi og fræði | Aukaflokkur: Veður | Breytt 4.10.2013 kl. 21:23 | Facebook
Athugasemdir
Takk fyrir þetta. Það liggur nú i augum uppi að ekki var að vænta þess að síðustu ára sumarblíða yrði endalaus þó sumir virðist telja að það sé hið eðlilega ástand og frávik frá því sýni merki um einhverja alheimslega atburði. Og líka var þess að vænta að einvhern tíma kæmi svona sumar fyrir Reykjavík. Þau eiga eftir að verða fleiri. Líka góðviðrissumrin.
Sigurður Þór Guðjónsson, 2.9.2013 kl. 11:53
Svo má bæta við að slæm tíð á einum stað er oft ávísun á góða tíð annarsstaðar og kuldi á einum stað er gjarnan ávísun á hlýindi annarstaðar. Við Reykvíkingar eigum til dæmis sjaldan samleið með Bretum í veðurgæðum og ekki heldur Austfirðingum. Eftir nokkur döpur sumur á Bretlandseyjum fagna þeir nú loksins góðu sumri og einu af þeim hlýjustu frá upphafi mælinga.
The Telegraph: Hot 2013 summer to join all top ten, figures will show.
En kannski er ekki við hæfi að minnast á svona lagað.
Emil Hannes Valgeirsson, 2.9.2013 kl. 12:44
Stórmerkilegt að skoða þetta súlurit og einkunnirnar hjá þér. Þetta er óumdeilanlegt, held ég. Þrátt fyrir það finnst mér í minningunni öll sumu hafa verið góð, jafnvel þau sem skrifast slæm hjá þér.
Samt er það dálítið skrýtið að þegar slæm sumur koma verða þau næstu sífellt betri, alltaf stöðug stígandi á eftir. Stundum eitt eða tvö ár en oftar fleiri. Og toppunum fylgja oftast lægðir. Meðaltalið vísar þó upp á við.
Sigurður Sigurðarson (IP-tala skráð) 2.9.2013 kl. 17:07
Takk fyrir þetta Emil - alltaf fróðlegt að skoða veðurgæðin í gegnum aðferðafræðina þína.
PS. Tek undir hvert og eitt einasta orð í fyrstu athugasemdinni hjá honum Sigurði.
Sveinn Atli Gunnarsson, 2.9.2013 kl. 18:39
Árið 1987 er með ´etta. Hefðir getað sparað þér mælinguna, meðaltalið er 4,73
Gunnar Th. Gunnarsson, 4.9.2013 kl. 12:47
Já Gunnar, 1987 er í meðaltalinu. Mig minnir þó að það sumar hafi þótt nokkuð gott í Reykjavík þegar upp var staðið þrátt fyrir dapran júlímánuð.
Emil Hannes Valgeirsson, 4.9.2013 kl. 16:07
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.