27.11.2013 | 23:59
Hafísinn að koma?
Þessa dagana held ég að sé full ástæða til að fylgjast með hafísnum sem nálgast hefur landið síðustu misserin. Suðvestan- og vestanáttir hafa verið nokkuð tíðar milli Íslands og Grænlands en við þær aðstæður hleðst hafísinn upp út af Vestfjörðum í stað þess að streyma fram hjá landinu suður eftir austurströnd Grænlands eins og venjulega gerist þegar norðaustanáttin er ríkjandi. Í ofanálag sýnist mér talsvert af ís hafa borist út úr Norður-Íshafinu milli Grænlands og Svalbarða og áfram suður eftir með hvössum norðanáttum. Í næstu viku eru svo einhverjar norðanáttir í kortunum á Íslandsmiðum sem einnig hefur sitt að segja. Lægðargangur hefur verið verið mjög norðlægur síðustu vikur enda háþrýstisvæði ríkjandi suður af landinu. Til að snúa þessu við þurfa lægðirnar að ganga sunnar og norðaustan- og austanáttirnar að ná sér betur á strik hér hjá okkur. Ef það gerist ekki í bráð er komin ágætis grundvöllur að hafísvetri - sem getur verið spennandi á sinn hátt.
Ískort frá Norsku Veðurstofunni, gildir 27. nóvember.
Smærra kortið er á vegum Bandaríska sjóhersins. Þar má vísa í hreyfimynd sem sýnir þykkt og færslu hafíssins á gjörvöllum norðurslóðum síðustu 30 daga:
http://www7320.nrlssc.navy.mil/hycomARC/navo/arcticictn_nowcast_anim30d.gif
Athugasemdir
Góðan dag Emil.
Við skulum rétt vona að hafísinn fari ekki að gerast nærgöngull. Hafísárunum um 1970 fylgdi aflabrestur og kal í túnum, og vafalítið hefur hann þannig haft neikvæð áhrif á efnahag landsmanna.
Hafísinn á norðurslóðum er í meira lagi núna miðað við undanfarin ár, og sama gildir um suðurhvelið. Sjá hér.
Ágúst H Bjarnason, 28.11.2013 kl. 05:58
Já það væri illt í efni ef hér verða ný hafísár eins og var um 1970. Það er þó sjálfsagt nokkuð langt í land með það. En ef ísinn gerist nærgöngull gætum við kannski fengið eitthvað sem mætti kalla hafísvetur sem er heldur skárra.
Emil Hannes Valgeirsson, 28.11.2013 kl. 08:47
Það styttist í að þú étir hattinn þinn EHV. :) "Bræðslusumrinu mikla" 2013 lokið á norðurslóðum með yfir 60% aukningu á hafísmagni og núna er sérlegur gestapenni kolefnistrúboðanna á loftslag.is farinn að ýja að möguleikum á hafísvetri á Íslandi! Jafnvel æðstu prestar íslensku kolefniskirkjunnar á Veðurstofunni eru kjaftstopp í kjölfar gjörsamlega misheppnaðrar loftslagsráðstefnu í Póllandi.
Til að krydda hattinn þinn örlítið er rétt að benda þér á nýlega góða grein í Daily Mail Online: "Global warming 'pause' may last for 20 more years and Arctic sea ice has already started to recover" (http://www.dailymail.co.uk/news/article-2485772/Global-warming-pause-20-years-Arctic-sea-ice-started-recover.html)
Hilmar Hafsteinsson (IP-tala skráð) 28.11.2013 kl. 15:28
Engin þörf á hattaáti.
Emil Hannes Valgeirsson, 28.11.2013 kl. 20:04
Það skal kannski tekið fram að hafísinn á Norðurskautinu er sögulega mjög lítill (t.d. er október í ár sá sjötti minnsti í sögulegu samhengi) hér þar sem eftirfarandi kemur fram:
og síðar;
En þeir sem hafa kynnt sér Suðurskautið að hafísmagn þar stjórnast ekki bara af hitastigi (sem er stígandi þar með bráðnun jökla á Suðurskautinu sem fylgifisk) - heldur koma fleiri þættir að því. Hér má t.d. lesa eitthvað um hafísinn á Suðurskautinu, þar sem eftirfarandi kemur m.a. fram:
Hitt er svo annað mál að hafísinn gæti svo sem alveg komið að Íslandsströndum í ár (eða síðar) þrátt fyrir sögulega bráðnun hafíss á undanförnum áratugum - þar koma líka margir þættir til sögu sem hafa áhrif á - það væri kannski ráð að ræða þá þætti nánar eins og Emil kemur inn á í pistlinum:
Sveinn Atli Gunnarsson, 28.11.2013 kl. 22:07
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.