Úrkomumósaík fyrir Reykjavík 1971-2013

Sem framhald af síðustu bloggfærslu verður nú boðið upp á heilmikla grafíska útfærslu á úrkomunni í Reykjavík alla mánuði frá árinu 1971. Myndin er gerð á sama hátt og hitamósaíkin sem birtist hér í síðustu bloggfærslu en þá brá svo við að fram komu pantanir frá lesendum um að ég setti upp sambærilega úrkomumynd, sem ég hef nú gert. Á myndinni fær hver mánuður sinn litatón sem hleypur á 30 millimetra úrkomu eins og litaskalinn ofan við myndina vísar í. Eins og við mátti búast er útkoman dálítið óreiðukennd enda úrkomumagnið ekki alveg háð árstímum. Þurrkamánuðir geta komið um hávetur og svo getur auðvitað rignt duglega á sumrin. Að meðaltali er úrkoma þó nálega helmingi minni fyrri part sumars en að vetrarlagi eins og sést á tölunum neðst.

úrkoma 1971-2013

Hér má velta ýmsu fyrir sér. Þarna sjást til dæmis hinir þurru júnímánuðir áranna 2007-2012 og almennt þurr sumur undanfarið þar til á síðasta ári, 2013. Svo vill reyndar til að samskonar litasamsetning var uppi 10 árum fyrr, sumarið 2003, nema hvað það sumar var talsvert hlýrra - enda hlýjasta árið í Reykjavík. Þarna sést líka rigningasumarið mikla 1984 með stigvaxandi úrkomu fram í ágúst en það sumar kom í framhaldi af vosbúðarsumrinu mikla 1983.

Allur gangur er á því hvernig hitafar og úrkoma fara saman. Þurrkar og kuldar fara þó gjarnan saman að vetrarlagi. Árið 1979 var mjög þurrt frá mars til maí sem fór saman við kuldana miklu það ár. Mörg árin þar í kring voru einnig með þurrara móti. Einhverjir muna kannski eftir óvenjuþurrum vetri 1976-77 eins og sést á gulum lit þrjá mánuði í röð frá desember til febrúar. Afskaplega snjóþungt var fjóra fyrstu mánuðina árið 1989 og ekki bætti úr skák að þá um vorið mældist úrkoman yfir 120 mm bæði í apríl og í maí. Sólin lét síðan eiginlega ekkert sjá sig í júlí þannig að yfir nógu var kvarta árið 1989.

Úrkomumesta árið er 2007, aðallega þó vegna mjög mikilla rigninga síðustu mánuðina. Þurrasta árið var svo árið 2010 en um leið var það mjög hlýtt ár, raunar það næsthlýjasta á tímabilinu og afbragðsgott veðurfarslega séð. Úrkomumesta mánuðinn hef ég merkt inn en það er nóvember 1993 með 260 millimetra úrkomu sem er það mesta sem mælst hefur í borginni í nokkrum mánuði frá upphafi. Minnsta úrkoman er í sólríkum júnímánuði árið 1971 en hann er raunar þurrasti júní í borginni frá upphafi.

Þar hafið þið það. Veðrið er með ýmsu móti og er oftast óvenjulegt á einhvern hátt. Annað væri bara óvenjulegt. Það er tilbreyting að skrifa um úrkomu en ekki hita sem alltaf er sama hitamálið. Það má þó ekki reikna með því að ég taki við fleiri pöntunum í bili. 

- - - -

Myndin er unnin upp úr gögnum Veðurstofunnar


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Sigurður Þór Guðjónsson

Hvað með sólina? Hún hefur verið mikil síðustu ár nema kannski það síðasta. 

Sigurður Þór Guðjónsson, 9.1.2014 kl. 14:38

2 Smámynd: Sveinn Atli Gunnarsson

Takk fyrir Emil - þetta er fróðlegt. Einnig er fróðlegt að sjá að "úrkomuárið" 2013 er í kringum meðaltalið...en það er kannski spurning hvenær úrkoman fellur hvaða áhrif það hefur á minnið.

PS. Sólarmósaík væri náttúrulega fróðleg líka :)

Sveinn Atli Gunnarsson, 9.1.2014 kl. 17:50

3 identicon

Vel að verki staðið EHV - einfalt og áhrifaríkt ;)

Hilmar Hafsteinsson (IP-tala skráð) 9.1.2014 kl. 19:49

4 Smámynd: Emil Hannes Valgeirsson

Ef ég geri sólskinsmynd þá á kemur upp sú spurning hvað á að gera við skammdegismánuði þegar sólin nær ekki að skýna þrátt fyrir léttskýjað veður. Annars má miða við svona almennt að þurrkamánuðir eru gjarnan sólríkir. Sjáum til með sólskinsmynd á næsta ári. En ef ég geri eina slíka, biðja menn þá ekki bara um vindamynd?

Emil Hannes Valgeirsson, 9.1.2014 kl. 20:05

5 Smámynd: Höskuldur Búi Jónsson

Frábært, en geturðu gert þrívíddarmósaík með hlutfallsprósentu ársúrkomu og sólskinshlutfall miðað við skýjahulu í suðri?

Höskuldur Búi Jónsson, 9.1.2014 kl. 22:18

6 Smámynd: Emil Hannes Valgeirsson

Athuga það á þarnæsta ári.

Emil Hannes Valgeirsson, 9.1.2014 kl. 23:16

7 Smámynd: Sigurður Þór Guðjónsson

Það mætti kannski gera myndina með hlutfalli sólskins miðað við ákveðið langtimameðaltal. Eða bara mánuðina mars til september. Eða jafnvel bara maí til ágúst.

Sigurður Þór Guðjónsson, 9.1.2014 kl. 23:56

8 Smámynd: Sveinn Atli Gunnarsson

Varðandi sólarmósaík (ef slíkt yrði upp á teningunum) - væri þá hægt að nota frávik frá meðaltali - er það hugmynd? T.d. x margra +/- klst. frávik frá meðaltalinu fengi ákveðin lit?

Sveinn Atli Gunnarsson, 10.1.2014 kl. 07:44

9 Smámynd: Höskuldur Búi Jónsson

Nóg að gera hjá Emil næstu ár...

Höskuldur Búi Jónsson, 10.1.2014 kl. 08:40

10 Smámynd: Sveinn Atli Gunnarsson

Já Höskuldur, við veðurnörðarnir höldum Emil við efnið...við heimtum meira í þessum dúr ;)

Sveinn Atli Gunnarsson, 10.1.2014 kl. 11:17

11 Smámynd: Emil Hannes Valgeirsson

Við önsumusumusumekki!

Emil Hannes Valgeirsson, 10.1.2014 kl. 12:30

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband