25.1.2014 | 18:32
Reykjavíkurhiti og heimshiti
Það getur verið forvitnilegt að bera saman hitaþróun á einstökum stað eins og Reykjavík við hitaþróun jarðarinnar í heild. Slíkan samanburð setti ég upp á línuriti á sínum tíma en hér birtist ný útgáfa með splunkunýjustu tölum. Til að fá réttan samanburð er hitaskalinn samræmdur og ferlarnir því í réttum hlutföllum gagnvart hvor öðrum en taka má fram að Reykjavíkurhitinn er teiknaður út frá árshita á meðan heimshitinn er samkvæmt venju sýndur sem frávik frá meðaltali. Sjálfur hef ég stillt ferlana þannig af að núllið í heimshitanum er við 4,5 stig í Reykjavíkurhita. Það byggir reyndar ekki á neinum útreikningum en virðist þó vera nokkuð sanngjarnt, plús það að viðmiðunarlínurnar samnýtast. Út úr þessu kemur alveg fyrirtaks samanburðarmynd, svo ég segi sjálfur frá. Bollaleggingar eru fyrir neðan mynd.
Bollaleggingar:
Fyrir það fyrsta þá sést vel á þessari mynd hversu miklu meiri sveiflur eru í árshita milli ára í Reykjavík en á jörðinni í heild. Það er eðlilegt því Reykjavík er auðvitað bara einn staður á jörðinni og ræðst árshitinn því að verulegu leyti af tíðarfari hvers árs, t.d. því hvort kaldar eða hlýjar vindáttir hafa haft yfirhöndina á viðkomandi ári. Allt slíkt jafnast að mestu út þegar jörðin í heild á í hlut.
Talsverðar áratugasveiflur eru líka áberandi hér hjá okkur. Hlýja tímabilið á síðustu öld einkennist af mörgum mjög hlýjum árum sem eru langt fyrir ofan heimsmeðaltal þess tíma. Hitinn hér var þó mjög óstöðugur á þessu hlýja tímabili og á kaldari árunum sem komu inn á milli féll hitinn niður í það að vera nálægt heimsmeðaltalinu sem nær ákveðnum toppi árið 1944. Heimshitinn stendur síðan í stað eða lækkar ef eitthvað er þar til á seinni hluta 8. áratugarins á sama tíma og Reykjavíkurhitinn tekur dýfu niður á við og vel undir hækkandi heimshitann. Það er svo um aldamótin 2000 sem Reykjavíkurhitinn æðir upp fyrir heimshitann á ný og helst vel þar fyrir ofan þar til á síðasta ári, 2013, þegar ferlarnir krossast aftur. Ekki munar þó miklu þarna í lokin og má því segja að hitinn í Reykjavík á síðasta ári hafi verið nálægt því sem búast má við með hliðsjón af hlýnun jarðar, eins og þessu er stillt upp hér.
Í heildina hafa báðir ferlarnir legið upp á við. Reykjavíkurhitinn sveiflast mjög í kringum heimsmeðaltalið en í heildina virðist hitinn hér vera mjög nálægt hlýnun jarðar og tímabilið eftir 2000 er það hlýjasta bæði hér og á jörðinni í heild. Hitinn getur þó greinilega sveiflast mjög staðbundið hér hjá okkur án þess að það hafi teljandi áhrif á heimshitann. Hlýju tímabilin hér eru líka staðbundin hlýindi að mestu og má líta á þau sem tímabundin yfirskot að sama skapi og líta má á köldu sem undirskot miðað við heimshitann.
Hvað tekur við nákvæmlega er lítið hægt að segja um. Þróun hitafars jarðar næstu áratugi er þekkt hitamál og best að segja sem minnst. Eitt er þó víst að hitasveiflur jarðar verða ekki eins afgerandi og hér í Reykjavíkinni.
- - - - - -
Smáa letrið. Sú nýbreytni hefur verið tekin upp í tilraunaskini að birta athugasemdir eftir að þær hafa verið samþykktar af síðuhöfundi og því má búast við að ósæmilegar og óviðeigandi athugasemdir birtist alls ekki. Hvað er ósæmilegt og óviðeigandi er þó ekki alltaf auðvelt að meta og geta geðþóttaákvarðanir síðuhöfundar allt eins ráðið úrslitum. Væntanlega er þó ekki mikil þörf á athugasemdum við þessa bloggfærslu.
Meginflokkur: Vísindi og fræði | Aukaflokkur: Veður | Breytt 2.2.2014 kl. 20:46 | Facebook
Athugasemdir
Kærar þakkir fyrir þessa merku umfjöllun EHV. Línuritið sýnir glögglega að fyrra hlýskeiðið (1930 - 1960) stendur síst yfirstandandi hlýskeiði að baki í höfuðborg Íslendinga.
Sú staðreynd gefur tilefni til að setja eins og eitt ? við GISTEMP-ferilinn sem á að sýna þróun meðalhita á jörðinni 1901 - 2013.
Skyldi það nú vera að það sé hægt að fikta í frumgögnum?
Hilmar Hafsteinsson (IP-tala skráð) 26.1.2014 kl. 11:54
Aths I:
Það getur valdið ranghugmyndum - að birta svona myndir - nema meðalhiti sé líka sýndur a.m.k. 10 þúsund ár aftur í tímann.
Aths II
Það þarf að nota frekar mælirinn í Stykkishólmi (Páll Bergþórsson notar hann) því bæði er búið að færa mælirinn í Reykjavík til - svo eru miklar byggingar, malbik, tré og útgeislun frá húsum og bílum í öllum borgum - búið að rugla hitamælum í borgum þannig að borgarhitamælar eru ekki martækir.
Alþjóðlega verður að gera þær körfur - að allir hitamælar í "Global hitamælingum" séu hitamælar þar sem vottað er að umhverfisáhrif vegna bygginga, skóga stækkunar borga o.s. frv. - að slíkir hitamælar séu teknir út úr þeim gagnagrunni sem notaður hefur verið. Að er ekkert trúverðugt til sem heitir "leiðrétting á borgarhitamælum". Það verður að taka þessa hitamæla út úr gagnagrunninum og viðurkennd vottun verður að koma til með gæði þeirra hitamæla sem notaðir eru í svona gagnagrunn.
Ég á bara við það - að eyða tortryggni þannig að við getum treyst þeim gögnum sem við erum að byggja skoðanskipti okkar á. Það er óþægilegt að hafa borgarhitamæla inn í þessu gagnagrunni því það er mjög ófaglegt - og hefur engan tilgang nema efna til deilna um áreiðanleika gagnagrunnsins.
Takk fyrir allan fróðleik. KP
Kristinn Pétursson, 26.1.2014 kl. 12:17
Engar athugasemdir! Áhrifaríkt smáletur! En takk fyrir þetta!
Sigurður Þór Guðjónsson, 26.1.2014 kl. 18:12
Reyndar voru þarna komnar tvær athugasemdir sem ég var heldur seinni að samþykkja en ástæða er til. Hér eru nokkur svör:
Hlýskeiðið á Íslandi á síðustu öld var mjög merkilegt út af fyrir sig en það var þó ekki eins hlýtt að meðaltali og árin eftir 2000. Þetta gildir ekki bara um Reykjavík heldur víðast hvar um landið. Það sem dró niður meðalhitann á fyrra hlýskeiðinu voru verulega kaldari ár sem komu inn á milli.
Reykjavíkurgagnaröðin er ekki fullkomin en hún hefur þó verið leiðrétt að hluta vegna flakks stöðvarinnar og er nú í raun mjög svipuð Stykkishólmsmeðaltalinu.
GISTEMP ferillinn er fenginn með allskonar samræmingum á gögnum enda ekki einfalt mál að reikna út meðalhita jarðar svo vit sé í. Sumt að því er áreiðanlega mjög vel gert og annað ekki. Þetta er þó mjög svipuð niðurstaða og aðrir aðilar hafa fengið út með öðrum aðferðum.
Ég get lítið gert í því þótt birting línurita valdi ranghugmyndum, það verður bara hver og einn að eiga það við sig. 10 þúsund ára línurit segði allt aðra sögu en ég er að segja hér. Vegna samþjöppunar í 10 þúsund ára kvarða væri til dæmis útilokað að bera saman hitann um miðja 20. öld, við hita síðustu ára.
Emil Hannes Valgeirsson, 27.1.2014 kl. 10:13
Hilmar: Er ekki óþarfi að búa til samsæriskenningar um að verið sé að "fikta" í grunngögnum eða getur ekki verið að síðasta ár hafi bara einfaldlega verið heitara en árið 2012?
Höskuldur Búi Jónsson, 27.1.2014 kl. 12:53
Reykjavík er engin New York. Hitferillinn fyrir Reykjavík er ekkert afbrigðilegri en hitaraðir fyrir aðra elstu mælistaði á landinu sem rekja mætti til þéttbýlismyndinar eins og í stórborgum. Á flfestum stöðum þar sem lengt hefur veri mælt, þ.á.m. Stykkishólmi hefur athugunarstaðurinn verið færður til og oftar en einu sinni ig oftar en tvisvar. Ýmsir aðrir óvissuþættir geta ekkert síður haft áhrifa á hnik í mæliröðum en færsla áhalda, svo sem breytt mæliskýli, hvað athuganirnar eru vandaðar eða óvandaðar, og ekki síst breyttir athugunartímar þegar meðalhiti er reiknaður. Þetta gildir um allar veðurstöðvar. Menn eru meðvitaðir um þetta allt saman og reyna að sjá við því. Mæliröðin fyrir Reykjavík, þar sem veðurathugnair hafa verið einna nákvæmstar og samfelldastar yfir sólarhringinn, eru síst ótrúverðugri en aðrar langtima mæliraðir. Öllum ber þeim reyndar mjög vel saman. Eigi að síður hefði kannski verið heppilegra að hafa Stykkishólm, ekki síst vegna þess að árshiti þar er býsna líkur árshita yfir allt landið i beinum tölum talað. Hann er mjög góður mælir fyrir landið. Hvað stórborgir varðar þá er fyrir löngu búið að hreinsa út því um líkt í alþjóðaútreikningum. Menn eru ekki aular.
Sigurður Þór Guðjónsson, 27.1.2014 kl. 15:23
Þess má geta kæru bræður í andanum, að hitameðaltal landsins síðustu 30 ár, 1984-2013, hefur nú jafnað meðaltalið á hitaárunum 1931-1960 og þetta ár má verða ansi kalt ef árin 1985-2014 verða ekki komin upp fyrir 1931-1960.
Sigurður Þór Guðjónsson, 27.1.2014 kl. 15:31
Það eru mikil tímamót ef við erum að fara upp fyrir gamla 30 ára meðaltalið, sennilega fyrir fullt og allt. Við lifum á athyglisverðum tímum.
Emil Hannes Valgeirsson, 27.1.2014 kl. 18:18
Alltaf fróðlegt að skoða svona samanburðarmyndir Emil - takk fyrir.
Sést vel að hitastigið þróast með öðrum hætti "lókal" en "glóbal".
Sveinn Atli Gunnarsson, 27.1.2014 kl. 18:26
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.