2.2.2014 | 01:06
Fyrstu kafbátaferðirnar á Norðurpólinn
Einn liður í vopnakapphlaupi stórveldanna í kalda stríðinu var þróun kjarnorkuknúinna kafbáta sem gátu siglt mánuðum saman um heimsins höf án þess að koma upp að yfirborði. Með þessu opnuðust ýmsir möguleikar á hernaðarsviðinu, ekki síst á hinu svellkalda Norður-Íshafi því með því að leynast undir ísnum gátu kafbátar hlaðnir árásareldflaugum komist óséðir nær óvininum en áður. Siglingar kjarnorkuknúinna kafbáta á norðurslóðum sem hófust árið 1958 skiptu þó ekki síður máli í sambandi við þekkingu á heimskautaísnum. Ýmsar upplýsingar og myndir má finna um þessar fyrstu kafbátasiglingar á netinu. Þær upplýsingar geta þó verið villandi ekki síst þegar metingur um ástand hafíssins fyrr og nú kemur við sögu. Þar má t.d. nefna grein á vefnum Watts Up With That: Ice at the North Pole in 1958 and 1959 - not so thick og önnur á The Naval Hystory Blog. Hér á eftir er ætlunin að gera dálitla grein fyrir þessum fyrstu ferðum.
Fyrsta sögulega ferð kjarnorkukafbáts á Norðurslóðum var þegar USS Nautilius, fyrsti kjarnorkukafbáturinn sem smíðaður var, sigldi þvert yfir Norður-Íshafið undir ísinn, inn af hinu grunna og varasama Beringssundi og áfram til Atlantshafsins í águst 1958. Þetta var ekki bara fyrsta sigling yfirleitt yfir eða undir Norður-Íshafið heldur var þetta líka fyrsta sigling sem nokkurn tíma var farin að sjálfum Norðurpólnum á 90° norður. USS Nautilius hélt sig undir heimskautaísnum allan tímann en kom úr kafi norðaustur af Grænlandi eftir 2.940 kílómetra og 4 daga siglingu undir ísnum. Á heimleið var sigld að Íslandi og flaug skipstjórinn héðan til Bandaríkjanna (væntanlega frá herstöðinni í Keflavík). Meðfylgjandi er staðsetningarnóta USS Nautilius frá 3. ágúst 1958 þegar sjálfum Norðurpólnum var náð. Við heimkomuna til New York var skipverjum vel fagnað og heilmikið gert úr þessu ævintýri sem jók sjálfstraust Bandaríkjamanna í áróðursstríðinu við Rússa sem árið áður höfðu sent Sputnik 1. á braut um jörðu.
Strax á eftir USS Nautilius í sama mánuði árið 1958 fór annar Bandarískur kjarnorkukafbátur USS Skate sögulega ferð undir heimskautaísinn. Hann sigldi þó ekki þvert yfir Norður-Íshafið en fór þess í stað frá Atlantshafinu að Norðurpólnum fram og til baka um sundið milli Svalbarða og Grænlands. USS Skate sigldi undir norðurpólinn þann 11. ágúst 1958, eða aðeins viku eftir að USS Nautilius var þar á ferð. Alls kom USS Skate 9 sinnum upp að yfirborði Íshafsins í gegnum vakir sem opnast höfðu hér og þar á ísnum. Slíkar vakir má víða finna að sumarlagi á bráðnandi ísbreiðunni þegar hitastigið er ofan frostmarks og ísinn brotnar upp. Opnar vakir geta reyndar einnig myndast að vetrarlagi vegna hreyfinga íssins en sökum kulda frjósa þær mjög fljótlega saman aftur. Enga vök var þó að finna á sjálfum Norðurpólnum þegar Skate kom þar að og því varð ekki úr að hann kæmi upp á á yfirborði á sjálfum Norðurpólnum sumarið 1958.
Ýmsar myndir eru til af þessum leiðangri sem sýna kafbátinn ofansjávar á milli ísfláka, engin þeirra er þó frá sjálfum Norðurpólnum enda kom hann ekki upp þar. Meðfylgjandi mynd úr þessari ferð birtist í National Geography og var hún tekin þegar USS Skate kom upp að yfirborði á íslausri vök hjá rannsóknarstöðinni Alfa um 300 kílómetra frá pólnum.
Önnur ferð USS Skate undir heimskautaísinn var einnig söguleg því hún var farin um hávetur í mars árið 1959 þegar Norður-Íshafið er nánast ein samfelld íshella. Búið var að styrkja kafbátinn töluvert svo hann gæti brotist upp í gegnum allt að þriggja feta þykkan ís. Þann 17. mars 1959 var Norðurpólnum náð og þá vildi svo vel til að sprunga hafði myndast þar skömmu áður þannig að einungis tiltölulega þunnur nýfrosinn ís var á staðnum þrátt fyrir mikið frost. Með því að brjóta sér leið gegnum ísinn tókst USS Skate þarna fyrstum kafbáta að komast upp að yfirborði norðurpólsins og það um hávetur, sem er mikilvægt atriði því þar með var ljóst að hægt væri að beita kafbátum til árása frá Norður-Íshafinu á hvaða árstíma sem er.
Til eru ljósmyndir af þessum atburði sem sýna meðal annars áhöfn kafbátsins dreifa ösku heimkautafarans Sir George Wilkins sem lést haustið áður en árið 1931 hafði hann gert misheppnaða tilraun til að komast á Norðurpólinn með öllu frumstæðari kafbát sem nefndist Nautilius eins og fyrsti kjarnorkukafbáturinn enda vinsælt kafbátanafn og vísar í fræga sögu Jules Verne.
Rússar létu að sjálfsögðu ekki sitt eftir liggja og þróuðu einnig sína kjarnorkukafbáta og var sá fyrsti þeirra sjósettur árið 1958. Fjórum árum síðar, á þjóðhátíðardegi Íslendinga þann 17. júní 1962, náði hann að sigla undir ísinn að Norðurpólnum og koma þar upp að yfirborði. Eftir þá frægðarför var áhöfnin að sjálfsögðu heiðruð í bak og fyrir og báturinn skýrður Leninsky Komsomol.
Fjölmargar ferðir kafbáta hafa verið farnar að Norður-Íshafinu og Norðurpólnum síðan þessar fyrstu ferðir voru farnar en sem betur fer hefur enn ekki komið til eldflaugaáraása milli stórveldanna. Áhugi manna á Norðurslóðum snýst nú að verulegu leyti um bráðnun íssins og möguleika til sjóflutninga. Allur gangur er þó á því hvernig ástand íssins á Norðurpólnum er hverju sinni. Vakir geta myndast hér og þar óháð ástandi ísbreiðunnar í heild sinni. Þessi loftmynd hér að neðan hefur oft birst í netheimum og eins og skýrt kemur fram er hún tekin á Norðurpólnum 18. maí 1987 þegar einn Breskur og tveir Bandarískir kafbátar áttu þar stefnumót. Greinilega er ísinn nokkuð gisinn þarna og virðist einn báturinn fljóta á opinni vök eða allavega mjög þunnum ís - og sumarið rétt að byrja. Þetta er þó ekki það sem kalla mætti íslaus Norðurpóll enda er ísinn umlykjandi þarna allt um kring. Ómögulegt er að segja hvenær hægt verður að birta loftmynd af sjálfum Norðurpólnum að sumarlagi þar sem ekkert sést nema opið haf. Kannski verður það á næstunni og kannski ekki.
- - - -
Nokkrar heimildir og ítarefni:
http://en.wikipedia.org/wiki/USS_Nautilus_(SSN-571)
http://en.wikipedia.org/wiki/USS_Skate_(SSN-578)
http://en.wikipedia.org/wiki/Soviet_submarine_K-3_Leninsky_Komsomol
http://www.john-daly.com/polar/arctic.htm
Submarine Trough the North Pole. Tímaritið NATIONAL GEOGRAPHY. Janúar 1959.
Efsta myndin í pistlinum er af USS Skate í vetrarferðinni árið 1959. Hún er sennilega þó ekki tekin á Norðurpólnum enda bendir birtan ekki til þess.
Flokkur: Vísindi og fræði | Breytt s.d. kl. 20:42 | Facebook
Athugasemdir
Þegar ég les þessa bloggfærslu langar mig að skoða aftur bókina
"Nautilus á norðurpól" sem ég las fyrir mörgum árum.
Hörður Halldórsson, 2.2.2014 kl. 20:13
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.