Pollapönk og svikið kosningaloforð í Söngvakeppninni.

Það virðist fáu vera að treysta í þessum heimi og allra síst kosningaloforðum. Nú hefur verið ákveðið að Eurovisonframlag Íslendinga í ár verður flutt á ensku eins og svo oft áður. Þetta er dálítið sérstakt því þegar kosið var á milli þeirra tveggja laga sem náðu lengst í keppninni, var skýrt og greinilega tekið fram að þau yrðu þá sungin á því tungumáli sem þau yrðu flutt á í sjálfri keppninni í Danmörku. Þessi nýbreytni var gerð með það í huga að kjósendur gætu valið á milli tveggja síðustu lagana í sem endanlegustu mynd og þá alveg sérstaklega hvað varðar tungumálið.

PollapönkPollapönkslagið, Enga fordóma, var flutt á íslensku þarna fyrir lokakosninguna, nema lokahluti lagsins sem var sunginn á ensku. Þetta fannst mér ágætt fyrirkomulag og ég kaus lagið í þeirri góðri trú að Evrópubúar fengju nú að heyra framlag okkar sungið á hinu ylhýra forna tungumáli en enskan tekin í lokin svo allir skilji innihaldið. Einnig fannst mér íslenski textinn fara laginu afskaplega vel, burt séð frá innihaldinu. Burtu með fordóma og annan eins ósóma, verum öll samtaka þið verðið að meðtaka o.s.frv. Þetta smellpassaði við taktinn í laginu en þegar kom að enska hlutanum flattist lagið út og varð venjulegra. Predjudice yfirtók fordóma. Það var Bandaríski söngvarinn og Íslandsvinurinn mikli John Grant sem mun hafa snarað textann yfir á ensku. Sennilega telst það gott til afspurnar enda er John Grant fínn tónlistarmaður og heimsfrægur á Íslandi.

En nú hefur sem sagt verið ákveðið að lagið skuli aldeilis ekki neitt flutt á íslensku heldur bara á ensku og það er Sjónvarpið sem ræður því. Þetta verður því ekki eins lofað var fyrir kosningar. Svikið kosningaloforð - ekkert flóknara en það. Í Fréttablaðinu var fjallað um þetta á dögunum og vitnað í Heru Ólafsdóttur framkvæmdastjóra keppninnar og sé rétt haft eftir segir hún: „Það er auðvitað almenningur sem kýs lagið en við höfum alltaf vald til að breyta“. Þessi orð eru afskaplega áhugaverð og lýsa í raun hvernig lýðræðið virkar. þ.e.: Þið kjósið útfrá því sem við lofum en við ákveðum svo hvernig hlutirnir verða. Þessi ágæta kona gæti kannski gert það gott í Framsóknarflokknum.

Ég er þó áfram mjög sáttur við framlag okkar að þessu sinni jafnvel þó það sé eingöngu flutt á ensku. Kannski bara eitt það allra besta. Er þó bara dálítið spældur og hissa á svona hringlandahætti og að ekki skuli staðið við það sem sagt er. Lagið er þó áfram skemmtilegt, gott bít og stuð á sviðinu. Fyrstu viðbrögð útlendinga við laginu á You-Tube voru frekar neikvæð. Fáir skildu hvað við vorum að pæla með svona vitleysu. Eða eins og einn segir: „I just can't believe that you think that this is gonna do great on Eurovision! First time Im dissapointed of icelandics...“  Þetta virðist þó hafa breyst nokkuð hjá álitsgjöfum eftir því sem þeir heyra lagið oftar nema að enska útgáfan geri gæfumuninn þrátt fyrir allt - eða eins og einn segir: „Im actually starting to like this.... what is wrong with me?“

Hér er vídeóið af laginu sem gert var fyrir keppnina. Miklir leikrænir tilburðir eru þarna á ferð sem eiga að undirstrika boðskap lagsins. Það vekur athygli mína hér að hvergi er söngvarinn sýndur syngja, sem endurspeglar væntanlega hringlandann með tungumálið. Meira er hinsvegar af nærmyndum af hljóðfæraleikurum og öðrum leikaraskap og veikir það áhrifamátt tónlistarinnar sjálfrar og gerir boðskapinn að aðalatriðinu í staðinn. Sem er ekki slæmt í sjálfu sér.


Ein pæling áður en ég hætti og á kannski við ef okkur mun ganga afleitlega. Persónulegar vinsældir og óvinsældir flytjenda skipta gjarnan máli við val okkar á keppendum í Eurovision. Símakosning ræður mestu um hverja við sendum og má gera ráð fyrir að krakkar og aðrir pollar séu duglegir við að hringja, jafnvel hvað eftir annað á meðan eldri og heldri borgarar láta sér nægja kannski eitt símtal úr gamla heimilissímanum, ef þeir þá kjósa á annað borð. Væri kannski sniðugt að virkja nýbúa þessa lands frá Evrópu sem mikið úrval er af hér á landi? Fólk sem þekkir ekki muninn á Bubba og Bjögga er líklegra til að velja fyrst og fremst lag en ekki flytjendur og það alveg án nokkurra fordóma.

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Ásthildur Cesil Þórðardóttir

Góður pistill, en ég er ekki sammála þér með lagið, mér finnst það hraðsoðið moð, textin er samt góður ... a íslensku. Myndbandið bætir svo ekki úr skák. En ég er ánægð með að blessuð börnin fengu að senda lagið sitt út, þó ég sé nokkuð viss um að við munum ekkikomst upp úr undankeppninni, þá er það bara allt lagi, um að gera að hafa gaman af þessu öllu.

Ásthildur Cesil Þórðardóttir, 22.3.2014 kl. 19:12

2 identicon

Góð pæling.

Er nefnilega líka svolítið hugsi með þessa skýru reglu um endanlegt tungumál á úrslitakvöldi keppninnar.

Þessir strákar eru greinilega í einverjum vildarklúbb sem sér reglur og loforð með öðrum augum en hugsandi fólk.

Eigandi nokkur barnabörn sem sungu "Ég á líf" af hjartans lyst í fyrravor en eru frekar óspennt yfir þessu markaðssetta lagi Pollapönkara þá getur maður ekki annað en efast....

Sigrún Guðmundsdóttir (IP-tala skráð) 22.3.2014 kl. 20:31

3 identicon

Þegar hörðu íslensku samhljóðarnir hurfu þá hvarf takturinn

enska með íslenskum hreim er í besta falli lyftutónlist

Grímur (IP-tala skráð) 23.3.2014 kl. 08:57

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband