1.5.2014 | 20:49
Stóra snjódagamyndin, 1986-2014
Vorið er komið, grundirnar gróa og enn einn veturinn horfinn á spjöld sögunnar. Þar með er líka komið að einu af vorverkunum hér á þessari síðu sem er að birta uppfærslu á stóru snjódagamyndinni sem er unnin upp úr mínum eigin prívatskráningum sem ná aftur til ársins 1986. Myndin sýnir sem fyrr hvenær snjór hefur verið á jörðu í Reykjavík á miðnætti. Hver lárétt lína stendur fyrir einn vetur samkvæmt ártölum vinstra megin en tölurnar hægra megin sýna fjölda hvítra- eða hvítflekkóttra daga. Matsatriði getur verið hvort jörð sé hvít eða ekki, enda stundum aðeins um að ræða lítilsháttar nýfallna snjóföl, klakabunka eða flekkótta snjóhulu í afturför. Síðasti vetur var reyndar nokkuð erfiður að þessu leyti.
Miðað við þessar athuganir mínar voru snjódagar liðins vetrar 59 talsins sem er nálægt meðaltali síðustu 10 ára en nokkuð undir meðaltali alls tímabilsins frá 1986. Síðasti 100 daga snjóaveturinn var veturinn 1999-2000 en flestir hvítir dagar voru veturinn 1994-1995. Veturinn í fyrra var hinsvegar sá snjóléttasti með aðeins 24 daga samkvæmt þessum skráningum mínum.
Annars var þetta nokkuð sérstakur vetur. Desember var kaldasti mánuðurinn og fyrir utan fyrsta daginn er mánuðurinn hvítur. Þó ekki alhvítur. Svokallaðan spilliblota gerði fyrir jól og eftir sat þrálátur klakinn sem smám saman lét undan síga fram eftir vetri. Það var talsvert matsatriði í klakatíðinni hversu lengi ég átti að skrá jörð sem hvíta. En ég hef mín ráð og miða við að helmingurinn af garðblettinum hér heima í Vesturbænum sé hulinn snjó eða klaka. Klakinn gæti þó hafa verið öllu þrálátari í efri byggðum en það er önnur saga sem veðurdagbókin þekkir ekki. Apríl var ekki alveg laus við hvíta litinn því að kringum páskana var þrálátur útsynningur með éljagangi og náði þá að hvítna lítillega að kvöld- og næturlagi. Það er svo sem ekkert óvenjulegt í apríl eins og sést og ef vel er gáð hefur það þrisvar gerst að hvítt hefur verið á miðnætti síðasta daginn í apríl. Síðast gerðist það vorið 2011.
Svo er bara að vona að vorið verði snjólétt það sem eftir er. Það eru dæmi um hvíta jörð í maí, samanber myndina sem hér fylgir frá 1. maí 2011. Vorverkin munu halda áfram hér og verður næst fjallað um Eurovision.
Meginflokkur: Vísindi og fræði | Aukaflokkur: Veður | Breytt 2.5.2014 kl. 09:19 | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.