Allir í pollagallana

Ég endaði síðustu bloggfærslu á því að auglýsa að næsta færsla skyldi fjalla um Eurovision og skal nú staðið við það með ánægju. Og hvað skal segja? Auðvitað var virkilega flott að strákarnir okkar - eða pollarnir okkar - skulu hafa náð í gegn og það áttu þeir líka skilið. Ég er á því að þetta sé eitt það besta sem við höfum sent í þessa keppni frá upphafi, allavega það skemmtilegasta. Spilagleðina vantar ekki, þetta er gleðirokk, litríkt og já, með boðskap, sem mér finnst nú reyndar vera aukaatriði í þessu öllu saman. Hver er ekki sammála því að allir skuli vera góðir við alla?

Úrslit í þessum fyrri undanúrslitunum voru flest eftir bókinni en það voru eiginlega smáríkin tvö Ísland og San Marínó sem komu á óvart. Sjálfur get ég sagt að ég hafði 9 af löndum 10 rétt í stöðumati áður en úrslitin voru tilkynnt. Átti reyndar von á að Portúgal kæmist loksins áfram og færi inn í stað San Marínó. En Portúgal á fáa nágranna og það eru fáir sem dansa í takt við þá. En nú er bara að drífa sig í pollagallana og fylgjast með sigurgöngu okkar manna. Sú leið verður grýtt áfram. Í aðalkeppninni á laugardagskvöld munum við keppa við stórar örlagaballöður með tilkomumiklum háum-C-um. Þar fara Svíar fremstir í flokki og eru ávallt sigurstranglegir enda gera Svíar alltaf allt rétt allstaðar. Við höfum hinsvegar leikgleðina að vopni í atriði sem er óformúlulegt, vitlaust og barnalegt en umfram allt í góðum fílingi.

Jæja, mér dettur svo sem ekkert meira í hug en til heiðurs Portúgölum kemur hér atriði þeirra tekið upp á heimavelli sem virðist vera sjónvarpssalur Portúgalska ríkissjónvarpsins. Greinilega eru ekki allir búnir að dressa sig upp, mannskapurinn að mestu ómálaður og ýmsir bara ennþá á hlýrabolunum. Allir gera þó sitt besta og takturinn er á sínum stað - ekki síst hjá táknmálstúlkinum.

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband