17.5.2014 | 00:03
Hafístíðindi af Suðurhveli
Staða hafísmála umhverfis Suðurskautslandið hefur ekki verið mikið í sviðsljósinu miðað það sem gerist hér á Norðurhveli. Suðurskautslandið er afskekkt og hafísþróun þar skiptir litlu máli fyrir lífsafkomu fólks og hefur ekki áhrif á siglingaleiðir. Það sem er þó merkilegt þarna suðurfrá er að hafísinn þar hefur heldur verið verið að aukast frekar en hitt. Það hefur þó ekki verið nein dramatísk aukning, allavega ekki miðað við þá rýrnun sem orðið hefur á ísnum á Norðurhjara.
En kannski má fara að veita þessu meiri athygli því undanfarin 1-2 ár hefur ísinn við Suðurskautið verið með allra mesta móti og stundum meiri en hann hefur áður verið á sama árstíma frá upphafi gervihnattamælinga 1979. Hafísútbreiðsluna má sjá á kortinu hér að ofan sem ættað er frá frá Bandarísku ís- og snjómiðstöðinni, NSIDC. Rauða línan táknar meðalútbreiðsluna og sést þar vel hvar aukningin er mest á hafssvæði er nefnist Weddelhaf ofarlega á kortinu.
En svo er hér einnig línurit þar sem sjá má þróun hafíssins umhverfis Suðurskautslandið allt frá árinu 1979 en þar má líka sjá hve mikill munur er á útbreiðslunni milli árstíða. Hafísinn náði sínu árlega sumarlágmarki seint í febrúar að venju og var þá ísinn með mesta móti miðað við lágmörk fyrri ára. Aukningin sem fylgir suðlægu vetrarkomunni hefur síðan verið nokkuð hröð sem hefur skilað sér í metútbreiðslu núna undanfarið (Gula línan) miðað við árstíma. Hinsvegar var ísinn öllu minni á sama tíma árið 1980 eins og sést á grábláu línunni. Einnig sést þarna að vetrahámarkið í fyrra var ansi öflugt (rauð lína).
Breitt vindafar. Einfaldasta skýringin á auknum hafíss umhverfis Suðurskautslandið hlýtur að vera meiri kuldi en það segir þó ekki alla söguna. Í rannsókn á vegum NASA og Breskra aðila, þar sem 19 ára tímabil var rannsakað út frá gervitunglagögnum, var hægt að sýna fram á að markverðar breytingar hefðu átt sér stað í hegðun vinda á svæðinu. Suðlægar vindáttir sem blása frá köldu meginlandinu höfðu aukist á þeim svæðum þar sem hafísaukningin hefur verið mest. Hlýrri hafáttir af norðri hafa reyndar eitthvað aukist á móti en samanlögð áhrif er hægfara aukning kaldra suðlægra vinda sem stuðla að auknum hafís. Um þetta má lesa nánar á vef NASA þar sem segir meðal annars:
“NASA and British Antarctic Survey scientists have reported the first direct evidence that marked changes to Antarctic sea ice drift caused by changing winds are responsible for observed increases in Antarctic sea ice cover in the past two decades. The results help explain why, unlike the dramatic sea ice losses being reported in the Arctic, Antarctic sea ice cover has increased under the effects of climate change.“
Sjá hér: NASA Study Examines Antarctic Sea Ice Increases
Önnur rannsókn ættuð frá Ástralíu kemur einnig inn á þetta en þar er talað um að styrkur vestanvindabeltisins mikla í Suðurhöfum hafi almennt farið vaxandi með hnattrænni hlýnun og að þessir vindar séu nú sterkari en þeir hafa verið í þúsund ár. Þarna er um að ræða svæði sem liggja norður af ísasvæðum Suðurskautslandsins og stuðla að nokkurs konar veðurfarslegri einangrun heimskautasvæðisins í suðri sem um leið fer að hluta til á mis við hnattræna hlýnun. Þannig skapast meiri andstæður í hitafar milli hins kalda Suðurskautslands og hlýnandi sjávar Suðurhafa sem aftur leiðir af sér aukna vinda.
"As the westerly winds are getting tighter they're actually trapping more of the cold air over Antarctica," Abram said. "This is why Antarctica has bucked the trend. Every other continent is warming, and the Arctic is warming fastest of anywhere on earth." (Dr. Nerlie Abram)
Sjá hér: Ocean winds keep Antarctica cold, Australia dry Why Antarctica isn't warming as much as other continents
Þetta á þó ekki við um Antarktíkuskagann sem teygir sig áveðurs í átt að Suður-Ameríku en þar á skaganum hafa íshellur verið að brotna upp í auknum mæli og reyndar hefur einnig nokkuð verið fjallað um það undanfarið að jöklar á vesturhluta Suðurskautslandsins séu farnir að vera ansi óstöðugir og gætu jafnvel horfið að mestu á einhverjum árhundruðum með tilheyrandi hækkun á sjávarborði. En það tekur auðvitað allt sinn tíma.
Svo má benda á enn aðra niðurstöðu til að lengja þetta enn. Komið hefur í ljós að minna er um selturíkan yfirborðssjó þar sem hafísaukningin er mest við Weddelhaf. Selturíkur sjór er eðlisþyngri og virðist ná síður upp til yfirborðs en áður vegna aukins fersksjávar sem er eðlisléttari og á einnig á auðveldara með að frjósa. Þetta hefur síðan áhrif á djúpsjávarmyndum eða eins og segir:
„More immediately, though, a weakening of the mixing in the Weddell Sea could be contributing to some of climate trends observed in Antarctica and the Southern Ocean. By keep warmer ocean waters trapped, the weakening may explain a slowdown in surface warming and expansion in the sea ice, the researchers note.“
Sjá nánar hér: Climate Change Felt in Deep Waters of Antarctica
- - - -
Það er sem sagt margt í þessu og miklu meira en ég get komið fyrir hér. Allavega þá er ástæða til fylgjast með hafísþróuninni þarna suðurfrá sem er önnur en hér á norðurhveli. Norðurskautsísinn virðist hinsvegar ekkert vera að jafna sig þrátt fyrir smá bakslag síðasta sumar og auðvitað fylgist maður ekki síður með því. Verður sjálfur Norðurpólinn kannski íslaus í sumarlok?
Meginflokkur: Vísindi og fræði | Aukaflokkur: Hafís | Facebook
Athugasemdir
Góð samantekt hjá þér Emil. Ég náði þó ekki alveg síðasta hlutanum, um aukningu á seltuminni yfirborðssjó. Getur verið að hlýrri sjór á nokkurra metra dýpi sé að bræða jökla neðanfrá, og að bráðnunin skili sér í saltminni og kaldari yfirborðssjó sem síðan frjósi jafnóðum og hann kemur undan jöklinum?
Samkvæmt greininni sem þú hlekkjar á þá liggja hafstraumar þannig að hlýr yfirborðssjór sekkur að jafnaði í Weddelhafi, skjólmegin við Antartíkuskagann (sama gerist t.d. í Íshafinu, Golfstraumurinn ber hlýtt yfirborðsvatn sem sekkur og myndar djúpstrauma í gagnstæða átt).
Samkvæmt sömu grein hefur seltumagn farið minnkandi, og greinarhöfundar benda á tvær líklegar orsakir: Aukna bráðnun jökla, og aukinnar úrkomu, hvort tveggja afleiðing núverandi veðurfarsbreytinga.
Nú er hafísaukningin að langmestu leyti akkúrat á þessum slóðum (þ.e. í Weddelhafi). Skýringin er þá líklegast sú að aukin bráðnun (og úrkoma) minnkar seltumagn yfirborðsins sem leiðir til meiri ísmyndunar. Vindar, sem standa jafnan af landi, hafa aukist og blása ísnum jafnóðum í norður.
Brynjólfur Þorvarðsson, 17.5.2014 kl. 06:02
Það sem virðist vera talað um þarna er að selturíkur og þéttur hlýsjór hafi áður fyrr náð upp til yfirborðs við Weddel-haf vegna svæðisbundins uppstreymis og þannig hafi stundum myndast þarna stærðarinnar vök á fyrri tíð. Þegar þessi eðlisþungi sjór kom upp úr kafi kólnaði hann jafnharðan og varð þá þyngri í sér en allur sjór í kring og sökk mjög örugglega til hafsbotns og myndaði djúpssjó svipað og gerist hér fyrir norðan. Þetta var því hluti af hinu stóra færibandi hafana.
Aukinn fersksjór við yfirborð á þessum slóðum virðist í dag draga úr þessu ferli en ástæðan gæti verið eins og þú Brynjólfur kemur inn á, aukin úrkoma og/eða aukin bráðnun jökla og íshellna ofansjávar og ekki síður neðansjávar þar sem aðstæður eru þannig.
Emil Hannes Valgeirsson, 17.5.2014 kl. 09:55
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.