10.6.2014 | 15:53
Vesturbærinn, Melabúðin, fótbolti og fjölmiðlar
Ég er aðfluttur Vesturbæingur. Ólst upp í Háaleitishverfinu og er því Frammari að eilífu. Það kemur fyrir að ég fari á völlinn í Frostaskjóli í þeirri veiku von að verða vitni að sigri minna manna gegn innfæddum. Sú von hefur brugðist hingað til. Ég á þó vissar rætur í Vesturbænum, þar bjuggu afi og amma og í heimsóknum þangað var gjarnan farið á leikvöllinn við Hringbraut þar sem styttan er af Héðni Vald. Helsta áskorunin á þeim vettvangi var rennibrautin mikla sem var stærri og meiri dæmi eru um í dag.
Melabúðin er mikil menningar- og verslunarmiðstöð hér í Vesturbænum þótt ekki sé hún stór í sniðum. Þar hittir maður einatt einhvern sem maður þekkir og þar má líka reikna með að sjá að minnsta kosti tvo fræga. Maður getur til dæmis hitt Davíð Oddsson hjá kálinu og Össur Skarphéðins hjá smérinu. Ég fer reyndar ekki í Melabúðina á hverjum degi en í síðustu innkaupaferð voru þar bæði Bjarni Fel og Þorsteinn Joð. Kannski var þetta bara einhver sem líktist Bjarna Fel en engin spurning var með Steina Joð enda var hann í samræðum við símann sinn og tilkynnti hátt og snjallt að hann væri staddur í Melabúðinni.
Báðir þessir kappar hafa komið við sögu í útvarpi og sjónvarpi. Bjarni Fel átti ensku knattspyrnuna þar til hún var flutt annað og hef ég varla fylgst með henni síðan. Svipað gerðist með Formúluna. Ég er alger Marteinn Mosdal þegar kemur að ljósvakamiðlun og fylgist bara með ríkisfjölmiðlum. Umræddan dag í Melabúðinni var einhver útvarpsstöð í gangi og var þar einhver hress útvarpskona að segja frá æðislegri brúðkaupsferð einhverrar poppstjörnu og vísaði þá í myndir og frásögn í erlendu slúðurblaði. Ég endist sjaldan lengur en í 5 mínútur ef ég slysast til að skipta yfir á Bylgjuna. Hressileikinn á þar á ekki við mig enda fara hressilegheit sjaldnast saman við skemmtilegheit. Rás 1 og 2 eru mínar heimastöðvar. Útvarpshlustun virka daga er helst stunduð með morgunkaffinu og í bílnum. Kvöldfréttir er einnig hlustað á en annars eru helgarnar góðir útvarpsdagar. Allur gangur er á því hvor ríkisrásin hefur vinninginn. Góða talmálsþætti er enn að finna á Rás 1 þó margir þeirra séu endurfluttir. Á Rás 1 eru líka góðir tónlistarþættir t.d. milli 8-9 á morgnanna virka daga. Þeir eru betri til hlustunar með morgunmatnum en morgunútvarpið á Rás 2 fyrir kl. 9 þar sem allt of mikið er af óspennandi viðtölum. Reyndar finnst mér öll þessi dægur- og vandamálaviðtöl við fólk út í bæ vera ofmetið útvarpsefni sem og símaviðtöl allskonar. Mér finnst skipta máli í sambandi við tónlist í útvarpi að lög séu spiluð frá upphafi til enda, án þess að talað sé ofan í lögin og svo eiga þau líka að vera rækilega kynnt og afkynnt. Þetta er oft gert betur á Rás1 en á Rás2. Ýmsa ágæta útvarpsmenn er að finna á Rás 2. Ég hef sérstakt dálæti á Guðna Má á sunnudögum enda virðast tónlistarsmekkir okkar skarast vel. Gæti trúað að um sé að ræða einhverja 85% skörun. Hann er til dæmis sá eini sem spilar Linton Kwesi Johnson, ef einhver veit hver það er aðrir en við Guðni.
En nú fer að styttast í HM í knattspyrnu sem er alltaf skemmtilegt og gott að keppnin er ekki lokuð á einhverjum einkastöðvum. Áðurnefndir Vesturbæingar í Melabúðinni hafa komið við sögu í slíkum útsendingum. Man alltaf hvað Bjarni Fel var hissa á vélknúna sjúkravagninum sem brunaði inn á völlinn á HM í Bandaríkjunum þegar einhver varð fyrir hnjaski enda fann hann þá upp nýyrðið hnjaskvagn. Ýmsir upphitunarþættir fyrir HM hafa verið verið á dagskrá Sjónvarpsins. Mér datt í hug er ég horfði á einn slíkan hvort ekki væri sniðugra að endursýna í heild sinni gamla klassíska fótboltaleiki frá fyrri keppnum. Það væri t.d. ekki leiðinlegt að sjá leik Englendinga og Argentínumanna frá því í den er Maradonna skoraði tvö af frægustu mörkum fótboltasögunnar. Tala nú ekki um leiki með Danska landsliðinu í sömu keppni árið 1986 sem var samfellt sigurför þar til Danir steinlágu í því gegn Spánverjum. Áfram með góðar tillögur tengdar fótbolta. Rautt spjald í fótbolta þýðir ekki bara að brotamaður fer út af það sem eftir er leiks heldur einnig að liðið spilar manni færri það sem eftir er leiks og það vegna yfirsjónar eins manns eða óþarfa refsigleði dómara. Taka mætti upp í staðin það fyrirkomulag að reka mann tímabundið af velli, t.d. í tuttugu mínútur ef brotið er ekki þeim mun alvarlegra. Að þeim tíma liðnum gæti maðurinn komið inn á aftur eða einhver í hans stað og værum við þá farin að nálgast þann hátt sem hafður er við í handbolta nema að refstíminn er tuttugu mínútur en ekki tvær. Þetta mættu menn athuga en eins og með góðar tillögur þá ná þær oft ekki lengra en að vera nefndar.
Athugasemdir
Ég ólst upp á Vesturgötunni á sjötta áratugnum. En í huga okkar vesturbæjaraðalsins náði vesturbærinn þá ekki út á Mela. Þeir voru bara óæðra úthverfi. Merkilegt nokk gekk ég samt aldrei í KR sem mér leiddist en hélt með Fram!
Sigurður Þór Guðjónsson, 11.6.2014 kl. 13:47
Þá er ég kannski bara Suðvesturbæingur.
Emil Hannes Valgeirsson, 11.6.2014 kl. 14:59
Ég er nú ekkert alltof hrifin af þessum "hressleika" á hinum ýmsu útvarpsstöðvum - sem er oftar en ekki of yfirdrifinn - hins vegar er ég nýbúin að uppgötva eina útvarpsstöð sem mér líkar vel við "retro 89,5" minnir mig - held að hún gæti alveg hitt í mark hjá þér - endrum og sinnum. Aðeins gömul og góð lög - ekki þó of gömul - og ekkert ofur-hresst leiðindalið !
Lauja, 17.6.2014 kl. 13:41
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.