24.7.2014 | 00:44
Af hafísnum á norðurslóðum
Sumarbráðnun hafíssins er nú í fullum gangi á Norður-Íshafinu og mun halda áfram uns hinu árlega lágmarki verður náð í september. Þá mun koma í ljós í hvernig bráðnunin hefur staðið sig miðað við undanfarin sumur. EIns og staðan er núna er reyndar fátt sem bendir til þess að um einhverja ofurbráðnun verði að ræða, eins og reyndin var sumarið 2012 þegar bráðnunin sló rækilega út fyrri met, en þó er ekki tímabært að afskrifa neitt. Bráðnunin fór frekar rólega af stað að þessu sinni enda voru engin sérstök hlýindi þarna uppfrá í upphafi sumars. Á línuritinu hér að neðan sést hvernig þróunin hefur verið á flatarmáli íssins miðað við nokkur fyrri sumur. Flatarmálið er nú þegar komið undir septemberlágmarkið 1980 þegar ástand hafíssins var mun betra en nú á dögum. Spurning er hvert stefnir í ár. Guli 2014 ferillinn er nálægt rauðu 2013 línunni eins og er, en þó ekki svo fjarri fyrri metárum á sama tíma.
Veðurfar á alltaf heilmikinn þátt í sumarbráðnun. Metsumarið 2012 léku hlýir vindar um Norður-íshafið strax í sumarbyrjun og með hjálp sólarinnar. Stórvaxin lægð gerði svo mikinn usla í byrjun ágúst og flýtti fyrir því sem stefndi í. Sumarið 2013 var síðan allt öðru vísi því þá voru lægðir á sveimi bróðurpart sumars sem byrgðu fyrir sólu á meðan hún var hæst á lofti auk þess sem vindar gerðu meira í því að dreifa úr ísnum frekar en að pakka honum saman. Útkoman það sumar var því meiri útbreiðsla en um leið gisnari ís en sumrin á undan.
Nú í sumar er ástandið aðallega þannig að eftir ríkjandi hægviðri er ísinn nokkuð þéttur og samanpakkaður á meginhluta ísbreiðunnar. Óvenju stórt opið hafsvæði er norður af miðhluta Síberíu en þar kom ísinn reyndar mjög illa undan vetri eins og ég talaði um í hafíspistli 23. maí. Á sumum öðrum svæðum hefur bráðnunin gengið hægar. Ef sumarbráðnunin á að keppa við fyrri lægstu lágmörk þá þarf ísinn meira og minna að hverfa utan við 80. breiddarbauginn (innsti hringurinn á myndinni) sem þýðir að stór hafsvæði þurfa að vera auð norður af Alaska og öllum austurhluta Síberíu í lok sumars. Það er nokkuð í land með það ennþá, sérstaklega á Beaufort-hafi norður af Alaska þar sem er að finna nokkuð öflugan ís sem þangað hefur leitað eftir að hafa lifað af nokkrar sumarvertíðir og þá ekki síst árið í fyrra. Sumarhitar næstu vikur munu hinsvegar herja áfram á þessi svæði sem best þau geta og það er vel mögulegt að dygg aðstoð fáist frá hlýrra meginlandslofti úr suðri, eftir því sem lesa má úr spákortum. Þetta er alla vega langt í frá búið.
Að lokum koma hér tvær myndir sem sýna septemberlágmörkin árin 2012 og 2013. Munurinn er nokkuð áberandi. Sumarið 2012 pakkaðist ísinn að mestu innan við 80 breiddargráðuna. Sumarið 2013 var ísinn dreifðari en þó mjög þunnur á stóru svæði kringum sjálfan pólinn eins og bláu tónarnir bera með sér. Hvernig mun þetta líta út í september nú í ár?
- - - -
Hafískortin sem fylgja sýna áætlaða ísþykk samkvæmt tölvulíkönum.
Kortin eru héðan: http://www7320.nrlssc.navy.mil/hycomARC/arctic.html
Línuritið er unnið frá línuriti af síðunni The Cryosphere Today:
http://arctic.atmos.uiuc.edu/cryosphere/
Einnig má lesa hafísyfirlit frá Bandarísku snjó- og hafísrannsóknarmiðstöðinni, NSDC. http://nsidc.org/arcticseaicenews/
Hafa skal í huga nú sem fyrr að þessi skrif eru áhugamannapælingar óbreytts borgara.
Meginflokkur: Vísindi og fræði | Aukaflokkur: Hafís | Breytt s.d. kl. 00:48 | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.