Sprengigos eða sprungugos?

Atburðirnir við Bárðarbungu kalla fram ýmsar vangaveltur um framhaldið. Samkvæmt því sem jarðafræðingar hafa talað um þá er um að ræða uppsöfnun kviku í grunnu kvikuhólfi undir öskjunni sem er miðja þessa stóra eldstöðvarkerfis. Eins og staðan er nú þá virðast kvikuhreyfingar og skjálftar helst vera austur af Bárðarbunguöskjunni og í norðaustri við brún Dyngjujökuls sem eykur líkurnar á sprunguosi undir jökli sem leiddi af sér að bræðsluvatn flæddi norður í vatnasvið Jökulsár á Fjöllum með tilheyrandi afleiðingum. Gos í og við öskjuna ætti hinsvegar að leiða af sér sprengigos með talsverðu öskufalli auk vatnsbráðnunar og hlaups.

Bárðarbunga kortNú veit maður ekki hvort eitthvað verði úr þessu yfirleitt. Þetta gæti vissulega verið fyrirboði mikilla eldsumbrota þá og þegar, en gæti líka lognast út af. Einnig gæti þetta verið upptaktur að umbrotum sem ná upp á yfirborð síðar, jafnvel eftir allnokkur ár. Það má kannski líkja þessu við bólu sem annaðhvort springur eða hjaðnar með tímanum. Ef hún springur núna alveg á næstunni þá má helst gera ráð fyrir að gosið komi upp þar sem skjálftavirkin er mest þ.e. á jöklinum sjálfum en ekki inni í sjálfri öskjunni. Mér skilst að gos séu í raun sjaldgæf innan Bárðarbunguöskjunnar þótt stór sé. Kvikan kemur vissulega neðan úr undirdjúpunum innan öskjunnar en leitar til hliðar vegna þrýstings ofanfrá. Jökulfargið ofaná öskjunni gæti þar átt sinn þátt.

Það má líka velta annarskonar atburðum fyrir sér. Eldstöðvakerfi Bárðarbungu er mjög stórt. Útfrá öskjunni þar sem kvikan kemur upp úr undirdjúpunum, ganga sprungukerfi aðallega til suðvesturs og norðausturs. Sprungukerfið til suðvesturs er sérlega langt og nær langleiðina að Landmannalaugum. Á þessari suðvestursprungu hafa orðið mikil hraun- og öskugos, t.d. í Vatnaöldum um 870 þegar hið svokallaða landnámslag myndaðist. Mjög stórt gos varð einnig við Veiðivötn 1480 sem olli gjóskufalli um hálft landið. Öskufallið orsakaðist af samspili elds og vatns sem þarna er víða að finna á vatnasviði Tungnaár. Þessi gos eru mun nær okkur í tíma en stórgosið fyrir um 8500 árum þegar Þórsárhraunið mikla rann í sjó fram við Suðurland. Hráefnið í þessi miklu sprungugos fyrri tíma kom frá Bárðarbungu og þá sennilega eftir svipaða upphafsfasa í öskjunni og við erum að sjá nú. Samskonar tilfærsla á kviku í gegnum sprungukerfi megineldstöðva hefur einnig átt sér stað í Skaftáreldum þar sem upptökin voru undir megineldstöðinni við Grímsvötn og í Eldgjárgosinu 934 en sú kvika átti rætur sína í Kötlukerfinu.
Stórt sprungugos á löngu sprungunni suðvestur af Bárðarbungu væri auðvitað mikill atburður ekki síst nú á dögum þegar búið að raða þar upp vatnsaflsvirkjunum og uppistöðulónum.

Miðað við hegðun jarðskorpunnar nú, mætti sennilega frekar veðja á atburði austur eða norðaustur af Bárðarbungu með tilheyrandi flóðum í Jökulsá á Fjöllum eða sprungugosi með hraunrennsli norður af jökli. Ef hinsvegar ekkert gerist á næstunni þá er aldrei að vita. Kvikan sem safnast hefur í kvikuhólfið þarf kannski ekkert endilega að leita út og upp þar sem óróinn er mestur í þessum upphafsfasa. Þetta gæti hinsvegar verið byrjunin á áralöngu ferli svipað og í Kröflueldum á sínum tíma. Allt eldstöðvarkerfið væri þá inni í myndinni og ómögulegt að segja hvar á því, atburðirnir verða, það er að segja ef einhverjir atburðir verða yfirleitt.

Eða það held ég allavega, án þess að vita það.

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Takk fyrir vel framsettar og "stimmúlerandi" hugmyndir!

Bjarni Gunnlaugur (IP-tala skráð) 18.8.2014 kl. 17:52

2 Smámynd: Hrólfur Þ Hraundal

Sæll Emil og takk fyrir greinargott mál.

Fyrirgefðu hvatvísina, en hvenær gaus síðast úr Bárðarbungu. Gjálpar gosið hefur ekki verið kennt við Bárðarbungu þó mögulega sé það afkvæmi hennar, eða hvernig er þetta?  

Hrólfur Þ Hraundal, 18.8.2014 kl. 21:57

3 Smámynd: Emil Hannes Valgeirsson

Þarna hefur ekki gosið í jökli síðan á miðri 19. öld að mér skilst. En síðasta gos sem upprunið er frá Bárðarbungu var sprungugos á árunum 1862-64 en þá rann hraun sem nefnt hefur verið Tröllahraun og er rétt vestur af Vatnajökli í suðvestursprungunni frá Bárðarbungu. Menn vissu annars lítið um staðsetningu þessarar goshrinu á meðan á henni stóð en staðsetningin fékkst ekki fyrr en nokkrum áratugum síðar.

Spurning er með Gjálpargosið. Það var vissulega skjálfti í Bárðabungu sem gæti hafa komið því af stað en kvikan hefur þó verið talinn vera úr Grímsvatnakerfinu.

Annars er maður að reyna að fylgjast með hvað verður úr þessu núna. Skjálftaviknin er mjög þétt ofan Dyngjujökuls og hver veit nema eitthvað gerist þar hvað úr hverju. Best væri þó ef gossprunga opnaðist lengra í norðaustri utan jökuls.

Emil Hannes Valgeirsson, 18.8.2014 kl. 22:59

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband