Flogið yfir Dyngjujökul

Á meðan beðið er eftir gosinu, sem kannski kemur ekki, er alveg tilvalið að skoða gervitunglamynd af Dyngjujökli í boði skelfir.is. Á þeim vef má sjá alla nýjustu jarðskjálftana og hægt að fylgjast með þegar nýir skjálftar bætast við ásamt upplýsingum um stærð þeirra og dýpt. Kortagrunnurinn er frá Google en upplýsingar gögn er frá Veðurstofunni að mér skilst. Um daginn er ég lá yfir þessu datt mér í hug að súmma dálítið nær jökulsporðinum til að skoða aðstæður og kom þá eitt dálítið óvænt í ljós.

Dyngjujökull 1
Fyrst kemur hér yfirlitsmynd með nokkuð víðu sjónarhorni.
 
Dyngjujökull 2
Við fikrum okkur mun nær dökkum jökulsporðinum og fara þá ýmis smáatriði að skýrast betur. Ekkert óvenjulegt þó að sjá en vakin er athygli á litlum hvítum bletti rétt innan við jökulsporð fyrir miðri mynd.
 
Dyngujokull 4
Hér erum við komin öllu neðar og punkturinn á efri myndinni er ekki lengur punktur heldur …
 
Dyngjujökull 5
… farþegaþota á flugi. Liturinn á vélinni er þó eitthvað á skjön sem gæti skýrst af ljósbroti.
 
- - - -
Það er svo sem ekkert óvenjulegt að farþegaþotur séu á sveimi yfir landinu enda landið í þjóðleið milli heimsálfa. Þetta er samt frekar óvenjulegt sjónarhorn á flugvél á flugi ekki síst úr þessari miklu hæð. Það má gera ráð fyrir að gervitunglið sem myndaði landið sé í 600-1000 km hæð eða allt að 100 sinnum meiri hæð en flugvélin sem þýðir að flugvélin er nokkurn vegin í raunstærð miðað við yfirborð landsins. Kannski verður lítið um flugumferð þarna á næstunni en það má þó nefna að væntanlega er vélin löngu flogin hjá enda gæti gervitunglamyndin verið nokkurra ára gömul.
 

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: S i g u r ð u r   S i g u r ð a r s o n

Alveg stórmerkileg tilviljun og kannski ekki ... Ég veit ekki hvað ég er búinn að rýna mikið og oft ofan í Google Maps myndina af norðanverðum Dyngjujökli en samt ekki nóg til þess að ég hafi tekið eftir þessari blessaðri flugvél. Þurfti að skoða þetta nánar í mínum vafra til að láta sannfærast um að þú værir ekki að plata. Svona er maður stundum tortrygginn. Þú ert annars marfalt meiri „nörd“ í þessum efnum en ég ... ;-)

Hvað varðar skelfir.is, þá finnst mér uppsetningin ekkert varpa neinu ljósi á skjálftavirkni undanfarinnar viku, ekkert umfram það sem maður fær frá Veðurstofunni, Jarðvísindastofnun eða Google Maps. Þarna er þó að baki mikil þekking og hugvit hjá hönnuðunum sem gaman væri ef þeir nýttu betur.

Held að þessir stóru hringir séu ekki viðeigandi, betra er að nota depla eða bólur. Um leið væri þakkarvert ef þeir sem að skelfir.is stæðu myndu sýna skjálfavirknina frá upphafi og hvernig hún hafi þróast eftir dögum og stærð skjálfta. Ef til vill á svipaðan hátt og Veðurstofan gerir en nýta sér Google Maps til að skoða þetta í nærmynd. Jafnvel að „trendið“ sé um leið sýnt með línu í gegnum skjálftamergðina.

Staðreyndin er nefnilega sú að skjálftavirknin sem leitt getur til eldgos er orðin tvöföld, eldgos getur komið upp á tveimur stöðum. Spennandi og ógnvænlegt í senn. Helgin verður ábyggilega viðburðarík þarna fyrir norðaustan.

S i g u r ð u r S i g u r ð a r s o n, 22.8.2014 kl. 21:44

2 Smámynd: Emil Hannes Valgeirsson

Þetta er náttúrulega bara jólin hjá okkur náttúrunördunum.

Annars er margt til í því sem þú segir um Skelfir.is en þar er þó gott að fylgjast með því sem er að gerast og sjá nýja skjálfta bætast við þegar öflugar hrinur ganga yfir. En þá er best að stilla fjölda eldri skjálfta mjög í hóf svo þeir myndi ekki eina samfellda klessu.

Emil Hannes Valgeirsson, 22.8.2014 kl. 23:41

3 identicon

Þetta var skemmtileg tilviljun og gaman að ykkur nördum, ég hef varla í mér svona yfirleguáráttu en þess þá heldur gott að fleyta rjóman ofan af með því að lesa niðurstöðurnar ykkar ;-)

Bjarni Gunnlaugur (IP-tala skráð) 23.8.2014 kl. 07:19

4 Smámynd: Emil Hannes Valgeirsson

Nú er það helst af frétta á skjálftavaktinni heima, að skjálftavirknin hefur nú færst enn norðar og er nú farin að nálgast mjög sjálfan jökulsporðinn, eftir að hafa lítið færst síðustu tvo sólarhringa. Kvikan er því enn á hreyfingu norður sem eykur líkurnar á hraungosi utan jökuls - þ.e. ef að gosi verður.

Emil Hannes Valgeirsson, 23.8.2014 kl. 11:37

5 Smámynd: Björn Geir Leifsson

Þessi skrýtnu litrófsbrigði á skugganum tengjast væntanlega því að myndavélin í gervitunglinu er ekki venjuleg litmyndavél heldur svarthvít eða öllu heldur gráskalamyndavél sem tekur fjórar gráskalamyndir í röð til þess að fá fram hverja litmynd. Eina venjulega gráskala og hinar þrjár í gegnum rauða, græna og bláa litsíu. Svo eru þessar myndir stilltar af til að bæta upp fyrir það að gervitunglið ferðast spottakorn milli þess að hleypt er af. Flugvél á ferð í aðra átt færist þá til á annann hátt og því verða fjórar myndir af hlutnum á hreyfingu í mismunandi litum ofan í hver aðra en ekki samstilltar.

Dæmi um þetta er hér:

https://www.google.com/maps/place/Cathy+Terrace,+Englewood+Cliffs,+NJ+07632/@40.899304,-73.948613,83m/data=!3m1!1e3!4m2!3m1!1s0x89c2f1701796d46d:0x7da5339165712bbc?hl=en

Sjáið hvernig það er eins og myndirnar í mismunandi litum hafa hliðrast líka. Það gefur til kynna að braut gervitunglsins er nokkuð þvert á braut flugvélarinnar.

Það er mjög sérstakt við þessa mynd af vélinni yfir Dyngjujökli að myndin af flugvélinni hefur ekki "brotnað" upp í ósamstæðar grunnlitamyndir. En skugginn hefur það hinsvegar þó hliðrunin sé lítil á honum.

Það virkar langsótt en eina sennilega skýringin sem mér getur dottið í hug er að fyrir tilviljun þá var flugvélin á ferð í nánast eða alveg sömu stefnu og gervitunglið. Gervitunglið er á það mikilli ferð í sömu átt og vélin þannig að vélin virðist frá gervitunglinu séð vera yfir sama stað í landslaginu. Sólin er nánast kyrr í afstöðu til jarðar á meðan á þessu stendur. Afstaða skuggans er háð afstöðu bæði flugvélar og gervitungls til sólar svo hann færist svolítið til í myndinni miðað við flugvélina og úr þessu verður því marglitur skuggi þó myndin af flugvélinni hafi slysast til að vera "heil".

Ég vona að mér hafi tekist að útskýra þetta skiljanlega. Maður gæti auðvitað teiknað þetta upp en því nenni ég ekki :)

Hér er slóðin á myndina af vélinni yfir jökulsporðinum í fullri stækkun á google kortavefnum:

https://www.google.se/maps/@64.8230396,-16.9934466,381m/data=!3m1!1e3?hl=is

Björn Geir Leifsson, 24.8.2014 kl. 21:44

6 Smámynd: Emil Hannes Valgeirsson

Það er mjög sennileg skýring að litaflöktið stafi af hreyfingu vélarinnar. Þá veltir maður fyrir sér hvort litsíumyndirnar þrjár séu teknar nánast samtímis en venjulega ósíaða myndin sé þá tekin aðeins á undan eða á eftir hinum þremur. Varla er þetta þó hinn eiginlegi skuggi vélarinnar. Hann ætti að vera víðsfjarri utan myndar enda erum við ekki við miðbaug.

Emil Hannes Valgeirsson, 24.8.2014 kl. 23:10

7 Smámynd: Björn Geir Leifsson

Ég var líka að velta fyrir mér hvort það væri lengri tími milli ósíuðu myndarinnar og hinna litasíuðu en það gengur ekki upp þegar allt er tekið saman. Var meira að segja búinn að skrifa upp þá skýringu áður en ég áttaði mig á hversu ólíkleg hún er. Meðal annars eru allar aðrar svona myndir þannig að allar fjórar myndirnar eru teknar í jafnri röð. Svo er alltaf ósíaða myndin síðust en þarna yrði hún að vera tekin fyrst svo þetta gangi upp.

Hin skýringin passar alls ekki illa. Skugginn er ekki svo fjarri lagi tel ég, sólin hátt á lofti miðsumars. Hreifing skuggans í myndinni það lítil að gæti passað við breytinguna á horni skuggans meðan á myndatökunni stendur.

Auðvitað get ég haft rangt fyrir mér.

Ef maður vissi hvenær myndin er tekin má reikna út hæð vélarinnar ef þetta er skugginn og athugað hvort það geti staðist miðað við flugleið og svoleiðis. :D

Skemmtileg pæling.

Björn Geir Leifsson, 24.8.2014 kl. 23:51

8 Smámynd: Björn Geir Leifsson

Takið líka eftir skugganum af skrokknum á væng vélarinnar og af lóðrétta stélfletinum á þann lárétta. Passar vel við að sólin skíni hátt af himni og við hornið á skuggann á jörðinni. Svo vantar alveg annan skugga ef þetta er ekki sá sanni.

Björn Geir Leifsson, 24.8.2014 kl. 23:54

9 Smámynd: Emil Hannes Valgeirsson

Nei, ég held að skugginn gangi ekki upp nema flugvélin væri í svona 100 metra hæð. Það er væntanlega bara liturinn sem hefur hlaupist undan. Ég þekki bara ekki gervitunglaljósmyndun það vel að ég geti sagt til um samtakamáttinn.

Emil Hannes Valgeirsson, 25.8.2014 kl. 01:02

10 Smámynd: S i g u r ð u r   S i g u r ð a r s o n

Þið eruð nú meiri nördarnir ... ;-) Ef súmmað er duglega inn á myndina sést að hún er ekki tekin lóðrétt niður heldur sér á vinstri hlið flugvélarinnar. Þannig getur Björn Geir sirkað út hallann. Hins vegar er enginn skuggi á jörðu eins og Emil Hannes bendir á. Speglunin hefur hins vegar „speglunarrák“ rétt eins og hvíta vélin. Allt er þetta bara spekúlasjónir um keisarans skegg.

S i g u r ð u r S i g u r ð a r s o n, 25.8.2014 kl. 12:59

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband