Hversu gott var Reykjavíkursumarið 2014?

Nú eru aðal-sumarmánuðirnir að baki og landsmenn sjálfsagt missáttir við sitt sumarveður eftir því hvar á landinu þeir búa. Hér í Reykjavík var talsvert kvartað yfir veðri langt fram eftir sumri og sjálfsagt ekki að ástæðulausu en það rættist talsvert úr málum í ágúst. Sjálfsagt hafa viðmiðanir um það hvað telst gott sumar eitthvað breyst eftir nokkur góð sumur í röð undanfarin ár þar til kom að sumrinu í fyrra sem var eiginlega afleitt í alla staði. En hvað telst gott sumar og hvernig kom sumarið 2014 út?

Árið 1986 fór ég að skrá niður veðrið í Reykjavík get því borið saman einstök ár veðurfarslega séð. Eins og ég hef minnst á áður er innifalið í þessum skráningum, einkunnakerfi sem byggist á veðurþáttunum fjórum: sólskini, úrkomu, vindi og hita. Hver þessara fjögurra veðurþátta leggja 0-2 stig til einkunnar dagsins sem þannig getur verið á bilinu 0-8 stig. Mánaðareinkunn reiknast svo út frá meðaltali allra daga og með sömu aðferð má reikna út meðaleinkunn heilu sumranna.
Niðurstöðuna má sjá á eftirfarandi súluriti þar sem sjá má að nýliðið sumar í Reykjavík fær einkunnina 4,73 sem er nánast í meðallagi tímabilsins. Hæstu einkunn fær sumarið 2009: 5,37 en sumarið 1989 er það lakasta með 4,10 stig. Niðurstöðum má taka með vissum fyrirvara enda miðast einkunnir bara við mitt skráningarkerfi. En hér er myndin:

Sumareinkunnir 1986-2014

Hér kemur mjög stuttaraleg lýsing á öllum sumrum frá árinu 1986. Tek fram að aðallega er miðað við mitt heimapláss, Reykjavík, nema annað sé tekið fram:

1986 4,46 Júní var dimmur, kaldur og blautur suðvestanlands en júlí og ágúst öllu betri.
1987 4,73 Sólríkt og þurrt í júní og ágúst, en júlí var sólarlítill og blautur.
1988 4,30 Afar slæmur júnímánuður og einn sá sólarminnsti í Reykjavík. Júlí var ágætur en ágúst ekkert sérstakur. Óvenjumikið þrumuveður suðvestanlands þann 10. júlí.
1989 4,10 Að þessu sinni var það júlí sem brást algerlega og var sá sólarminnsti sem mælst hefur í Reykjavík auk þess að vera kaldur. Júní og ágúst voru einnig frekar svalir er skárri að öðru leyti.
1990 4,50 Lítið eftirminnilegt sumar sem var í slöku meðallagi. Reykjavíkurhitinn júlí var þó sá hæsti í 22 ár.
1991 4,93 Júní var sérstaklega sólríkur og á eftir fylgdi heitasti júlímánuður sem komið hefur í Reykjavík og voru slegin hitamet víða um land. Í mikilli hitabylgju náði hitinn 23,2 stigum í borginni þann 9. júlí en sá mánuður varð hlýjastur allra mánaða í Reykjavík 13,0 gráður.  
1992 4,37 Sumarið var ekkert sérstakt og var nokkuð kalt. Eftirminnilegast er kuldakastið um Jónsmessuna í annars mjög köldum júnímánuði, þá snjóaði fyrir norðan og einnig til fjalla sv-lands.
1993 4,70 Ágætt tíðarfar en besta veðrið var í júlí. Þá var mjög bjart og þurrt í Reykjavík en kalt fyrir norðan.
1994 4,80 Sumarið var sæmilegt með köldum júnímánuði en júlí var frekar hlýr.
1995 4,33 Sumarið ekki gott nema hvað júlí var ágætur. Ágúst var mjög þungbúinn.
1996 4,63 Fátt eftirminnilegt þetta sumar. Ágúst var mjög dapur í Reykjavík en góður kafli kom um miðjan júlí.
1997 4,80 Sumarið var þurrt og bjart framan af en júlí og ágúst ollu vonbrigðum SV-lands.
1998 4,93 Sumarið var gott í heildina. Júnímánuður var bjartur og þurr og var ásamt ágúst sá hlýjasti í mörg ár.
1999 4,60 Sumarið var frekar blautt þar til í ágúst, en þá var bjart og hlýtt.
2000 4,77 Ágætt sumar með köflum en mjög sólríkt og þurrt var fyrir norðan og austan.
2001 4,70 Sumarið var ágætt í heildina þó lítið væri um hlýja daga.
2002 4,57 Af sumarmánuðunum var júní að þessu sinni sá hlýjasti, hæst komst þá hitinn í 22 stig sem er hitamet fyrir júní í Rvík. Sumarið þótti ekkert sérstakt en var nokkuð milt.
2003 4,80 Júní og ágúst urðu hlýrri en nokkru sinni í Reykjavík enda var sumarið það hlýjasta sem mælst hafði í borginni sem og víða um land. Nokkuð rigndi þó með köflum.
2004 5,13 Sumarið var bæði hlýtt og sólríkt. Í ágúst gerði mikla hitabylgju SV-lands þar sem hitinn fór yfir 20 stig í borginni fjóra daga í röð, nýtt hitamet í Reykjavík var þá sett í Reykjavík 24,8°.
2005 4,73 Sumarið var sæmilegt fyrir utan þungbúinn og svalan kafla í júlí.
2006 4,47 Sumarið var þungbúið og blautt suðvestanlands framan af en rættist heldur úr því er á leið.
2007 5,13 Sumarið var yfirleitt hlýtt og þurrt og mjög gott um mest allt land. Í Reykjavík var júlímánuður sá næst hlýjasti frá upphafi.
2008 4,90 Afar sólríkur og þurr júnímanaður en síðan köflóttara, mjög rigningarsamt í lok ágúst. Aftur var slegið hitamet í Reykjavík í hitabylgju undir lok júlí þegar hitinn komst í 25,7°.
2009 5,37 Mjög gott sumar sunnan og vestanlands, sérstaklega júlímánuður sem var sá þurrasti í Reykjavík síðan 1889 og sjálfsagt einn af bestu veðurmánuðum sem komið hafa í Reykjavík.
2010 5,13 Eitt hlýjasta sumar í Reykjavík. Júní var sá hlýjasti frá upphafi, júlí jafnaði metið frá 1991 og ágúst með þeim hlýjustu. Aldrei var þó um að ræða verulega hitabylgju.
2011 5,03 Sumarið byrjaði heldur kuldalega, sérstaklega norðaustanlands. Annars yfirleitt bjart og þurrt suðvestanlands.
2012 5,33 Mjög gott sumar víðast hvar. Sólríkt, þurrt og hlýtt. Óvenjudjúp sumarlægð kom suður að landi 22. júlí.
2013 4,37 Mikið bakslag í veðurgæðum sunnan- og vestanlands. Ágætis kafli seinni hlutann í júlí bjargaði þó miklu.
2014 4,73 Sæmilegt sumar þrátt fyrir vætu og fáa sólardaga fram yfir mitt sumar. Júní var með þeim allra hlýjustu en jafnframt einn sá alblautasti. Ágúst nokkuð góður en endaði með óveðri í lok mánaðar.

- - - -
Þar höfum við það. Einhverjum gæti fundist það nokkuð rausnarlegt hjá mér að gefa sumarveðrinu í Reykjavík meðalgóða einkunn eftir allt sólarleysið og rigninguna en þetta er bara það sem kemur út úr einkunnakerfinu. Einkunn sumarsins er nokkuð undir meðaltali 10 áranna á undan (4,96) en hafa má í huga að með í reikningnum eru talsvert kaldari og lakari sumur frá fyrri hluta tímabilsins. Þetta var hlýtt sumar og ofar meðalhita síðustu 10 ára í borginni þótt kviksalifrið á Veðurstofunni hafi ekki alveg náð 20 stigum. Fólk er kröfuharðara á veður um hásumarið í júlí og fram að Verslunarmannahelgi en bestu veður sumarsins að þessu sinni voru eiginlega utan þess tíma. En hvað sem öllu líður þá var þetta nokkuð skárra en í fyrra.

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Ágúst H Bjarnason

Þetta er skemmtileg framsetning og gaman að reyna að muna hvernig maður upplifði þessi sumur. Veðurminnið er þó stopult og líklega man maður best eftir sólskinsdögunum, en síður eftir rigningunni.

Ágúst H Bjarnason, 2.9.2014 kl. 07:10

2 Smámynd: Sigurður Þór Guðjónsson

Það sem af er sumars 2014 verðskuldar alveg a.m.k. meðaleinkunn að mínum dómi.  Það nær engri átt það níð og rógburður sem það hefur mátt þola! Annars finnst mér ekki endilega auðvelt að meta sumur og hvað á þá að hafa mest vægi. Hvað á segja um votviðrasamt en mjög hlýtt sumar eða sólríkt og mjög kalt sumar? Hvort tveggja kemur alloft fyrir. Mér finnst hitaþátturinn vega þyngra en annað og eigi ekki að meta hann alveg að jöfnu við sólarstundir og úrkomu í gæðametingi. Það er fyrst og fremst hitinn sem skapar sumarið. Án sæmilegs hita er ekkert sumar.

Sigurður Þór Guðjónsson, 2.9.2014 kl. 14:11

3 Smámynd: Emil Hannes Valgeirsson

Svo má líka hlusta á þjóðina. Ef fólkinu finnst rigningingin ekki góð, þá er hún ekki góð, sama hvert hitastigið er. Reyndar hef ég staðið í vörnum fyrir þessu sumarveðri í samtölum við fólk sem hefur jafnvel hótað því að flýja land vegna þessa sumarleysis.

En einkunnakerfið hlustar ekki á neinn og tekur ekki einu sinni mark á því hvað mér gæti fundist.

Emil Hannes Valgeirsson, 2.9.2014 kl. 15:46

4 Smámynd: Sigurður Þór Guðjónsson

Ágúst var í lagi hvað sólina varðar (og þrír síðustu dagarnir í júlí) )og hann er einn þriðji sumarsins ef það er talið vera þrír  mánuðir.  Nei afsakið ... ágúst hefur víst breyst í haustmánuð ef marka má umræður á feisbúkk og víðar.  

Sigurður Þór Guðjónsson, 2.9.2014 kl. 16:15

5 Smámynd: Ágúst H Bjarnason

Það er merkilegt hve mörgum þykir haustið byrja fljótlega eftir verslunarmannahelgina. Líklega er það vegna þess að skólarnir byrja þá.

Í gamla daga byrjuðu skólarnir ekki fyrr en 1. október ef ég man rétt. Þá haustaði öruggleag miklu seinna en núna.

Ágúst H Bjarnason, 3.9.2014 kl. 12:45

6 Smámynd: Emil Hannes Valgeirsson

Ég hef alltaf litið á september sem haustmánuð enda var það skólamánuður í mínum uppvexti. Ég ólst upp á kuldaskeiðinu á seinni hluta síðustu aldar og er eiginlega jafn gamall því. Sumarið finnst mér vera þrír mánuður en vetramánuðirnir fimm talsins, frá 1. nóvember til 31. mars.

Emil Hannes Valgeirsson, 3.9.2014 kl. 16:24

7 identicon

Athyglisvert og virðist yfirleitt gefa nokkuð rétta mynd af hvernig sumrin hafa verið á höfuðborgarsvæðinu. Þarna sést að allra bestu sumur virðast geta náð rúmlega 5,3 á þessum mælikvarða - það er eiginlega verst að allra versta sumarið á 20. öld (1983) skuli ekki vera þarna til samnburðar til að sjá hvar "botninn" er (kannski væri hægt að giska u.þ.b. á töluna fyrir það með gögnum úr Veðráttunni...).

Björn Jónsson (IP-tala skráð) 4.9.2014 kl. 23:53

8 Smámynd: Emil Hannes Valgeirsson

Ég man vel eftir sumrinu sem aldrei kom, 1983 og það væri gaman að eiga það skráð. En ég prófaði reyndar fyrir nokkrum árum að meta það út frá Veðráttunni og vedur.is og fékk út einkunnina 3,53 sem er algerlega afleit einkunn. Það er samt erfitt að meta þetta á sama hátt svona eftirá. Kuldinn þetta sumar var auðvitað alveg einstakur sem lagðist ofaná annað slæmt þannig að það er ekki víst að einkunnagjöfin sé of ströng.

Einstakir mánuðuir sumarið 1983 væru samkvæmt þessi mati þannig:

Júní: 4,1 - Júlí: 3,2 - Ágúst: 3,3

Emil Hannes Valgeirsson, 5.9.2014 kl. 10:29

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband