20.9.2014 | 23:43
Stóra sumarveðurmyndin 1986-2014
Af þeim veðurgrafíkmyndum sem ég hef sett saman þá er stóra sumarveðurmyndin sú margbrotnasta. Myndin sýnir með litaskiptingu hvaða daga sólin hefur skinið og úrkoma fallið í Reykjavík sumarmánuðina júní-ágúst samkvæmt mínum skráningum sem hófust þann 7. júní 1986. Litakvarðinn er sýndur undir myndinni en annars ætti þetta að skýra sig sjálft. Tölurnar hægra megin sýna skráða sólardaga í Reykjavík þegar lagðir hafa verið saman heilir og hálfir sólardagar. Samkvæmt tölunum sést að á sólríkum sumrum eru sólardagar nálega tvöfalt fleiri en á sólarsnauðum sumrum. Myndina birti ég fyrst eftir sólarsumarið 2012 en síðan hafa bæst við tvö sumur sem eru öllu sólarsnauðari og blautari en sumrin þar á undan. Nánari bollaleggingar eru undir myndinni.
Nánari bollaleggingar: Allt fram til hinna síðustu ára má segja sumur með 25-35 sólardögum hafi verið normið. Sumarið 1991 þótti á sínum tíma einstaklega gott og þá skráði ég 38,5 sólardaga en þá var júní sérlega sólríkur. Árið 2004 kom svo fyrsta 40 sólardaga sumarið sem ég skrái en eftir það hafa fjögur bæst við. Síðustu tvö sumur voru því mikil viðbrigði fyrir okkur hér suðvestanlands. Hvað varðar fjölda sólardaga koma þau mjög álíka illa út og munar bara einum einu degi, sumrinu 2014 í óhag með 25,5 sólardaga. Þar af voru eiginlegir sólardagar 14 talsins en restin er uppsöfnuð af hálfum sólardögum. Við höfum svo sem upplifað sólarsnauðari sumur í Reykjavík en merkilegt er þó að engan almennilegan sólardag skrái ég á tímabilinu frá 8. júní til 28. júlí í sumar, eða í 51 dag. Þetta er næstum því met hjá mér en sumarið 1989 skráðist enginn heill sólardagur í 52 daga á tímabilinu 1. júlí til 20. ágúst. Annars er sumarið 1995 sólarminnsta sumarið á tímabilinu en einnig eru sumrin 1988, 1989 og 1992 ansi döpur.- - - -
Svo má líka skoða einstaka mánuði frá 1986. Samanburðinn hér að neðan er unninn upp úr Veðurstofutölum og snýst um sólskinsstundir og úrkomumagn. Athyglisvert er að öll jákvæðu metin eru frá árunum 2004-2012. Neikvæðu metin voru öll frá síðustu öld, þar til kom að sumrinu 2014. Úrkoman í júní síðastliðnum var sú mesta síðan samfelldar mælingar hófust árið 1920 en í júlí var úrkoman í Reykjavík sú mesta síðan 1984.
- - - -
Í lokin. September er ekki talinn með í þessu yfirliti þó hann sé talinn sumarmánuður. Mér finnst hann þó ekki vera eiginlegur sumarmánuður og það þýðir ekkert að kvarta yfir því auk þess sem varla er pláss fyrir fleiri mánuði í þessu knappa plássi.
Meginflokkur: Vísindi og fræði | Aukaflokkur: Veður | Facebook
Athugasemdir
Það væri spennandi að taka september með í þessa mynd, sérstaklega í ljósi þess hve mikið hefur rignt í mánuðinum.
Samkvæmt mínum kokkabókum hefur úrkoman það sem af er mánuðinum verið amk 60 mm á Hólmsheiðinni - og nú þegar þetta er skrifað rignir hraustlega.
Er þessi úrkoma það sem af er hér á höfuðborgarsvæðinu ekki að nálgast met (merkilegt að Trausti, sem er alltaf að fjalla um met, hitamet og sólar(leysis)met, fjallar lítið um úrkomumet. Hvernig ætli standi á því?!)?
Torfi Kristján Stefánsson, 21.9.2014 kl. 20:18
Sennilega er nú talsvert í úrkomumet. Í september árið 2008 var úrkoman 173,7 mm og árið 2007 var hún 163,4 mm. Þetta eru hæstu úrkomutölur í september frá upphafi samfelldra mælinga 1920 skv. Veðurstofu. Árið 1887 er þó til mæling upp á 176 mm.
En september er ekki með í þessu enda er þetta uppgjör fyrir júní, júlí og ágúst sem ég kalla aðal-sumarmánuðina. Það hefur þó verið vel hlýtt í september að þessu sinni en það er ekki alltaf þannig.
Emil Hannes Valgeirsson, 21.9.2014 kl. 23:12
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.