Stjörnumótíf við Kirkjufellsfoss

Þetta fyrsta orð í fyrirsögninni er ekki gott orð og hefur kannski ekki verið notað áður. En hvað um það? Íslensk náttúra þykir einstaklega myndræn og framandi og hefur vakið sífellt meiri athygli á undanförnum árum. Landið hefur verið nefnt draumaland ljósmyndara þar sem tiltölulega auðvelt er að nálgast ljósmyndamótíf sem eru engu öðru lík á heimsvísu. Það er ekki bara aukin dreifing ljósmynda í gegnum netheima sem hjálpar þarna til því á sama tíma hefur stafrænni ljósmyndatækni fleygt mjög fram að ógleymdri eftirvinnslu í myndvinnsluforritum sem getur gert hinar grámuskulegustu myndir að útópískum listaverkum. Atvinnuljósmyndarinn hefur í leiðinni fengið harða samkeppni frá vel græjuðum amatörum með gott auga fyrir myndbyggingu, litum og góðum mótífum.

Kirkjufell I
Sum myndefnin koma þó fram oftar en önnur eins og verða vill og nýir staðir sem áður voru lítt þekktir slá í gegn. Óhætt er að segja að Kirkjufellsfoss sé einn slíkra staða. Kirkjufellsfoss í Kirkjufellsá er lítill foss rétt neðan við smábrú á vegarslóða sem liggur upp frá þjóðveginum á norðanverðu Snæfellsnesi. Fossinn og áin eru auðvitað kennd við Kirkjufellið sem rís þarna upp á sinn sérstaka hátt, í senn vinalegt og óárennilegt til uppgöngu.

Myndefnið býður líka upp á góða möguleika á ýmsum stælum, ekki síst eftir að dagsbirtu er tekið að bregða, en langur lýsingartími gerir fossinn þá að mjúkri hvítri slæðu. Gott virðist að nota gleiðlinsu til að fá sem víðasta sjónarhorn og ekki er þá verra ef norðurljósin fá að leika um himininn eða regnboginn eins og hann leggur sig. Þessu hafa ljósmyndarar gert góð skil á undanförnum árum og Kirkjufellið með Kirkjufellsfoss í forgrunni, hefur þannig orðið eitt af skærustu stjörnumótífum hér á landi meðal innlendra og erlendra ljósmyndara og hefur hróður þess borist víða.

Þær fínu myndir sem teknar hafa verið á þessum stað hafa átt sinn þátt í að koma Kirkjufellinu á heimskort alnetsins þar sem gjarnan eru teknir saman TOP10-listar yfir hitt og þetta. Þar má til dæmis nefna lista eins og: 10 Most Beautiful mountains in the world – 10 Spectacular hidden paradise locations from around the world – 10 most beautiful Places around the world.

Kirkjufell samsett

- - - -

Sjálfur hef ég ekki komið akkúrat að þessum stað og notast því við myndir héðan og þaðan. Stóra myndin er tekin af g.hennings eins og hún kallar sig á Flyckr.com

Höfundar og uppruni annarra mynda eru: CoolbieReTony PowerPiriya (Pete)Conor McNeill / Peter Rolf Hammer


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband