Holuhraunsgosið vefmyndavélað

Í síðustu bloggfærslu fór ég stuttlega yfir aðdraganda eldgossins í Holuhrauni og lofaði jafnframt framhaldi með skjámyndum af vefmyndavél Mílu sem staðið hefur vaktina allan gostímann, okkur sem heima sitjum til mikils gagns og gleði. Myndavélin er staðsett á Vaðöldu skammt suðaustur af Öskju og er í um 20 km fjarlægð frá gosstöðvunum. Af síðustu fréttum að dæma er nú lítið eftir af gosinu og gæti það allt eins verið búið. Það bauð þó oft upp á fínt sjónarspil í haust og í vetur og eitthvað af því hefur maður náð að fanga með skjámyndatöku. Hefjum þá sýninguna:

Míla 29. ágúst 2014
Myndasýningin hefst þar sem ég endaði síðast, en aðfaranótt 29. ágúst hófst loksins gosið sem beðið hafði verið eftir. Það var reyndar svo lítilfjörlegt að það var eiginlega búið þegar þjóðin frétti fyrst af því. Myndin er tekinn umræddan laugardagsmorgun en þá voru bara gufubólstrar sjáanlegir og gosið í raun búið. En þetta var bara forleikurinn.

Míla 31. ágúst 2014
Aðfaranótt 31. ágúst hófst hið eiginlega gos. Á vefmyndavélum mátti sjá talsverða gufubólstra en þegar fór að skyggja um kvöldið komu eldarnir betur í ljós og þá mátti sjá þunnfljótandi hraunið vella frá eldsprungunni. Myndin er tekin með þrengra sjónarhorni en þær sem á eftir koma.

Míla 5. sept 2014
Að kvöldi hins 5. september sést hvar hraunstraumurinn stefnir ákveðið í átt að Vaðöldu í fjólublárri birtu. Hraunkanturinn myndar fallegan boga í framlínunni en þarna hefur hraunið náð að renna um 10 kílómetra frá upptökum.

Míla 15. sept 2014
Helvíti flott er kannski það sem lýsir þessu best þar sem eldarnir lýsa upp skýin og gufubólstrana. Hraunstrauminn hefur þarna fundið sér nýja leið sunnan við fyrstu framrásina. Radartækið sem sumir nefndu eftir stjörnstríðsþjarkanum R2-D2 blikkar sínu ljósi til samlætis.

Míla 20. sept 2014
Lítið sést hér til gossins en síðdegisbirtan slær gullnum ljóma yfir gasmóðuna. Við sjáum votta fyrir gufubólstrum af hrauninu sem þarna hefur náð að jökulsánni. Glansandi R2-D2 stendur vörðinn sem fyrr.

Míla 22. sept 2014
Tveimur dögum síðar eru allt annað upp á teningnum. Það mætti halda að þetta væri dökkgrátt öskuský en svo er ekki. Þessar miklu birtuandstæður myndast þegar þéttur gufumökkurinn birgir fyrir sólskinið á móti og myndar dramatískan skugga yfir Vaðöldu.

Míla 26. okt 2014
Þessi er öllu klassískari en þarna í svartamyrkrinu er það gosið sjálft og glóandi hraunið sem lýsa upp gufubólstrana. Hraunið var á þessum tíma sífellt að finna sér nýjar leiðir meðfram suðurkanti hraunsins, sem þar með breiddi stöðugt úr sér í stað þess að lengjast.

Míla 7. des 2014
Fullt tungl eftir miðnætti og snævi þakin jörð ná hér að setja sinn svip á sjónarspilið. Hraunglóð má nú víða sjá við norðanverðan hraunkantinn. Ekki er þó um að ræða samstillt rennsli enda var hraunið aðallega að þykkna frekar en að sækja fram að einhverju ráði.

Míla 26. des 2014
Vel sést hér yfir víðfeðma hraunbreiðuna í skammdegisbirtunni. Talsverður mökkur en annars heiður himinn.

Míla 21. feb 2015
Eftir áramót var lítið um skjámyndatökur enda farið að draga úr goskraftinum og gjarnan þokusælt á hálendinu. Nokkuð ákveðið dró síðan úr gosinu nú í febrúar og þann 21. var ekki annað að sjá en smá týru upp úr holunni. Þannig leggst myrkrið yfir á ný þarna á hálendinu. Hvort eða hvenær annar kafli hefst í þessari sögu veit enginn. Ýmsir möguleikar eru vissulega í stöðunni en þeir bíða síns tíma.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband