Kanar í staðbundinni kuldasúpu

Það fer ekki á milli mála að kalt hefur verið víða í Norður-Ameríku. En hversu víðtækir eru þessir kuldar? Ekki svo miklir eða eiginlega bara mjög litlir eins og sjá má á þessu korti sem sýnir frávik af meðalhita á hverjum stað. Í heildina hefur verið hlýtt á jörðinni fyrir utan þennan kalda blett í vestri og flest sem bendir til þess að hlýtt verði áfram á jörðinni og jafnvel enn hlýrra en var í fyrra. Sjáum þó til með það.

Heimshiti feb 2015

Þótt Ameríkanar margir hverjir hafi setið í kuldasúpunni þá flæðir sú súpa ekki víða, helst að við hér fáum smjörþefinn í útsynningnum. Talsvert hlýrra en venjulega hefur verið í Skandinavíu, Síberíu, Alaska og annarsstaðar á Kyrrahafsströnd N-Ameríku að ógleymdu sjálfu N-Íshafinu. Reyndar er það svo að hafísinn á Norðurhveli er með allra minnsta móti núna miðað við árstíma en þetta er annars sá árstími sem ísinn er í hámarki á Norðurhveli. Hvort það hafi eitthvað að segja þegar kemur að sumarbráðnun mun koma í ljós síðar eins og annað. Hér að neðan má sjá hvernig hafískúrfan lítur út núna um hávetur samkvæmt Bandarísku snjó- og hafísmiðstöðinni. Útbreiðslan er greinilega undir meðallagi og mun minni núna en hún var veturinn fyrir metlágmarkið, sumarið 2012.

Hafís 7. mars 2015


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Arnór Baldvinsson

Sæll Emil,

Hérna í Port Angeles á norðvesturhorni Bandaríkjann er búið að vera gott veður undanfarið, sól og blíða og um 10-12 stiga hiti á daginn.  Meðan austurströndin er á kafi í kulda og snjó, þá er hér minni snjór í fjöllum en oftast áður og eru menn uggandi um vatnsforða fyrir sumarið.  

Kveðja

Arnór Baldvinsson, 9.3.2015 kl. 06:00

2 Smámynd: Brynjólfur Þorvarðsson

Athyglisvert þetta með hafísinn - og ekki síður hversu lítill og afmarkaður þessi kuldapollur er!

Brynjólfur Þorvarðsson, 9.3.2015 kl. 12:09

3 Smámynd: Emil Hannes Valgeirsson

Það sem Arnór nefnir um snjóleysi í fjöllum á NV-horni Bandaríkjanna stemmir vel við þetta. En með hafísinn þá er það einkum á svæðum sem liggja að Kyrrahafinu sem ísinn er óvenju lítill svo sem út af Beringssundi. Það tengist þá hlýindum við norðanvert Kyrrahaf, sem ná alveg frá Kaliforníu norður til Alaska og áfram til Japans. Útbreiðsla hafíss Atlantshafsmegin er hinsvegar nær meðallagi.

Allt tengist þetta svo stóru bylgjuhreyfingunum í lofti og skotvindunum. Hlýjar sunnanáttir hafa ríkt vestur af N-Ameríku en köldu norðanáttirnar hafa aftur á móti helst yfir mið- og austurhluta Bandaríkjanna. Þegar það kalda loft streymir svo út á Atlantshafið er það gott fóður í lægðirnar miklu sem herja á okkur að ógleymdum útsynningséljunum sem myndast í kalda loftinu suðvesturundan.

Emil Hannes Valgeirsson, 9.3.2015 kl. 13:08

4 identicon

Þessi viðmiðun við 2011-12 er nokkuð villandi því þá var einhver mesti hafís þarna á norðurslóðum. Á síðustu tveimur vetrum hefur hins vegar verið mun meiri hafís, eða sem nemur tveim milljónum ferkílómetrum. Þetta er þannig þriðji veturinn í röð sem hafís er mikill á svæðinu.

Enn eitt sem setur spurningarmerki um mikla hnattræna hlýnun.

Torfi Stefánsson (IP-tala skráð) 9.3.2015 kl. 13:45

5 Smámynd: Emil Hannes Valgeirsson

Skil þig ekki alveg Torfi. Hafís á Norðurhveli er með minnsta móti um þessar mundir og því getur þetta ekki verið þriðji veturinn í röð sem hafís er mikill á svæðinu. Það má því setja spurningarmerki við spurningarmerkið þitt um mikla hnattræna hlýnun.http://emilhannes.blog.is/users/03/emilhannes/img/icecover_current_new.png

Emil Hannes Valgeirsson, 9.3.2015 kl. 15:15

6 Smámynd: Torfi Kristján Stefánsson

Misskildi að vísu aðeins fyrsta grafið en það stenst þó hjá mér að veturinn 2011-12 var lítill ís en síðan jókst hann 2012-13 og 2013-14 eins og sést á þessu grafi sem þú varst að setja inn. Hafísinn er þannig að aukast á ný eftir að hafa verið í sögulegri lægð veturinn 2011-12. Veturinn í vetur er þannig þriðji veturinn í röð sem hafís hefur aukist, eins og kemur reyndar fram hvað hann varðar í fyrsta innleggi þínu.
Það sýnir að mínu mati að dregið hefur verið úr hnattrænu hlýnuninni (ekki aukist, sem ég sagði auðvitað aldrei sjálfur afneitunarsinninn!).

Torfi Kristján Stefánsson, 9.3.2015 kl. 16:31

7 Smámynd: Emil Hannes Valgeirsson

Ég held þú ættir að athuga gröfin aðeins betur. Hafísinn var t.d. ekki í  sögulegri lægð veturinn 2011-2012 en það var hinsvegar lítill hafís um þetta leyti árið 2011 (sem tilheyrir vetrinum 2010-2011). Skoðaðu hvar svarta línan fyrir 2015 er stödd núna á seinna línuritinu en hún er greinilega komin undir öll viðmiðunarárin. Þú sérð líka dýfuna á bláu línunni í grafinu með bloggfærslunni. Ég skil því ekki hvernig þú getur sagt að hafísinn hafi aukist núna þriðja veturinn í röð.

Emil Hannes Valgeirsson, 9.3.2015 kl. 16:55

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband